„Öll lögin verða að koma af vínyl.“

Viðtöl

Árni Kristjánsson hefur getið sér gott orð sem plötusnúður og kemur reglulega fram undir þeim formerkjum á Kaffibarnum og Prikinu. Síðastliðinn október flutti hann heim frá Japan eftir átta og hálfs árs dvöl í stórborginni Tókýó þar sem hann stundaði nám og vinnu. 

Í dag sendir hann frá sér níunda innslagið í Boogie Mixx seríunni svokallaðri (sjá hér fyrir ofan) en um ræðir röð DJ-mixa sem Árni hefur gefið út með reglulegu millibili frá árinu 2008. Mixin innihalda ýmsa dansvæna músík frá ákveðnu tímabili í tónlistarsögunni:

„Ég einblíni aðallega á árin þegar trommuheilar komu á sjónarsviðið, eða sirka 1978-1986. Innan þessara ára er nánast endalaust magn af góðri tónlist.“

– Árni Kristjánsson

Í tilefni útgáfunnar forvitnaðist SKE nánar um tónlistina, vinnuna og ferlið.

SKE: Uppáhalds plata í mixinu? 

ÁK: Það er erfitt að velja en ég hlusta mikið á Turn You On með Full Force sem er fimmta lagið í mixinu. Rosalega hart funk en svo fallega samið, með alls kyns úturdúrum og brúum milli kafla. Mikið uppáhald þótt ég haldi mikið upp á öll lögin í mixinu, annars hefðu þau ekki fengið plássið sitt.

SKE: Hvað fer í að gera svona mix? 

ÁK: Ég setti mér ákveðnar reglur þegar ég byrjaði. Öll lögin verða að koma af vínyl og vera í sem bestum gæðum. Það er að segja, best er að lagið sé á 12-tommu og eina lagið á sinni hlið en ég hef mikið líka sett inn lög af breiðskífum sem hafa kannski fengið minni athygli en smáskífurnar af sömu plötu. Svo setti ég mér aðrar minni reglur síðarmeir eins og fyrsta lagið verður að vera mest grípandi, reyni að fara í gegnum þrjá til fjóra mismunandi stíla (s.s. funk, boogie, diskó, freestyle, 2-step og svo framvegis) og svo að skapa sögu með mixinu. Svo enda ég yfirleitt á rólegu lagi.

SKE: Hversu langt er sköpunarferlið? 

ÁK: Það tekur mig vanalega níu til átján mánuði að henda saman í svona mix en það fer allt eftir aðgengi að plötunum og hversu upptekinn ég er að öllu öðru. Þegar ég bjó í Tókýó fór ég nokkrum sinnum í viku og tók hring um plötubúðir borgarinnar og náði að finna alls kyns plötur. Eftir heimkomuna hef ég aðallega notast við netverslanir og uppboðsvefi svo sem eBay en af og til koma spennandi uppboð á stórum söfnum sem innihalda plötur sem hafa verið lengi á innkaupalistanum.

SKE: Er einhver ein plata sem stendur ofarlega á innkaupalistanum? 

ÁK: Ef ég ætti þrusu mikið af pening væri ég til í að eignast I’m in Love Again með Onyx. Ekki hin margfræga rappgrúppa en einhver lókal soul grúppa sem tók þátt í tónlistarkeppni Budweiser bruggsmiðjunnar en þeir gáfu út þetta lag á 7-tommu í samvinnu við útvarpsstöðina sem sá um keppnina í Norður-Karolínufylki. Bauð einu sinni $150 í hana og tapaði. Fyrr eða síðar mun hún enda í mínum höndum.

SKE: Eitthvað að lokum?

ÁK: Mæli með að kíkja á fyrri mixin í röðinni en þau er öll á heimasíðu minni arnikristjansson.com. Svo bara kíkja við þegar ég er að spila!

Nánar: https://arnikristjansson.com

SoundCloud: https://soundcloud.com/arnikristjansson

Auglýsing

læk

Instagram