„Var eiginlega bara að syngja um það hvernig mér leið.“​ – Guðrún Ýr

Auglýsing

Tónlist

Eitt sinn lét írski heimspekingurinn George Berkeley eftirfarandi ummæli falla: „Að vera er að vera skynjaður“ („Esse est percipi“). Í samhengi ástarinnar tekur þessi hugmynd á sig ógnvænlegri mynd; ástfangin manneskja hræðist ekkert meir en að hverfa úr augsýn þess sem hún elskar – slíkur ósýnileiki jaðrar við dauðann.

Síðastliðinn föstudag sendi söngkonan Guðrún Ýr frá sér lagið Ein og segja má að texti lagsins – að einhverju leyti, að minnsta kosti – tengist þessari hughyggju Berkeley: löngun manneskjunnar að sjá og vera séð, sumsé að upplifa ekki þann einmanaleika sem felst í fyrrgreindum ósýnileika. 

Lagið er pródúserað af tvíeykinu ra:tio, sem samanstendur af þeim Bjarka Sigurðarsyni og Teiti Helga Skúlasyni, og er aðgengilegt á Spotify. 

Auglýsing

Í samtali við SKE fyrir helgi lýsti Guðrún Ein sem lagi sem margir ættu að geta tengt við. Aðspurð út í texta lagsins svaraði Guðrún skorinort: „Ég var eiginlega bara að syngja um það hvernig mér leið.“

Guðrún Ýr spjallaði einnig við blaðamann hjá vefsíðunni Bleikt.is nú á dögunum þar sem hún tjáði sig nánar um samstarf hennar og ra:tio:

„Við erum að vinna að stærra verkefni í augnablikinu sem kemur vonandi út bráðlega.“

– Guðrún Ýr

Guðrún Ýr er fædd 1996 og er útskrifuð úr MR. Hún stundar nám í söng og píanóleik og er úr Mosfellsbænum. SKE hvetur lesendur til þess að fylgjast nánar með þessari hæfileikaríku söngkonu í framtíðinni.

Orð: RTH

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram