Milljónir manna hlýtt á lag eftir íslenskan taktsmið á Youtube (viðtal)

Viðtöl

Síðastliðinn febrúar gaf bandaríski rapparinn Yung Bleu út lagið Miss It á Youtube (sjá hér fyrir ofan). Lagið fékk góðar viðtökur á meðal hlustenda en í þessum rituðu orðum hafa rúmlega fimm milljónir manna hlýtt á lagið. Eflaust gera þó fæstir sér grein fyrir því að íslenskur pródúser er á bak við lagið, taktsmiðurinn Ice Starr, sem heitir réttu nafni Árni Freyr Lárusson. Ásamt því að hafa pródúserað fyrir Yung Bleu vinnur hann einnig að efni með öðrum erlendum listamönnum. Fyrir stuttu hafði SKE hafði samband við Árna Frey og forvitnaðist nánar um málið. 

Viðtal: RTH
Viðmælandi: Árni Freyr Lárusson (Ice Starr)

SKE: Sæll, Árni – hvað er helst í fréttum?

Árni Freyr: Ég er á fullu
þessa dagana að koma út nýjum töktum til að setja inn á
Youtube og síðuna mína. Auk þess er ég að vinna að nýju lagi
fyrir Yung Bleu ásamt lögum fyrir nokkra aðra þekkta „artist-a“ sem ég má því miður ekki nefna í augnablikinu.

Í febrúar sendi rapparinn Yung Bleu frá sér lagið Miss It – yfir bít frá þér – sem notendur Youtube hafa nú hlýtt á rúmlega fimm milljón sinnum. Hvernig kom samstarfið til?

Hann, eins og
margir aðrir listamenn, fundu mig í gegnum Youtube og keypti
svokallaðan „Lease“ af taktinum. Svo í framhaldinu eftir að
lagið fór að verða vinsælt hafði umboðsmaðurinn hans (sem
er jafnframt bróðir rapparans Lil Boosie) samband við mig í gegnum
email í tengslum við kaup á taktinum, auk þess sem hann hafði
áhuga á frekari samstarfi.

Myndband við lagið var gefið út í maí en var – sýnist okkur – tekið út af Youtube stuttu seinna. Veistu hvers vegna?

Mér
skilst að hann hafi tekið myndbandið út eftir að hann sá
hversu vinsælt lagið var að verða. En það er nýtt myndband á
leiðinni.

Sem taktsmiður gengur þú undir nafninu Ice Starr. Hver er sagan á bak við nafnið?

Í rauninni vildi ég tengja nafnið við Ísland og þaðan kemur „Ice“ og
svo fannst mér „Starr“ passa vel þar sem það sker sig úr.

Hefurðu pródúserað eitthvað fyrir íslenska rappara? Ef ekki – hvaða þrjá íslenska rappara myndirðu vilja fá í hljóðverið með þér?

Ég hef ekkert
pródúserað fyrir Íslenska rappara en væri til í það ef þeir
myndu leita til mín. Úff, það er erfitt að svara þessari
spurningu, en ætli ég myndi ekki velja GP, Birnir og Hnetuna.

Hvaða græjur / tæki / hljóðfæri notar þú við sköpunina?

Ég hef alltaf
notað FL Studio og vinn flest allt í gegnum það forrit. Svo er
ég með KRK Rokit 6 „monitor-a.“

Þú pródúseraðir einnig lagið ‘Fly Love’ eftir Lucas Coly. Hvað geturðu sagt okkur um samstarfið?

Það var reyndar frekar steikt dæmi. Ég hafði ekki hugmynd um að hann væri búinn að gera lag yfir takt frá mér fyrr en félagi minn benti mér á lagið á Youtube og þá var það komið upp í, minnir mig, 750.000 „views.“ En líkt og Yung Bleu fann hann taktinn í gegnum YouTube rásina mína.

Uppáhalds pródúser?

Þessa stundina er það Weezy og svo er Zaytoven alltaf í miklu uppáhaldi.

Besta fjárfesting í gegnum ævina?

Ég segji Rokit Hátalarnir. Svo öll VST og DrumKits sem ég hef verslað í gegnum tíðina.

Er meiri tónlist á leiðinni? Einhver „collaborations?“

Já klárlega, það er margt í gangi þessa stundina og vonandi verður framhald á því.

Eitthvað að lokum?

Hér er hlekkur á heimasíðuna www.Icestarr.com og á Youtube rásina  www.Youtube.com/Icestarrbeatz. Ég hvet sem flesta til að tékka á töktunum.

Hér fyrir neðan geta lesendur svo hlýtt á lagið Dimanche Soir eftir rapparann Lasco. 

Auglýsing

læk

Instagram