„Þurfum að hætta að koma fram við fíkla eins og krimma.“—SKE spjallar við Emmsjé Gauta

Auglýsing

Viðtöl

SKE: Á mánudaginn (15. október) rataði platan FIMM eftir tónlistarmanninn Emmsjé Gauta á Spotify. Eins og titill plötunnar gefur til kynna er þetta fimmta hljóðversplata rapparans og eru margir á því að afraksturinn verði sífellt betri eftir því sem árin líða. Fjölmargt tónlistarfólk kemur við sögu á FIMM og er platan svo sannarlega á persónulegri nótum; fíkn, hræðsla, vellíðan, ást og fjölskylda eru meðal þeirra viðfangsefna sem Gauti veltir fyrir sér á þeim 14 lögum skífunnar. Í tilefni útgáfunnar heyrði SKE í Emmsjé Gauta og spurði hann eina spurningu fyrir hvert lag plötunnar. Gjörið svo vel.  

Viðtal: RTH
Viðmælandi: Gauti Þeyr
Ljósmynd: Berglaug Petra Garðarsdóttir

Auglýsing

1. HRÆDDUR
Í laginu útlistar þú helstu fóbíur—en hvað hræðistu ekki (sem flest fólk hræðist jafnvel)?

Gauti: Ég bara er ekki viss. Það eru óteljanlegir hlutir sem ég hræðist ekki. Ég hræðist allavega ekki að standa á sviði fyrir framan fullt af fólki og opna mig upp á gátt. Ég er meira að segja að plata—ég hræðist það stundum.

2. MÉR LÍÐUR VEL

Er vellíðan til marks um verðugan lífsstíl?

Þetta snýst allt um að láta sér líða vel. Vera sáttur með sjálfan sig og vera ekki í endalausri keppni að þóknast öðrum. Ég held að vellíðan sé topp ástand sem allir sækjast eftir.

3. ÞÚ GERIR MIG

Mælginn kemur fyrir í laginu. Hvernig kynntust þið Mælginn og hvers vegna fékkstu hann til liðs við þig?

Ég kynntist Mælginn fyrst þegar ég var þrettán ára gamall á rappnámskeiði á vegum Samfés sem Sesar-A stjórnaði. Við höfum alla tíð verið góðir vinir og Mælginn hefur alltaf verið ógeðslega góður að rappa. Hann hefur þó oft verið latur að mæta upp í stúdíó en hann er búinn að snúa því við og er að vinna í músík á fullu. Hann kom til mín með demó af laginu, sem átti upprunalega að enda á plötunni hans, en svo var tekin ákvörðun að skella þessu á mína plötu. S/O á Martein Bngrboy sem pródúseraði lagið.

4. KORTER 
Þú syngur í laginu, ásamt Steina Teague. Sérðu fyrir þér að feta í fótspor Wyclef eða André 3000 seinna meir, þ.e.a.s. að snúa þér alfarið að söngnum?

Ég held ég muni alltaf reyna að finna nýjar leiðir til að semja músík. Ég er samt rappari í grunninn og hef algjöra unun af því að rappa rapp. Ég mun kannski syngja meira en ég get aldrei sagt bless við rappið.

5. BÓFI 
Flæðið í laginu er frumlegt, fágað. Hvert er þitt uppáhalds flæði eftir annan rappara en sjálfan þig (flæðið hans Juvenile í Back That Azz Up er í uppáhaldi hjá okkur, t.d.)

Ef við tölum um flæði þá er Young Thug í algjöru uppáhaldi hvað það varðar. Hann er alltaf með frumlegar og skemmtilegar pælingar á öllum þessum þúsund plötum sem hann er búinn að gefa út.

6. ESJAN 
Bítið við Esjuna er mjög sterkt. Hvaða bít, sem þú hefur rappað yfir, hefur verkað hvað sterkast á þig við fyrstu hlustunsvona eins og þegar Jay-Z heyrði Dirt Off Your Shoulders í fyrsta skiptið (ca. 02:00 hér fyrir neðan)?

Ég man eftir því þegar Helgi Sæmundur sýndi mér bítið af laginu Nýju fötin keisarans í fyrsta skipti. Ég hef aldrei viljað neitt bít jafn mikið. Það endaði sem eitt af mínum uppáhalds lögum, eftir sjáfan mig. Mikið power og mikil læti. Sturlað live.

7. STEINSTJARNA PT. 2 
Sjálfið sem og frægðin eru í fyrirrúmi í texta lagsins. Hvað er það hvimleiðasta við frægðina?

Það er frekar þægilegt að vera þekktur á Íslandi. Það getur verið erfitt þó þegar fólk er orðið drukkið og maður er ekki í stuði fyrir mannleg samskipti út fyrir þægindarammann. Áfengi ruglar oft í skynjuninni hjá fólki á persónulega speisinu. Það getur komið út eins og maður sé algjör asni ef maður vill ekki taka mynd af sér með einhverjum eða detta í spjall. En maður á góða og slæma daga og fólk þarf að virða það við þekkt fólk eins og aðra.

8. ÞEYR 
Línan „Ég er ekki einn af þeim, kemur fyrir í laginu, en þetta er margtuggin fluga í rappi (þú hefur þó mun meiri innistæðu fyrir þessari fullyrðingu en aðrir íslenskir rapparar)—en hvaða klisjur í rappi fara í taugarnar á þér?

Það fer í taugarnar á mér þegar menn setja upp karakter sem þeir eru ekki, eða þegar þeir tala um hluti sem þeir eiga, eða eru að gera, sem standast svo ekki. Auðvitað er í lagi að krydda og ég geri það sjálfur, en mér finnst skipta máli að vera sannur sjálfum sér.

9. HÓGVÆR 
Myndbandið við lagið er eftirminnilegt. Eru fleiri myndbönd á leiðinni?

Það hefur aldrei komið sá tímapunktur á ferlinum mínum að það sé ekki myndband á leiðinni. Ég er með nokkrar hugmyndir sem ég ætla að framkvæma á næstunni.

10. LÁGMÚLINN 
Birnir kemur fyrir í laginu—en ertu búinn að heyra erindið hans í laginu Úff? Og ef svo er, hvað finnst þér?
 

Já, og er búinn að vera með Úff á repeat. Birnir er svo ótrúlega góður að rappa rapp. Massíft power en samt svo afslappaður á sama tíma. Mjög þægilegur og frumlegur stíll.

11. MANSTUBISH 
Það þurfa allir listamenn að sæta gagnrýni—
en hvaða gagnrýni hefur farið mest í taugarnar á þér í gegnum tíðina?

Ég man ekki eftir gagnrýni sem situr í mér. Þetta er allt frekar jákvætt. Mér finnst líka nauðsynlegt að heyra smá neikvæðni inn á milli svo ég missi ekki vitið í egótrippi.

12. EINS OG ÉG 
Þú minnnist á AK Extreme í texta lagsins en hvað væntanlegir tónleikar þínir varða—erum við mjög svo peppaðir fyrir Jülevenner. Hverju megum við búast við?

Ég er svo ótrúlega spenntur fyrir Jülevenner. Ég náði að setja saman svakalegt lænöpp og við erum að skrifa handritið af sýningunni þessa dagana. Þið megið búast við mjög góðu kvöldi.

Miðasala: https://tix.is/is/buyingflow/t…

13. SMÁ STUND 
Lagið fjallar um missir, fíkn. Hver er, að þínu mati, besta forvörnin gegn fíkniefnum?

Við þurfum í fyrsta lagi að hætta að koma fram við fíkla eins og krimma. Við verðum að hætta hræðsluáróðri til að reyna að fæla krakka frá fíkniefnum. Fræðsla skiptir miklu máli og með því að gera fíkla að manneskjum í staðin fyrir að mála þá upp sem skrímsli komumst við nær skaðaminnkun. Ég er ekki með neina töfralausn á þessu en það þarf eitthvað stórt að fara gerast í þessum málum. Ótengt en samt tengt þessu máli þá mæli ég með hlaðvarpinu Í ljósi sögunnar sem fjallar um Oxycontin og markaðssetningu á ávanabindandi lyfjum. Sjokkerandi þáttur.

Nánar: https://www.ruv.is/thaettir/i-l…

14. HÆTTUR 
Platan fer í hring, endar á sama stað og hún byrjaði: Eilíf endurkoma hins sama. Eitthvað að lokum?

Reynið að láta ykkur líða vel og hlustið á plötuna.

(SKE þakkar Gauta kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til þess að hlýða á plötuna FIMM sem er vafalaust ein af betri plötum rapparans. Svo mælum við einnig með því að áhugasamir tryggi sér miða á Julevenner, en tónleikarnir í fyrra fóru langt fram úr öllum væntingum.)

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram