„Tvö saklaus fiðrildi sem stefna á tunglið.“ – JóiPé og Króli

Auglýsing

Tónlist

SKE: Nýverið klofnaði mannkynið í tvennt í kjölfar umdeildra ummæla Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, þess efnis að ef hann mætti ráða yrði ananas – þessi saklausi, sæti, safaríki ávöxtur – skipaður í ævilanga útlegð frá því hringlaga ætilandi betur þekkt sem Pizza; sumir voru sammála, aðrir ekki. Á svipuðum tíma og forseti Íslands fordæmdi fyrrnefndan ávöxt gáfu tveir ungir rapparar, þeir JóiPé og Króli, út plötu sem heitir sama nafni: Ananas (aðgengileg á Spotify)  en þó er engin bein tenging þar á milli að sögn rapparanna. SKE hafði samband við tvíeykið og forvitnaðist nánar um tónlistina, stefnuna og fleira.

Viðtal: RTH
Viðmælendur: JóiPé og Króli

SKE: Sælir, strákar, hvað er helst í fréttum?  

Auglýsing

JP&K: Jú, það eru náttúrlega gjaldeyrishöftin, Gunni Nels var að keppa og síðan vill Guðni Th. banna Ananas?!? Skil ekki alveg hvað platan okkar hefur gert honum.

SKE: Hverjir eru JóiPé og Króli – hvaðan koma þeir og hvert stefna þeir?

JóiPé og Króli eru tvö saklaus fiðrildi úr greipum fjarðarins sem kenndur er við höfn og Garðarhrepps, og þeir stefna á tunglið.

SKE: Ef Háskóli Íslands væri gamli skólinn og Háskóli Reykjavíkur væri nýi skólinn – hvað Hip-Hop varðar – hvert myndu JóiPé og Króli senda umsóknina?

Háskóla íslands, við myndum dúxa, útskrifast á hálfu ári með doktor í öllu og stofna okkar eigin skóla á Hvammstanga þar sem við myndum taka það besta úr báðum skólum og byggja á því. Ásamt því væru inngönguskilyrðin að þú þyrftir annað hvort að vera rauðhærður eða tveir metrar.

SKE: Nýverið gáfuð þið út plötuna Ananas. Hvaðan kemur titill plötunnar? 

Það er bara hrein tilviljun, Við kynntumst á netinu í desember og hittumst sama mánuð í smá demo session, tókum upp nokkur lög og Jói ákvað að skíra eitt demoið PINEAPPLE og setti mynd af ananas við file-in. Síðan pældum við ekkert í því fyrr en við skrifuðum viðlagið og notuðum nafnið á file-num sem innblástur og okkur fannst bara skemmtilegt að hafa þetta sem titillag plötunar.

SKE: Ef við kæmum stóru auglýsingaskilti fyrir í miðbæ Reykjavíkur og þið gætuð ráðið skilaboðum fyrrnefnds auglýsingaskiltis, hver væru skilaboðin?

Við myndum auglýsa til skiptis einhleypa DJ-inn okkar sem er í leit að ást og síðan myndum við spila lagið Þrumustuð (á Catalinu) í 10 tíma.

SKE: Ef SKE myndi spons-a tíu laga plötu og þið gætuð valið hvaða tíu listamenn í „collaboration“ – lífs eða liðnir, erlendir eða íslenskir – hvaða listamenn mynduð þið vilja fá á plötuna?

Rich Chigga (illa svalur gæji)
Landaboi$ (okkar uppáhalds íslensku rapparar)
Daði Freyr Pétursson (það væri ógeðslega skemmtilegt crossover)
Tyler The Creator (Jói og hann gætu farið að metast hver er með dýpri rödd)
Lil Dicky (Klikkað flæði og enþá betri rímur)
A Tribe Called Quest (fyrsta hip-hop platan sem Jói hlustaði á)
Smjörvi og Hrnnr (hver myndi ekki?)
The Notorious B.I.G. (GOÐSÖGN)
Flatbush Zombies (Fáránlega nettir)

SKE: Hvað er á dagskrá? Tónleikar? Myndbönd? Fleiri plötur?

Nokkur gigg hér og þar, erum síðan að vinna í smáskífu ásamt einhverjum sóló verkefnum og síðan eru við með hann góðvin okkar Tómas Welding (S/O Á HANN! TJEKKIÐ Á INSTAGRAMINU HANS) sem tekur fyrir okkur myndbönd og erum við að plana eitt slíkt í augnablikinu. Síðan er það bara að haffa gamman og liffa liffinu.

SKE: Hvaða lag hefur haft mestu áhrif á ykkur og hvers vegna?

K: úfff, erfið spurning … Ég verð alltaf klökkur við að heyra Leiðin okkar allra með Hjálmum. En það sem hefur haft mest áhrif á hvernig tónlist ég vill gera er bara öll Óheflað málfar platan með Dabba t.

J: Sunrise með Norah Jones, lag sem lætur mig alltaf hugsa um bara allt, ég hreinsast svolítið við þetta.

SKE: Uppáhalds ríma? Punchlína?

K: „Viltu beef ekkert mál skal ekki ljúga að þér kallinn / 
Því bara nafnið mitt myndi rústa þér í battle-i /“  – Dabbi t

J: „Ég kann ekki ljóðið þó ég hafi samið það / 
Því það er í nútíð og ég er ekki þar í dag /“ – Emmsjé Gauti

Eitthvað að lokum?

Komið á Boston bar 23. Mars til að sjá okkur spila, BÆ! #stayananas. Hér er svo myndin sem færi á skiltið (dj-inn okkar).

(SKE þakkar JóaPé og Króla kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til þess að mæta á Boston 23. mars. Hér fyrir neðan geta hlustendur svo hlýtt á plötuna Ananas á Spotify, ásamt lagið Spreða sem finna má á plötunni.)

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram