„Við erum alltaf að rýna í eigin rassgöt.“

Ljósmynd: Auður Ómarsdóttir
Viðtal: RTH
Viðmælandi: Sunneva Ása Weisshappel

SKE: Að vera listamaður er að vera með þráhyggju fyrir getnaði. Þegar listamaðurinn verður ófrískur, er hann alsæll. En um leið og barnið (listaverkið) fæðist (er fullklárað), byrjar hann um leið og velta því fyrir sér hvort að hann sé ófrjór. Þessi grunsemd gagntekur listamanninn, gagnsýrir hann, heltekur hann. Svo, að sökum einhvers ólíklegs kraftaverks, gerist það aftur listamaðurinn verður óléttur. Hann fyllist hamingju. Brosir. Dansar. Svo fæðir hann. Listaverkið kemur öskrandi inn í heiminn. En áður en listamaðurinn er genginn út af fæðingardeildinni, byrjar sorgarferlið á ný: „Gæti það verið að ég sé orðinn ófrjór?Og þannig gengur líf listamannsins  endalausar sveiflur á milli þess að vera ófrískur og hamingjusamur og ófrjór og vansæll, þangað til að hann deyr, fyrir rest. Enginn heilvita manneskja velur sér þessa kvöl, öllu heldur er það einhver óræð þrá sem ýtir listamanninum út á þessa bugðóttu braut… fyrir stuttu spjallaði SKE við Sunnevu Ásu Weisshappel, listakonu með meiru, sem skilur vítahring sköpunar betur en flestir, ímyndum við okkur. 

SKE: Sem
listamaður hefur þú farið um víðan völl: myndlist, vídjóverk,
búningahönnun, dans, kóreografía. Hvaðan kemur þessi sköpunarþörf?

Sunneva Ása Weisshappel: Ég
tel að skilin á milli listforma séu að þurrkast út, sköpunin
kemur frá sama stað og sprettur af sömu þörf og áhuga. Ég hef
alltaf þurft að skapa, búa eitthvað til. Ég veit ekki beint
hvaðan þörfin kemur, þetta er bara í eðlinu. Síðan ég var
lítil hef ég haft mikla tjáningaþörf, það var aldrei neitt
annað en listin og ég stefndi eina leið, ómeðvitað. Ég næ að
beisla orkuna mína í listinni og njóta mín, hafa áhrif, búa til
fallegt og ljótt, fyndið og ögrandi. Það getur verið mikið
ströggl að vinna við listina, svo þessi óslökkvandi þörf er
kannski helsta ástæðan fyrir því að maður getur ekki slitið sig frá henni.

SKE: Amen … Hvernig
myndirðu lýsa sjálfri þér?

SÁW: “I’m
a genie in a bottle, You gotta rub me the right way.” Þannig að ég er svona blanda af Christina Aguilera og Mike Tyson, því
ég get líka bitið.

SKE: Af
þeim tónlistarmyndböndum sem þú hefur unnið að, hvaða
myndband stendur upp úr og hvers vegna?

SÁW: Þegar
ég leikstýrði myndbandinu Blóðberg með hljómsveitinni Mammút
(Blood Burst).

Það
var epískt. Uppi á snjóþöktu þaki Algera í iðnaðarhverfinu í
Árbænum. Baða heila hljómsveit upp úr kindablóði í
uppblásinni plastsundlaug. „White trash“ listahyski í útjaðri
Reykjavíkur, mér leið þannig og það var skemmtilegt. Engin
mörk, ekkert hik, fullt traust og bara gaman. Það voru um 30 manns
sem komu að myndbandinu og unnu saman, við löðruðum leikara upp
úr sírópi og bjuggum til líkamsskúlptúra, enginn skúlptúr
jafnast á við mannslíkamann.

SKE: Þú vinnur nú að uppsetningu óperunnar Siegfried eftir Wagner í Þýskalandi. Ertu mikill Wagner aðdáandi?

SÁW: Ég lá oft á tilfinningafylleríum og hlustaði á Tristan og Isold þegar ég var yngri. Ímyndaði mér elskhugana tvo (ég að sjálfsögðu í aðalhlutverki) sem fengu ekki að vera saman. Hann var fyrsta klassíska skáldið sem ég persónulega heillaðist af. Ég elska hvað Wagner býr til mikla spennu í verkum sínum, þegar maður rýnir í verk hans fer huginn á flug. Það er í rauninni ótrúlegt að vera vinna að Niflungarhringnum í stóru Óperuhúsi í Þýskalandi. Ég fæ þar frelsi til að teygja búningahönnun mína lengra en ég hef áður gert. Óperan bíður upp á svo mikla stærð. Ég er þar að gera risastóra skúlptúra, dreka sem nær yfir alla leikmyndina, fljúgandi myndir og form. Þetta er alveg mega.

SKE: Uppáhalds kvikmynd?

SÁW: Þær sem hafa staðið upp úr eru Holy Mountain, Natural Born Killers, Eyes Wide Shut, Taxadermia, Inception og Superstar!

SKE: Eru listakonur og -menn kuklarar nútímans (“modern sorcerers”)?

SÁW: Já, ég lít þannig á það. Ég skrifaði Manifesto um það 2014, Ef ég væri Kanína.

SKE: Þú byrjaðir óvænt að starfa sem búningahönnuður fyrir Njálu í Borgarleikhúsinu og hlaust síðar Grímuverðlaunin 2015 fyrir búninga ársins. Hvernig er ferlið og hver er lykillinn að góðum búningum?

SÁW: Ég veit bara hvernig ég hanna búninga, ekki að það sé lykilinn af góðum búningum, en það virkar fyrir mig. Sama leið og þegar ég geri myndlist eða hreyfingar, fyrst þarf ég að skilja viðfangsefnið, svo hlusta ég á innsæið og leyfi tilfinningunni að stjórna og túlka og þá fer ég í eitthvað spennandi ferðalag ásamt listahópnum. Það sem er skemmtilegt við leikhúsið, meðal annars, er að maður er að túlka sögu og þá er maður komin með miklu þéttari grunn til að byggja á. Mér finnst búningar, eða „visual“ vinnan á bak við sýningar vera síðan annað lag, sjónræn túlkun eða sjónræn leikstjórn að einhverju leyti, ef maður fær listrænt frelsi og traust þar að segja, eins og ég fékk í Njálu.

SKE: Síðan þá hefur þú getið þér gott orðspor á því sviði og starfað, meðal annars, við Ibsen í þjóðleikhúsinu í Osló, Hamlet í Sviss, Mutter Courage og Othello í Þýskalandi. Í ár sérðu um búningana í Óþelló í Þjóðleikhúsinu. Hvers vegna eiga lesendur að sjá Óþelló í Þjóðleikhúsinu?

SÁW: Þetta er í fyrsta sinn sem illmennið Jagó er kona. Nína Dögg Filippusdóttir leikur Jagó og svo megum við landsmenn líka alveg horfast í augu við rísandi rasismann sem er að vaxa hér á landi og spegla okkur í Shakespeare.

SKE: Uppáhalds tilvitnun/hugmynd eftir Kierkegaard?

SÁW: Um 23 ára aldur var ég með kenningu hans um manngerðir alveg á heilanum. Hann var einn af þeim helstu sem mótuðu tilvistarstefnuna, sem snýst aðallega um tilvistarvanda einstaklingsins. Ég hef mikinn áhuga á að líta inn á við og skoða þær tilfinninga- og tilvistakreppur sem ég geng í gegnum, breiskleikann, kosti og galla, og þá í samhengi við stefnuna og aðrar sambærilegar stefnur. Oftar en ekki er tilvistarvandi einstaklingsins viðfangsefni listaverka minna. Við erum alltaf að rýna í eigin rassgöt.

SKE: Eftir útskrift frá Listaháskólanum árið 2013, stofnaðirðu Algera Studio, vinnustofu fyrir listamenn. Hver er staðan á Algera í dag?

SÁW: Algera blómstrar. Eftir ég fór að starfa svona mikið erlendis þá gaf ég reksturinn til annarra samstarfsmanna í Algera. Það hafa orðið miklar breytingar, nýjar áherslur, nýtt fólk, nýr andi. Sem er frábært, það verður að vera hreyfing. Allt þarf að breytast og þróast til að lifa.

SKE: Helsta vandamál íslensks samfélags?

SÁW: Virðingarleysi fyrir menningu og náttúru. Við erum ungt samfélag með menningarþroska á sama stigi og ég þarf stundum að minna mig á það, til að verða ekki of gröm. Það hefur gagnast mér betur að taka af skarið og framkvæma til að breyta, fremur en að sitja við í roksins reiði.

SKE: Eitthvað að lokum?

SÁW: Ég vil þakka foreldrum mínum, Jóku og Frikka, fyrir að hafa staðið með mér, stutt mig og hjálpað mér í allri þeirri vitleysu sem ég hef látið mér detta í hug og framkvæmt í gegnum tíðina. <3 

(SKE hvetur lesendur til að sjá Óþelló í Þjóðleikhúsinu, en verkið verður frumsýnt þann 22. desember, ásamt því að fylgjast nánar með Sunnevu í framtíðinni.)

Auglýsing

læk

Instagram