today-is-a-good-day

Fólk segir oft við mig: „Þú átt bara eitt lag.“

SKE: Rapparinn GKR sendi frá sér nýtt lag ásamt myndbandi fyrir stuttu. Lagið heitir TALA UM og er pródúserað af Marteini. Í tilefni útgáfunnar hringdi SKE í GKR og lagði fyrir hann nokkrar vel til fundnar spurningar:

Viðtal: Ragnar Tómas
Viðmælandi: GKR

(Síminn hringir. GKR svarar í símann mjög hress. Sennilega búinn með fimm flöskur af VIT-HIT.)

SKE: Blessaður.

GKR: Blessaður, meistari!

SKE: Til hamingju með lagið.

GKR: Já, takk fyrir það. Það er alltof langt síðan að ég gaf út eitthvað nýtt.

SKE: Löngu kominn tími á nýtt efni … okkur langaði svo að fjalla aðeins um lagið. Hvað geturðu sagt mér.

GKR: Já, hljómar vel. Þú verður bara að spyrja mig nánar út í það.

(Hann hefur rétt fyrir sér. Ekki hægt að ætlast til þess að maðurinn taki viðtal við sjálfan sig. Það er ekki öllum gefið að vera í senn spyrill og viðmælandi. Á hundavaði sem ég einkum frumlega spurningu sem kemur eflaust til með að bylta blaðamannaheiminum.)

SKE: Hver var kveikjan að laginu?

(B-O-B-A: BOMBA. #Bubbi)

GKR: Hver var kveikjan, hmmm …. eftir að ég gaf út Morgunmat fékk ég svo mikla athygli en sú athygli var – og er – oft á tíðum mjög skrítin. Í kjölfarið gaf ég út Þú Segir til þess að ræða þessa upplifun nánar. Ég er mjög duglegur þegar það kemur að tónlistinni og það er stundum pirrandi að fólk sjái það ekki. Ég þarf alltaf að svara sömu spurningunum eða fólk segir við mig „Þú átt bara eitt lag.“ Ég fór eiginlega yfirum að spá í því hvað ég ætti að gera næst. Síðan sagði Marteinn við mig: „Gerum bara einhvern banger!

(Samkvæmt snara.is útleggst orðið „banger“ sem „bjúga.“ Blaðamanni finnst það í senn fyndið og viðeigandi.)

SKE: Og TALA UM varð útkoman.

GKR: Já. Pælingin á bakvið lagið er að ég er að gera tónlist fyrir mig. Mér er í raun og veru alveg slétt. Sú pæling. Þetta snýst um að hafa gaman og gera bara einhverja „bangers.“

(GKR hefur svo sannarlega framreitt gott bjúga, hugsa ég með sjálfum mér.)

SKE: Ég hef heyrt að þú sért einn duglegasti rapparinn í geiranum.

GKR: Ég get náttúrulega ekki borið mig saman við neinn, en mér finnst ég vera það: Ég er fokking duglegur! En svo eru gæjar eins og Úlfur Úlfur og Gauti sem eru á fullu að spila og mjög virkir. En jú, ég er mjög duglegur.

SKE: Eru einhverjir tónleikar á dagskrá á næstunni?

GKR: Eins og er þá er ekkert á dagskrá. Airwaves er kannski næsta stóra giggið. En á maður ekki að ljúga einhverju?

SKE: Jú, ertu ekki að fara spila á Sauðárkróki á þriðjudaginn?

GKR: Jú, akkúrat.

(Hlátur. Ég spyr hvort að GKR búi enn á Vesturgötunni og rifja síðan upp gott partí.)

SKE: Ég fór einu sinni í partí heim til þín á Vesturgötunni. Þetta var fertugsafmæli sem móðir þín hélt og þetta var án efa skemmtilegasta partí sem ég hef farið í.

GKR: Já, bíddu. Mig rámar eitthvað í það.

SKE: Júlli Diskó kom sér fyrir inni í stofu og hækkaði allt í botn. Um miðnætti mætti lögreglan á svæðið að sökum fjölda kvartanna. Júlli brá sér út til þess að taka á móti þeim. Svo þegar hann gengur aftur inn segir hann, mjög alvörugefinn á svip: „Lögreglan bað okkur vinsamlega um að lækka í tónlistinni … En Fuck That!“ Svo setti hann Rage Against the Machine á fóninn og menn gjörsamlega misstu vitið; ég hef aldrei „headbang-að“ svona grimmt á ævinni. Er ennþá með hálsríg, þremur árum seinna … en svo kom lögreglan aftur og henti öllum út.

(Við hlæjum.)

SKE: Besta partí sem ég hef farið í …

GKR: Hún móðir mín verður mjög ánægð með að heyra þetta.

SKE: Já, hún má eiga það alveg skuldlaust að hún er mjög fær gestgjafi.

GKR: Mér finnst að viðtalið eigi að snúast bara um þetta partí. Sleppa bara að tala um lagið.

SKE: Já, við hjá SKE erum svosem þekktir fyrir sýruna. En hvað segirðu annars: Kemurðu ekki vel undan sumri og ánægður með lífið?

GKR: Jú, ég er ánægður með lífið. Er reyndar svo mikill innipúki og er alltaf í tölvunni að skrifa og semja. Hef reyndar verið duglegur í fótbolta. Fer reglulega í fótbolta með Alexander Jarli. Þetta er örugglega einhver fyrirsögn.

(GKR hlær. Ég ímynda mér fótboltalið sem samanstendur einvörðungu af íslenskum röppurum. Erpur væri þjálfarinn og mundi liðið alltaf sækja upp vinstri kantinn. GP væri í markinu íklæddur fjölskrúðugum mexíkóskum samfesting. Úlfur Úlfur væru í vörninni, með vígtennurnar úti. GKR væri fremst á vellinum, í hörkuformi eftir sólarbolta með Jarlinum.)

SKE: En algjörlega frábært lag. Við hjá SKE erum líka miklir aðdáendur Marteins, en hann er frábær pródúsent.

GKR: Já, hann er mjög fær.

(Samtalið tekur beygju að bræðrunum Marteini og Degi Hjartarsonum. Svo kveðjumst við. Eins og Kaninn segir: „Excellent Talk.“ SKE mælir heils hugar með laginu TALA UM og biður lesendur vinsamlegast að hætta að TALA UM GKR nema á fallegum nótum. Eða ekki. Honum er greinilega alveg SLÉTT. Hann er aðallega í því að framleiða bjúgu og hafa gaman … Hér eru svo nokkrar sverar pylsur úr ódýru kjötdeigi.)

Auglýsing

læk

Instagram