Viðtal við Eið Smára Guðjohnsen birtist á indversku fréttatísíðunni Scroll.in í morgun, en Eiður Smári kemur til með að spila í indversku ofurdeildinni í vetur með FC Pune City. Hér fyrir neðan má lesa viðtalið í heild sinni í íslenskri þýðingu:
Indland verður tíunda landið sem þú keppir í, en hvers vegna Indland?
Ég varð spenntur fyrir ISL (The Indian Super League) verkefninu eftir að þjálfari FC Pune City, Antonio Lopez Habas, hafði samband við mig og taldi mig trú um að ISL væri ekki einvörðungu einstök deild heldur einnig mjög erfið líkamlega. Þetta var ástæðan fyrir því að mig langaði að spila á Indlandi.
Hefurðu séð einhverja leiki í ISL?
Þar sem ég er búsettur í Evrópu er erfitt fyrir mig að fylgjast með, en það sem ég hef séð af æfingunum þá virðist vera góður andi á milli erlendra og indverska leikmanna. Þetta snýst allt um að finna jafnvægið í byrjun tímabils.
Nokkrar fyrrverandi fótboltastjörnur hafa spilað í deildinni á síðustu tveim tímabilum. Hefurðu spjallað við þá varðandi hörkuna í deildinni?
Nei, ég hef ekkert spjallað við þá vegna þess að ég hef ekki verið í neinu sambandi við leikmenn sem spila í ISL deildinni.
Hver eru fyrstu viðbrögðin þín við FC Pune City? Hafa einhverjir leikmenn fangað athygli þína?
Fagmennska leikmannanna hefur komið mér skemmtilega á óvart. Ég held að það sé mikilvægasti hluti leiksins. Æfingaraðstæður eru líka til fyrirmyndar. Hvað indversku leikmennina varðar, þá get ég ekki nefnt neinn einn leikmann en þeir eru mjög góðir. Þeir eru ástundunarsamir og vilja bæta sig.
Ísland stóð sig frábærlega á Evrópumótinu og það voru margir sem héldu með ykkur. Þú hefur spilað með landsliði Íslands í 22 ár, en hvernig fannst þér á EM?
Það hefur verið mikill heiður að spila fyrir liðið í allan þennan tíma og mig hefur dreymt um að spila á EM frá því að ég var lítill. Hins vegar bjóst ég ekki við því að við myndum hanga svona lengi í keppninni.
Hvernig voru móttökurnar þegar þið komuð aftur heim?
Hún var einstök, nánast eins og draumur. Manni leið eiginlega eins og við höfðum sigrað mótið. Við héldum upp á árangurinn með leikmönnunum og svo með aðdáendum. Við böðum okkur enn í EM þynnkunni. En mótið er búið og það er tímabært fyrir okkur að halda áfram.
Nú líta mörg þróunarríki til Íslands og KSÍ (sem hefur staðið að uppbyggingunni síðastliðin 15 ár) sem fyrirmynd í fótboltanum. Hvað finnst þér um það?
Þróun íslenskrar knattspyrnu hefur verið langt ferli og tekur sinn tíma. Hvort að við séum búnir að uppgötva hina fullkomnu leið til þess að þróa gott kerfi, veit enginn, en þetta hefur að minnsta kosti virkað mjög vel hérna heima. Indland þarf að feta sína eigin braut.
Skiptir stærðin máli? Heldurðu að það sé auðveldara að byggja upp knattspyrnu í svona litlu landi, í samanburði við svona stórt land eins og Indland?
Það er erfitt að segja. Það eru ekki langar vegalengdir á Íslandi og auðvelt að stilla upp samkeppnishæfri deild. Ungdómurinn þarf ekki að ferðast langar vegalengdir til þess að sækja aæfingar og geta yfirleitt gengið eða hjólað. En þar sem Indland er svo stórt, þá verður Indland að átta sig á því hvað virkar best fyrir Indland.
Er eitthvað eitt sem stendur upp úr á ferlinum?
Ég ver mjög heppinn að hafa spilað fyrir mörg stærstu lið heims. Það er erfitt að velja eitthvað eitt, þar sem ég hef upplifað margar hæðir og lægðir. Mér hefur gengið vel og hef einnig gengið í gegnum mína erfiðleika líka, sérstaklega hvað meiðsli varðar. En í heildina hefur þetta verið unaður.