„Strákarnir stóðu sig frábærlega.“ SKE spjallar við Margréti Láru Viðarsdóttur

Auglýsing

Orð: Friðrik Níelsson
Viðmælanadi: Margrét Lára Viðarsdóttir

Ég á engin börn – engin lífræðileg börn – bara 11 stráka, sem ég ættleiddi. Þeir eru allir í fótbolta. Einn er markmaður, fjórir eru varnarmenn, fjórir eru miðjumenn og hinir tveir eru framherjar, svo eru nokkrir á bekknum sem ég eigna mér um leið og þeir koma inn á. Þetta eru Strákarnir mínir og ég elska þá alla jafnt (viðurkenni þó að Raggi sé í ákveðnu uppáhaldi.) En svo á ég líka 11 stelpur, sem ég ættleiddi. Þær eru líka allar í fótbolta og eru nú einum leik frá því að komast á EM 2017. Þær hafa spilað sex leiki og unnið jafn marga. Þær hafa skorað 29 mörk og haldið markinu hreinu í öllum leikjunum. Ein af mínum uppáhalds ættleiddu börnum, hún Margrét Lára Viðarsdóttir, er í sjöunda sæti yfir markahæstu leikmenn á Evrópumótum í knattspyrnu – tveimur mörkum fyrir neðan Lionel Messi. Ég heyrðí í Margréti fyrir fáeinum dögum og lagði fyrir hanna nokkrar viðeigandi spurningar.

Sæl og blessuð, Margrét, hvað er helst í fréttum?

Það sem er helst í fréttum er að við eigum stórkostlegt karlalandslið í knattspyrnu.

Auglýsing

Amen … Ef þú yrðir að lýsa sjálfri þér eins og húsgagni í vönduðum IKEA bækling – hvernig myndi sú frásögn hljóða?

Stílhrein og traust vara sem bregst ekki eiganda sínum.

Hvers konar eldri borgari ætlar þú þér að verða?

Eins og amma mín og nafna Margrét Sigurjónsdóttir. Alltaf jákvæð, glöð og lifir fyrir börnin sín. Síðan ætla ég að spila mikið golf á erlendri grundu og njóta lífsins í botn.

Þú verður þrítug í júlí. Hvernig leggst það í þig?

Mér finnst það geggjað. Gott tilefni til að bjóða vinum og fjölskyldu í gott teiti. Lífið hefur kennt manni að það eru forréttindi að eldast.

Ef þú yrðir að velja áletrun á grafsteininn þinn, hver yrði sú áletrun?

Dáldið ógnvekjandi spurning en … „Þar sem hjartað slær“ yrði fyrir valinu.

Ertu sátt með Guðna Th.?

Já, ég hef trú á að Guðni verði landi og þjóð til mikils sóma innan sem utanlands. Virkar heiðarlegur og flottur maður.

Hefur lífið tilgang? Og ef svo er, hver er tilgangurinn?

Lífið hefur svo sannarlega tilgang. Við erum ólík en höfum öll eitthvað gott fram að færa. Lífið er lærdómur út í gegn ef við erum tilbúin að hlusta á hvort annað og virða skoðanir hvers annars. Það blæs oft á móti en þeir sem standast mótbyr fá að lokum meðbyr. Elskum, virðum og gleðjum hvort annað.

Hver er lykillinn að velgengni íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta?

Það eru margir þættir sem spila þar inn í. Fyrir það fyrsta erum við með ótrúlega flotta blöndu af leikmönnum. Bæði unga efnilega og eldri og reyndari. Við erum margar búnar að spila lengi saman þannig að liðsheildin er frábær. Það eru mikil fótboltaleg gæði í okkar liði. Svo erum við með frábæra þjálfara og gott teymi í kringum okkur. Við erum með gott leikplan sem að við trúum og treystum á.

Hvernig er tilfinningin nú þegar EM ævintýri strákanna er lokið?

Tilfinningin er frábær. Strákarnir stóðu sig frábærlega. Íslendingar voru landi og þjóð til mikils sóma innan sem utanvallar. Þetta var í heildina frábær auglýsing fyrir Ísland. Maður er virkilega stolltur af liðinu og öllum sem koma að því. Nú er bara að nota meðbyrinn, byrja að safna og fjölmenna til Hollands á næsta ári.

Eitthvað að lokum?

Áfram Ísland!

Næsti leikur kvennalandsliðsins er gegn Slóvenía og fer fram í september. Áfram Ísland!

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram