„Þetta er vissulega rómantísk plata á sinn hátt.“—Jökull Logi gefur út „In Wedding“ (Viðtal)

Viðtöl

SKE: Djass og Hip Hop hafa lengi átt samleið. Sumir vilja meina að svokallað djass hopp („jazz hop“ eða „jazz rap“) hafi verið andsvar yfirvegaðri manna við bófarappi tíunda áratugsins, og að tónlistarstefnan eigi rætur að rekja til þeirra tíma. Aðrir halda því fram að stefnan sé eldri—að í raun hafi tónlistarfólk á borð við The Last Prophets og Gil Scott-Heron rutt veginn fyrir djass hoppi á áttunda áratugnum. Hvað sem nákvæmum fæðingardegi stefnunnar líður, þá er eitt víst: að mörg góð lög hafa fæðst í kjölfar sambræðslunnar. Má þar helst nefna lög á borð við „Loungin“ eftir Guru, „Slim’s Return“ eftir Madlib, „Jazz“ eftir A Tribe Called Quest og svona mætti lengi halda áfram. Einnig hafa margir íslenskir tónlistarmenn skapað innan ramma stefnunnar en fyrir stuttu gaf tónlistarmaðurinn Jökull Logi út plötuna „In Wedding“ sem sver sig í ættina. „In Wedding“ er fimm laga stuttskífa sem tekin var upp í hverfinu Wedding í Berlín. Í tilefni útgáfunnar heyrði SKE í Jökli og spurði hann nánar út í plötuna, lífið og ýmislegt annað.

Viðtal: RTH

Viðmælandi: Jökull Logi Arnarsson

SKE: Sæll, Jökull. Hvað segirðu gott?

Jökull: Sælir! Ég segi allt fínt bara—en þið?

SKE: Fyrir þá sem ekki þekkja til Jökuls Loga—hver er maðurinn?

Jökull: Ég er tónlistarmaður frá Stokkseyri en ég bý í Reykjavík eins og stendur, eftir þriggja ára háskólanám í Berlín. Ég er frekar rólegur gæi held ég bara.

SKE: Þú varst að gefa út plötuna In Wedding. Titill lagsins vísar í hverfi í Berlín—en má segja að þetta sé einnig lúmsk tilvísun í ástina? Er gifting í vændum?

Jökull: Það er alveg fín kenning. Þetta er vissulega rómantísk plata á sinn hátt en það er ákveðin þyngd í henni. Ég held kannski að hún henti betur nýfráskildum einstaklingi. Ég hvet alla fráskilda til að hlusta á plötuna mína; þessi plata er ykkar anthem!

SKE: Hvað var platan lengi í vinnslu og hvert var markmiðið með útgáfunni?

Jökull: Ég byrjaði á plötunni í janúar og var búinn að klára hana í maí. Ég var lengi í viðræðum við þýskt plötufyrirtæki um útgáfu en útgáfan frestaðist reglulega. Á meðan fiktaði ég meira með mix-ið svo að hljómur plötunnar breyttist reglulega þangað til að ég gaf hana út. Í lok júní byrjaði fulltrúi fyrrnefnds plötufyrirtækis að vera sjúklega passive aggressive við mig svo ég ákvað bara að gefa hana út sjálfur. Ég master-aði hana líka sjálfur. Það er kannski viðvaningsbragur í því en ég er samt ánægður með útkomuna.

SKE: Saxófónleikarinn Sölvi Kolbeinsson kemur við sögu á plötunni sem og rapparinn Matty Wood$. Hvernig kom samstarfið til?

Jökull: Jói vinur minn var í heimsókn hjá okkur í Berlín svo að við athuguðum hvort að það væru einhverjir tónleikar nálægt okkur og komumst við að því að hljómsveit sem heitir Volcano Bjorn var að spila í grenndinni. Við ákváðum að kíkja þangað en þar var hann Sölvi Kolbeinsson að kill-a saxófóninn. Við spjölluðum við hann eftir tónleikana og ákváðum að vera áfram í bandi. Seinna meir spurði ég hvort hann væri til í að spila inn á lagið Oldsmobile á plötunni minni og hann sló til. Ég tók hann upp í Funkhaus Studio og þar sem við sátum uppi með fullt af fríum stúdíótíma þegar við vorum búnir ákvað ég að taka hann upp freestyle-a yfir Conversations líka. Þetta voru ca. tvær tökur sem ég klippti saman síðar. Það er svo sem styttri saga með Matty Wood$ en ég hafði samband við hann í gegnum SoundCloud til að senda honum bíts. Hann vildi nota nokkur frá mér og ég bað hann síðar um að feature-a hjá mér í staðinn og hann var klár í það. Í laginu segir hann „Kush is my perfume“ og þaðan kemur nafnið á laginu, Kush No. 5 sem fyrrnefndur vinur minn hann Jói stakk upp á í anda Chanel No. 5. Jói er einn af mínum sniðugustu vinum. Takk, Jói.

SKE: Nýverið kíktum við á rúntinn með Daða Frey og þar ræddum við meðal annars lagið Rapparar sem þið félagarnir gáfuð út á sínum tíma. Er annað lag í vændum frá ykkur?

Jökull: Sú hugmynd dúkkar reglulega upp en ég sé það kannski ekki gerast alveg á næstunni. Við höfum það samt í huga; það er aldrei að vita hvort þetta risastóra comeback verði að veruleika.

SKE: Ef þú gætir fengið hvað rappara sem er, lífs eða liðinn, til liðs við þig—hver yrði fyrir valinu? 

Jökull: Kendrick Lamar er alveg uppáhalds tónlistarmaðurinn minn og ég gæti ekki valið neinn annan. Earl Sweatshirt væri líka draumur. Það er leiðinlegt samt að nýta ekki þetta tækifæri til að vera geggjað nettur og nefna einhverja underground gaura sem enginn þekkir—en ég fíla Kendrick og Earl mest.

SKE: Hljóðheimurinn á In Wedding minnnir svolítið á Nujabes—fílarðu hann? Ef svo, eða ef ekki, hverjir veita þér innblástur í þinni sköpun?

Jökull: Ég hef heyrt þetta áður og mér finnst þetta bara geggjað því Nujabes er mega nice. Hann er klárlega innblástur enda einn af mikilvægustu jazz hop pródúserunum en Knxwledge og Mndsgn eru, að ég held, mínir helstu áhrifavaldar. Ahwlee, SwuM og Tuamie eru aðrir pródúserar sem hafa mótað mig í taktsmíðinni. En þið þekkið þá örugglega ekki: frekar underground gaurar ?  

SKE: Hvaða tæki og tól notast þú við í þinni sköpun?

Jökull: Ég byrja eiginlega alltaf á að finger drum-a trommutakt með tökkunum (pads) á midi hljómborðinu mínu, sem ég laga síðan seinna meir. Því næst spila ég melódíu, einnig oftast með midi, svo að ég geti lagað það til eftir á—enda hörmulegur píanóleikari. Ég hef notast aðeins við saxófónsömpl en annars er mest allt teiknað inn í Ableton. Ég er aðeins byrjaður á meira efni og þar koma gítarinn og bassinn meira inn. Meira grúv og svona léttara yfir því.

SKE: Eitt lag sem allir verða að heyra og hvers vegna?

Jökull: Mér finnst að allir ættu að heyra Loner með Kali Uchis. Hún er bara svo nett!

SKE: Hvað er framundan hjá þér næstu misseri?

Jökull: Ég hef engin skjalfest plön en ég ætla að halda áfram að gera tónlist og byrja að æfa mig í að spila live. Gera fleiri hip hop bíts og vinna með fleira fólki. 

SKE: Eitthvað að lokum?

Jökull: Ég held þetta sé bara ágætt, takk fyrir mig og takk fyrir að hlusta á plötuna.

(SKE þakkar Jökli Loga kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að hlýða á plötuna In Wedding.)

Auglýsing

læk

Instagram