„Lagið lengi verið í uppáhaldi“

Fréttir

Í dag sendi Akureyringurinn Ivan Mendez – forsprakki hljómsveitarinnar Gringlo – frá sér ábreiðu af laginu Wild World á Spotify. Lagið samdi enski tónlistarmaðurinn Cat Stevens og er það að finna á plötunni Tea for the Tillerman sem kom út árið 1970. 

Í fréttatilkynningu sem fylgdi útgáfu lagsins segir söngvarinn að Wild World hafi lengi verið í uppáhaldi:

„Þetta er eitt af þessum lögum sem ég syng oft ómeðvitað í gegnum daginn. Hugmyndin að ábreiðunni kom til mín er ég gekk undir berum himni, raulaði og trommaði á bringuna á mér – eins og ég geri ansi oft. Ég hljóp heim og hófst handa; úr varð þessi „soulful/electro“ útgáfa.“

– Ivan Mendez

Bætir Ivan því við að hann hafi lengi unnið að „solo“ verkefni í laumi og stefnir á útgáfu í ár: „Þetta er forsmekkurinn af því, þó svo að ég einbeiti mér nú aðallega að því að hljóðrita með Gringlo þessa dagana.“

Hér fyrir neðan er svo myndband við lagið Light of New Day sem Gringlo gaf út í lok janúar. 

Auglýsing

læk

Instagram