today-is-a-good-day

Secret Solstice Upphitun #4 – List og þjáning, Young M.A.

Solstice

Nýverið ritaði höfundurinn Christopher Zara grein í Huffington Post undir yfirskriftinni Þjóðsagan um þjáða listamanninn – og hvers vegna þjóðsagan er sönn. Í greininni segir Zara að mannkynið endurspegli sig í listinni og þar sem helsta dyggð mannkynsins sé getan til þess að sigrast á mótlæti er það rökrétt að ætla að þetta sama mótlæti sé oft og tíðum kveikjan að bestu listaverkunum. 

Vísar hann í þá staðreynd að Vincent Van Gogh hafi málað Starry Night í mikilli sálarangist; að samstarf Lennon og McCartney hafi mótast stuttu eftir að mæður þeirra féllu frá; og að Milton hafi ritað Paradise Lost eftir að hafa misst konu sína, dóttur sína og sjónina.

Nánar: https://www.huffingtonpost.com/…

Hugsanlega er hægt að útskýra hæfileika og töfra rapparans Young M.A. með sambærilegri röksemdafærslu – en hún þekkir mótlætið vel: Hún er þeldökk kona, samkynhneigð, sem alin er upp af einstæðri móður og sem í ofanálag missti eldri bróður sinn þegar hún var aðeins 17 ára gömul. 

Sjálf vísar hún í þetta andstreymi í „freestyle-i“ þegar hún var gestur í útvarpsþætti plötusnúðsins Funk Flex í fyrra:

I swear you gotta be built for this shit /
In order to be ready and willing to deal with this shit /
I got three hustles, that’s three incomes, ni#$a /
I just can’t sit on my ass that’s why I been up, ni#$a /
Chin up, ni%#a, head high, don’t slip up, ni#$a /
Sit up, ni#$a, them boys plottin’: grip up, ni#$a /
That turf where you stand is where you end up, ni#$a /
Where I’m from that’s what it is, ain’t no if’s, but’s, ni#$a /
Don’t trip up, ni#$a. You fall you better get up, ni#$a /
My brother picked up a gun, I picked the pen up, ni#$a /
But when he died I picked that clip up, ni#$a /

Young M.A. (sem stendur fyrir „Me, Always“) heitir réttu nafni Katorah Marrero og fæddist þann 3. apríl 1992 í Brooklyn, New York. Byrjaði hún að rappa snemma á ævinni, eða aðeins níu ára gömul, þá búsett í Virginíu. 

Árið 2014 má segja að hún hafi orðið fræg að endemum þegar höfundurinn Boyce Watkins gagnrýndi erindi hennar í laginu Brooklyn (Freestyle) í Facebook færslu sem fór víða; Watkins lýsti laginu sem uppfullt af neikvæðri, ofbeldisfullri og hatursfullri orku og varð þessi gagnrýni ágætis auglýsing fyrir lagið. Seinna meir útskýrði hann þó mál sitt nánar og ritaði Young M.A. einskonar opið bréf á Youtube. Í myndbandinu hrósar hann henni fyrir hæfileika sína sem rappari en gagnrýnir þó skilaboðin:

Ári seinna gaf Young M.A. út mixteipið Sleepwalkin’ og myndband við lagið Body Bag sem varð afar vinsælt á Youtube. 

Það má þó segja að Young M.A. hafi ekki dottið fyllilega inn á ratsjá almennings fyrr en árið 2016 og þá með útgáfu lagsins Ooouuu. Lagið klifraði upp í 19. sæti vinsældalista Billboard og í kjölfarið fylgdu fjölmörg „remix“ af laginu frá þekktum röppurum á borð við Jadakiss, Remy Ma, A$AP Ferg og French Montana. 

Nú er því spurning hvort að velgengnin og athyglin hafi neikvæð áhrif á tónlist Young M.A. í framtíðinni  en þau þægindi sem fylgja frægðinni hafa oft og tíðum dregið úr mætti sköpunargáfunnar, burt séð frá því hvort að listamaðurinn sé rappari eða rithöfundur:

Því hvað er mótlæti annað en núningurinn sem myndast á milli einstaklingsins og veraldarinnar  annað en árekstur mennsks tinnusteins og stálgrás blaðs raunveruleikans? Út frá þessum núningi sprettur neisti, og út frá þeim neista má rekja uppruna allra bestu listaverka. Listamaðurinn er sá sem flytur eld logandi sálar sinnar að blaðsíðunni, að nótnablaðinu, að striganum; án núnings, án mótlætis, er engin list. 

Young M.A. stígur á svið sunnudaginn 18. júní kl. 18:30 í Valhöll beint á eftir Gísla Pálma.  

Hér fyrir neðan geta lesendur svo horft á myndbandið við lagið Self M.Ade sem kom út síðastliðin 19. maí.

Þess má einnig geta að líkt og Young M.A. hafa margir bestu rapparar sögunnar alist upp í Brooklyn, New York  þar á meðal Biggie Smalls, Jay-Z, Nas (sem fæddist í Brooklyn en samsamar sig þó ávallt við Queens), O.C., GZA, Big Daddy Kane, Mos Def, Talib Kweli, Sticky Fingaz, Fabolous, El-P, Lil Kim, Foxy Brown, AZ og svona mætti áfram telja.

Einnig má segja að New York hafi alið af sér marga bestu penna Bandaríkjanna, þar á meðal James Baldwin, Don DeLillo, Patti Smith, Henry James, Herman Melville, J.D. Salinger, Gore Vidal, Edith Warton, Walt Whitman, Joseph Heller, Nora Ephron, Alex Haley  en allt eru þetta rithöfundar sem kenndir eru við borgina.

Orð: RTH

Auglýsing

læk

Instagram