Nýtt frá Chance the Rapper, Cardi B, Drake, o.fl.

Fréttir

Eitt sinn lét bandaríska ljóðskáldið Robert Frost þau orð falla að hann gæti, í rauninni, útlistað allt sem hann hafði lært um lífið með þremur orðum: „það heldur áfram.“ Það má segja að hið sama eigi við um tónlist; það virðist engu máli skipta hvað gerist í hinum stóra heimi, svo lengi sem andrúmsloftið varir – halda tónlistarmenn áfram að skapa. Undanfarna daga og vikur hafa mörg ný og góð lög litið dagsins ljós. Fyrir stuttu tók SKE saman nokkur lög sem hafa verið í uppáhaldi.

Lloyd Banks – Untouchable (Freestyle)

Eitt af erindum ársins. Lloyd í ótrúlegu formi.

Somewhere long away they switch the agenda:
Who gave the junkies power? /
Paper cuts from counting this money:
Don’t trust a money counter /
Gotta be the drugs 
Your favorite celebrity cutting powder /
Popularity is a skeezer:
Never gave a fuck about her /

Chance the Rapper & Jeremih – Down Wit That

Í fyrra gáfu rapparinn Chance the Rapper og söngvarinn Jeremih út plötuna Merry Christmas Lil’ Mama en síðastliðinn 19. desember gaf tvíeykið út nýja útgáfu af plötunni („disc two“) þar sem 10 ný lög bættust við í safnið. Lagið Down Wit That stendur óneitanlega upp úr.

Lil Wayne – Everyday We Sick

Síðastliðinn 25. desember gaf rapparinn Lil Wayne út mixteipið Dedication 6. Mixteipið geymir 15 lög sem skarta gestum á borð við Nicki Minaj, Gudda Gudda, Euro, Cory Gunz, Zoey Dollaz og fleiri. Lagið Everyday We Sick hefur verið í ákveðnu uppáhaldi.  

King Los feat. Hopsin & Royce 5’9 – Everybody’s a Bitch

Þann 25. desember síðastliðinn kom rapparinn King Los aðdáendum sínum á óvart með mixteipinu Moor Bars, stuttu eftir útgáfu mixteipsins G.O.A.T. Tape. Rapparinn, sem hlaut á sínum tíma plötusamning hjá fyrirtækinu Bad Boy Records, fær aðstoð frá rímnasmiðunum Royce Da 5’9“ og Hopsin í laginu Everybody’s a Bitch.  

Lil Wayne feat. Drake – Family Feud

Drake var ekki gestur á fyrrnefndu mixteipi Lil Wayne, Dedication 6, sem kom út á jóladag, og kom það mörgum á óvart. Viku eftir útgáfu plötunnar, hins vegar, bætti Wayne úr því og fékk Drake með sér í lagið Family Feud (sem er upprunalega eftir Jay-Z en hann gaf jafnframt út myndband við lagið nýverið). 

SiR feat. Schoolboy Q – Something Foreign

SiR gaf út lagið Something Foreign ásamt rapparanum Schoolboy Q í lok nóvember. Mánuði síðar leit svo myndband við lagið dagsins ljós á Youtube. Fínasta lag hér á ferð.

Nino Man x Jadakiss – I Hate You

Rappararnir Nino Man og Jadakiss rappa hér yfir píanóútgáfu af laginu I Love You eftir söngkonuna Mary J. Blige. Lagið ber titilinn I Hate You. 

Bruno Mars feat. Cardi B – Finesse (Remix)

Rapparinn Cardi B hefur verið á allra vörum frá útgáfu lagsins Bodak Yellow í fyrra. Nýverið fékk söngvarinn Bruno Mars hana til liðs við sig í laginu Finesse (Remix) en um ræðir endurhljóðblandaða útgáfu af samnefndu lagi sem Bruno Mars gaf út fyrir ári síðan. Myndbandið er innblásið af sjónvarpsseríunni In Living Color sem gerði það gott á tíunda áratugnum. 

Auglýsing

læk

Instagram