Secret Solstice Upphitun #2 – Fox Train Safari og Robert Pirsig

Auglýsing

Ljósmynd: Pernille Lassen 
Grafík við mynd: David Young

Hendrix, Coltrane og Air

Platan Moon Safari eftir Air og lögin Foxy Lady eftir Jimi Hendrix og Blue Train eftir John Coltrane eiga eitt sameiginlegt: rekja má heiti íslensku hljómsveitarinnar Fox Train Safari til þessara þriggja fyrirbæra en sagan segir að forsprakki sveitarinnar, Kristján Hafsteinsson, hafi staðið fyrir framan plötuhilluna heimafyrir þegar honum datt titillinn í hug – og geri aðrir betur; ekki nóg með það að nafnið sé gott heldur er vart hægt að hugsa sér betri innblástur fyrir gerð tónlistar heldur en Hendrix, Coltrane, Godin og Dunckel. 

Auglýsing

Zen og listin að viðhalda vélhljólum

Í gegnum tíðina hef ég hrifist af tónlist Fox Train Safari á tónleikum og oft og 
tíðum velt því fyrir mér hvað það sé, nákvæmlega, sem útskýrir gæði
hljómsveitarinnar. 

Sjálfur velti heimspekingurinn Robert Pirsig, sem ritaði þá merku bók Zen og listin að viðhalda vélhjólum, þessari spurningu fyrir sér (þá um gæði almennt, en hann var ekki, að mínu viti, aðdáandi Fox Train Safari) og komst hann að þeirri niðurstöðu að ómöguelgt væri að skilgreina hugtakið þar sem gæði fyrirfinnast ávallt á hnífsblaði reynslunnar, sumsé áður en skynjandinn getur gert grein fyrir gæðum vitsmunalega (áður en hann getur gert grein fyrir því hvers vegna eitthvað tiltekið fyrirbæri sé gott eða slæmt) hefur hann nú þegar komist að niðurstöðu í málinu. 

Með hugmyndir Pirsig að leiðarljósi má því segja að ómögulegt sé fyrir undirritaðan að útskýra gæði hljómsveitarinnar Fox Train Safari; ég veit það bara um leið og ég heyri það. Eflaust gæti ég útskýrt hrifningu mína á hljómsveitinni með því að tala um ágæti söngkonunnar, hæfileika hljóðfæraleikaranna og rætur tónlistarinnar til blúss, djass eða fönks – en allt væri þetta í raun, að mati Pirsig, bara tilraun til þess að útskýra hið óútskýranlega (þetta væri einskonar „post hoc rationalization“)*. 

En niðurstaðan er þessi: Mér finnst Fox Train Safari vera gæðahljómsveit. 

Secret Solstice

Hljómsveitin Fox Train Safari kemur fram á Secret Solstice í Laugardalnum í júní, nánar tiltekið fimmtudaginn 15. júní kl. 19:00 í Valhöll. Ekki alls fyrir löngu gaf hljómsveitin út sína fyrstu plötu 01 og geymir platan níu lög. Mælir SKE sérstaklega með lögunum More Than A Few og Að láni og hlakkar jafnframt mikið til að hlýða á þessi lög í lifandi flutningi á Solstice – á hnífsblaði reynslunnar.

Hér má svo lesa viðtal við Fox Train Safari í SKE: https://ske.is/grein/gerdu-eitt…

Hvað (hljómsveit): Fox Train Safari
Hvenær: Fimmtudaginn 15. júní kl. 19:00
Hvar: Valhöll
Hvers vegna: Vegna þess að Fox Train Safari er gæðahljómsveit
SKE mælir með: Lögunum More Than A Few og Að láni

*(Viðurkennir þó undirritaður að hann efist reglulega um það hvort að hann skilji pælingar Pirsig um gæði nægilega vel. Eflaust ekki.)

Orð: RTH

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram