Bent

„Maður hefur verið að lenda í veseni alla ævi, en samt finnst manni maður alltaf svo góður drengur“

Ágúst Bent er mörgum vel kunnur, ekki síst sem rappari og einn meðlima XXX Rottweiler hunda en einnig sem kvikmyndagerðarmaður og grínisti. Á sínum tíma, í kringum síðustu aldamót, urðu þeir Rottweiler-hundar til þess að hrinda af stað íslensku rappbylgjunni og svo hafa þeir, saman eða hver í sínu lagi, haldið áfram að vekja athygli fyrir tónlist sína. Hin síðari ár hefur Bent svo unnið mikið með Steinda Jr. og saman hafa þeir gert sjónvarpsþætti sem hafa vakið athygli og notið mikilla vinsælda. SKE setti sig í samband við þennan þúsundþjalasmið og ræddi við hann um rappið, sjónvarpið og önnur og leiðinlegri mál. Við byrjum almennt. Hvað segirðu gott á þessum drottins dýrðar degi?

Ég er nettur sko. Þetta líf er rússíbanareið en manni leiðist allavega ekki.

Það er þó gott. Nú voruð þið í Rottweiler að gefa út nýtt lag og myndband, en útgáfa hefur verið strjál síðustu misseri. Hvað kemur núna til?

Við höfum ekki verið að gera mikið undir Rottweiler nafninu, nei, en Blaz hefur verið duglegur við að gefa út efni. Ég og Lúlli höfum báðir verið að einbeita okkur að sjónvarpsþáttagerð undanfarin ár. Það er svo mikil upsveifla í íslensku rappi þessa dagana að maður varð bara að taka þátt. Maður getur ekki leyft unglömbunum að sitja ein að þessu.

Mæltu manna heilastur. Hver er annars staðan á Rottweiler? Eruð þið t.d. með plötu í bígerð?

Ég hef gefið út fimm breiðskífur og finnst það nóg. Undanfarin ár hef ég haldið mig við að gefa út eitt til tvö lög á ári. Rétt nóg til að að halda sér relevant og til að fríska upp á settið. Ég er sjálfur hættur að hlusta á plötur í heild sinni, ég finn strax út hvaða lög gera eitthvað fyrir mig og gleymi hinum. Þannig að afhverju ekki bara að halda sig við hittarana og sleppa fillernum. En það er bara ég.

Þú hefur á síðari árum fært þig yfir í sjónvarpsþáttagerð með góðum árangri, hvernig kom það til?

Ég hef alltaf verið að gera grín og myndbönd samhliða rappinu. Byrjaði að gera sketsa í Videonefnd FB sama ár og Rottweiler hóf göngu sína. Svo var ég einn af stjórnendum þáttarins Tívolí á sjónvarpsstöðinni Sirkús. Þegar ég útskrifaðist úr Listaháskólanum byrjaði ég síðan að vinna hjá SkjáEinum við þættina Monitor. Við Steindi gerðum skets fyrir hvern þátt og í kjölfarið fengum okkar eigin þætti; Steindann okkar.

En annars er ég að skrifa handrit að kvikmynd sem að vonandi verður að veruleika.

– Ágúst Bent

Og the rest is history, eins og sagt er. Hvað er í pípunum á þessu sviði?

Það hefði verið gaman að gera aðra seríu af Hreinum Skildi. Mér finnst þeir þættir vera alveg geggjaðir, en sumum þótti þeir kannski aðeins of geggjaðir. Helst myndi ég vilja að fleiri myndu sjá þá. En annars er ég að skrifa handrit að kvikmynd sem að vonandi verður að veruleika.

Vonandi, já. En að öðru. Þú komst í fréttir á dögunum vegna atviks sem átti sér stað í gleðskap á Loftinu, hvað gerðist? Geturðu eitthvað talað um það?

Ég get ekki talað nákvæmlega um hvað gerðist. Ég gerði bara mistök. Maður hefur verið að lenda í veseni alla ævi, en samt finnst manni maður alltaf svo góður drengur. En maður getur ekki alltaf kennt öðrum um, ég hefði átt að bregðast öðruvísi við og auðvitað bara labba í burtu. En það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja.

Og hver er staðan á þessu máli sem stendur?

Ég er búinn að fara í skýrslutöku og bíð þá bara eftir því að fara fyrir dóm. Það eru allir sammála um málsatvik í aðalatriðum þannig að vonandi tekur þetta ekki langan tíma. Það er alveg hræðileg stemning í héraðsdómi.

Því trúi ég. En að lokum, hvað er svo almennt séð á döfinni, að hverju vinnurðu?

Ég er að skrifa handrit, skemmti reglulega með Steinda og svona, ég er að reyna að gera konu ástfangna af mér, langar til að verða massaður aftur og svo klappa ég kettinum mínum mikið. Óskar er góður kisi.

Það efast ég ekki um eitt augnablik. SKE
þakkar Bent kærlega fyrir spjallið og óskar þeim Óskari velfarnaðar í hverju því sem þeir taka sér fyrir hendur.

Auglýsing

Instagram