Það græða allir á „valdeflingu kvenna.“ SKE spjallar við Litríki

Viðtöl

SKE: Einhvern tímann sagði einhver að femínismi væri einfaldlega það að stilla upp samasemmerki á milli kvenna og karla – og standa síðan fast við fyrrnefnt samasemmerki sama hversu óverðugir þessari jöfnu karlpeningurinn kunni að virðast. Þessi hugmynd er beinlínis sönn ef hún er gaumgæfð út frá sjónarmiði #metoo og #höfumhátt byltinganna (þar sem siðferði kvenna stendur framar siðferði karla) og þurfa karlmenn, augljóslega, að líta í eigin barm … síðastliðinn 18. október gaf hljómsveitin Litríki  sem samanstendur af þeim Margréti Thoroddsen, Erlu Stefánsdóttur og Myrru Rós Þrastardóttur  út lagið KONA (sjá hér fyrir ofan) en lagið er, að einhverju leyti, innlegg hljómsveitarinnar inn í fyrrnefnda umræðu og byltingu. SKE spurði hljómsveitina nánar út í byltingarnar, lagið og rappið.

Viðtal: RTH
Viðmælandi: Litríki

SKE: Hvernig kom samstarf ykkar í Litríki til? 

Litríki: Þannig var að við fórum allar í tónsmiðju sem KÍTÓN (Konur í tónlist à Íslandi) hélt fyrr á árinu í Stykkishólmi. Þar dvöldum við í viku, kynntumst hvorri annarri og sömdum saman tónlist ásamt fleiri konum. Við smullum svona líka saman og vildum byrja strax að vinna að nýju verkefni. Fyrsta smáskífan okkar, KONA, var meira að segja samin þar.

SKE: Hver var kveikjan að laginu?

Litríki: Þegar við stelpurnar vorum saman í Stykkishólmi áttum við að semja lög á hverjum degi. Kvenorkan sem fylgdi þessum dögum var mögnuð og það hlýtur að vera þess vegna sem KONA hálfpartinn kom til okkar. Eina sem við ákváðum áður en við byrjuðum að semja var að nota hljóðgervla og rafraddir. Myrra fann einhvern radd effect og fór að grína með einhverja frasa sem við notum í laginu og textinn spannst um leið og lagið sjálft. Kveikjan er í sjálfu sér allt kjaftæðið í kringum okkur og upplifanir okkar á misrétti, útlitskröfum og kynbundnu ofbeldi. Við vorum nokkurn veginn í hláturskasti að semja þetta alvarlega lag, útkoman er því fyndin og alvarleg í senn, að okkar mati.

SKE: Lagið inniheldur stuttan rappkafla. Hlustið þið mikið á rapp og ef svo er hvaða listamenn eru í uppáhaldi?

Litríki: Við vorum allar mjög duglegar að hlusta á rapp á yngri árum. Tíundi áratugurinn geymir nokkur gullkorn rappsins að okkar mati, Hip Hop sena sem verður aldrei þreytt! En í dag er náttúrlega ótrúleg gróska í gangi bæði hérlendis og erlendis og það er gaman að fylgast með senunni springa út. Þar má helst nefna Cell 7, en við höfum allar hlustað á hana síðan Subterranean byrjaði. Það má alveg segja frá því að þetta var algjörlega í gamni sem við ákváðum að hafa kaflann rappaðan enda frumraun Margrétar í rímnaflæði. Við hugsuðum bara að það væri næs að hafa smá rapp: „Þú prufar það bara, Margrét,“ sagði Myrra. Það verður samt ekkert endilega rapp í komandi lögum.

SKE: Lagið er, ef svo mætti að orði komast, ákveðin ádeila á feðraveldið. Hvað, að ykkar mati, þarf að breytast í þessu samhengi í íslensku samfélagi?

Litríki: Það er alveg magnað hvað KONA rammar inn þessar byltingar sem hafa verið í gangi. Þá erum við að tala um #metoo og #höfumhátt. Það sýnir að við og eflaust fleiri vorum löngu farnar að hugsa um þessa hluti og komnar með nóg áður en byltingarnar hófust. Það eru einhvers konar tímamót núna og líklega er aldrei auðveldara að segja frá og benda á úrelta hætti.

Það gerist þó ekkert nema við, öll sem eitt, stöndum saman í baráttu að jafnrétti. Í því samhengi er ákaflega mikilvægt að ríkisvaldið, stofnanir og samfélagið í heild, vinni að valdeflingu kvenna. Það græða allir á því og okkur finnst ótrúlegt ef þarna úti er fólk sem sér það ekki!

SKE: Er plata á leiðinni eða myndband?

Litríki: Okkur finnst allavega sjúklega gaman að vinna saman, fíflast og semja. Það er því klárlega efni á leiðinni, enda nóg til af hugmyndum.

SKE: Eitt lag sem er í sérstöku uppáhaldi þessa dagana og hvers vegna?

Svar við þessu verður að koma þrískipt þó við séum nú mjög samrýmdar..

Erla Stef: Nýtt efni með Queens of the Stone Age á hug minn allan, og get ég þá nefnt lagið Villains of Circumstance.

Margrét G: Ég er með nýja efnið hennar DÍSU á endurtekningu heima, sérstaklega lagið Wires. 

Myrra Rós: Ég hef hlustað mikið á You Know I Have to Go með Röyksopp feat. Jamie Irrepressible upp á síðkastið. Það er eitthvað svo næs lag. Gott vibe.

SKE: Eitthvað að lokum?

Litríki: Takk fyrir okkur, þið getið leitað okkur uppi bæði á Spotify og Youtube og samfélagsmiðlinum Facebook! Góðar stundir.

(SKE þakkar Litríki kærlega fyrir spjallað. Hér fyrir neðan eru lögin Villains of Circumstance, Wires og 

Auglýsing

læk

Instagram