Sjöhundruð meðlimir á tveimur vikum—Bylt Fylki slær í gegn

Auglýsing

Facebook-hópurinn Bylt Fylki hefur vakið mikla lukku meðal áhugamanna um íslenskar þýðingar en í hópnum deila meðlimir plakötum frá erlendum kvikmyndum undir yfirskrift eigin þýðingar. 

Félagalisti hópsins hefur stækkað ört á skömmum tíma og hafa meðlimir deilt yfir 200 titlum frá því að hópurinn var stofnaður fyrir um tveimur vikum síðan.

Nánar: https://www.facebook.com/group…

Í ljósi þess heyrði SKE í Arnari Tómasi Valgeirssyni—forsprakka hópsins—sem reifaði tilurð Bylts Fylkis í örfáum orðum:

Auglýsing

Arnar Tómas segir að þýðingarnar séu vissulega mjög misgóðar og bendir á að óvenjulegar beinþýðingar geta verið jafn fyndnar og skáldlegri tilþrif.

„Það er enginn hlutlaus þegar kemur að því að þýða heiti erlendra dægurmála yfir á íslensku. Annað hvort elskar fólk þetta eða hatar af öllum lífs- og sálarkröftum. Ég hef alltaf tilheyrt fyrri hópnum og ákveðnar þýðingar úr sjónvarpsdagskránum hafa setið með mér lengi. Nafn hópsins er einmitt dregið af einni minni uppáhalds þýðingu en önnur framhaldsmynd Fylkisins (“The Matrix”) var þýdd snilldarlega sem Bylt Fylki (“The Matrix: Revolutions”).

Ég vann að smá umfjöllun um þýðingar á erlendum sjónvarps- og kvikmyndaheitum fyrir Sunnudagsblað Morgunblaðsins þar sem ég fletti í gegnum gamlar sjónvarpsdagskrár til að finna þær skemmtilegustu. Eftir að hafa rekist á frábæra titla eins og Vopni (Blade) þá fékk ég svakalegt bragð fyrir þessu og fann mig knúinn til að halda áfram. Sem athyglissjúklingur þurfti ég að skapa vettvang þar sem fólk gat heyrt allar frábæru þýðingarnar mínar og baðað mig í hylli. Ég henti í hóp á Facebook og bauð svona þrjátíu manns sem ég hélt að gætu haft gaman að þessu. Ég er ekki alveg viss hvað gerðist en meðlimir í hópnum eru núna fleiri en sjöhundruð tveimur vikum síðar.

Ég skal vera fyrstur að viðurkenna að mér finnst innsendingarnar mjög misgóðar en ég lofaði sjálfum mér að vera ekki með neina harðstjórn því fólk hefur ólíkan smekk. Inn á milli koma svo frábærar þýðingar sem gera þetta allt þess virði. Það er engin regla á því hvernig það á að þýða hlutina því óvenjulegar beinþýðingar geta verið jafn fyndnar og skáldlegri tilþrif. Uppáhalds innleggin mín til þessa hafa verið Tryllt Tylft (“Twelve Angry Men”), Ma(ð)ur (“Ant-Man”) og Hitasótt á Ljósanótt (“Saturday Night Fever”).

—Arnar Tómas Valgeirsson

Hér fyrir neðan eru svo nokkrir frumlegir titlar sem eru að finna á Facebook-síðu hópsins Bylt Fylki.  

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram