„Viltu kyssa mig ef ég drep alla sem eru fyrir þér?“—SKE spjallar við kef LAVÍK

Auglýsing

Viðtöl

SKE: Þann 11. ágúst árið 1958 fangaði bandaríski gagnrýnandinn Orville Prescott viðbrögð hins almenna lesanda við bókinni Lolita—eftir rússnesk-bandaríska höfundinn Vladimir Nabokov—og þá á fremur skorinorðan hátt: 

Nabokov ritar klám undir yfirskini bókmenntar. Kannski er það ekki ætlunin. Kannski trúir hann því að bókin sé háðsádeila og innsýn inn í afbrigðasálfræði. Engu að síður, Lolita er ógeðsleg. (The New York Times)

Undirritaður ímyndar sér einhvern veginn að sama málsgrein sé sömuleiðis fær um að fanga viðbrögð forpokaðra hlustenda við tónlist íslenska tvíeykisins kef LAVÍK. Máli sínu til stuðnings vísar undirritaður í vinsælasta lag tvíeykisins (að minnsta kosti á Spotify), sem ber titilinn Leiðirnar Til Himna—viðlag lagsins er svohljóðandi: 

Auglýsing

Hún er að fróa sér og hugsa um að ríða mér /

Ríða mér, ríða mér, mér, mér /

Ég finn samt ekkert /

Því það finnst bara ekkert inni í mér /

Inni í mér, inni í mér, mér, mér /

Ég er að keðjureykja og horfa á hana snerta sig /

Snerta sig, snerta sig, sig, sig /

Ég tala um alheiminn og leiðir til að drepa mig /

Hún bara heldur áfram …

Í tilefni væntanlegra tónleika tvíeykisins á Kex Hostel, næstkomandi 19. janúar, hafði undirritaður samband við kef LAVÍK og forvitnaðist um lífið og listina; sveitin hefur lengi vakið athygli og aðdáun SKE. Gjörið svo vel.

Viðtal: RTH

Viðmælendur: kef LAVÍK

SKE: Já, góðan daginn. Hvernig liggur á ykkur? 

kef LAVÍK: Við höfum aldrei verið betri.

SKE: Eitt af því sem gerir kef LAVÍK áhugaverða sem hljómsveit er textasmíðin. Þetta er sú hlið nútíðartónlistarhvað tónlist íslenskra og erlendra ungmenna varðar, og þá kannski sérstaklega rapptónlist—sem hefur verið svolítið abótavant. Eru lestur og hugsun ekki forsenda góðrar textasmíðar?

KV: Oftast þegar ég hlusta á það sem maður myndi kalla urban tónlist fæ ég mikla innilokunarkennd. Almennt séð þætti mér eðlilegra að listamenn myndu leita út fyrir sjóndeildarhringinn í stað þess að sækja sér fyrirmynd einfaldlega frá því sem höfðar til stærsta markhópsins á hverjum tíma. Það er eins og með auknu aðgengi að upplýsingum viljum við síður sækja þær, vinna úr þeim og meðtaka. Mér finnst maður vera að horfa fram á einhverja dystópíu þar sem hver og einn einstaklingur hefur allar þær upplýsingar og allar þær listir sem hugurinn girnist á fingurgómum sér og það eina sem þarf að gera er að teygja sig en enginn ákveður að gera það—því það er þægilegra að láta aðra velja fyrir sig. Ég teldi mig sem listamann afar latann ef ég myndi ekki grafa dýpra en poppkúltúrinn nær til að leita að innblæstri og fyrirmyndum. Í rauninni er lestur ekki einu sinni forsenda góðrar, vandaðrar og frumlegrar textasmíðar, það er bara hugsun. Hugsun umfram það sem meðalmanneskjan gerir á degi hverjum.

Svo ég haldi áfram að rant-a um list og uppsprettu hennar þá þykir mér listasamfélagið yfir höfuð takmarka sig ótrúlega mikið við að stúdera tungumál, listir og hugvísindi. Það er eins og einhver hafi tekið þá ákvörðun fyrir svona 50 árum að héðan í frá skyldu listamenn vitsmunalega stoppa við mörkin milli raun- og hugvísinda og hægt og rólega hafi yfirgnæfandi meirihluti hoppað á þann vagn. Ef við lítum aftur á móti á söguna eru fjölmörg dæmi þess að stórmerkilegustu listamenn hafi ekki einungis takmarkað sig við listsköpun og hugvísindi heldur lært náttúruvísindi, stærðfræði, eðlisfræði; tungumál alheimsins í stað tungumála manneskjunnar, sem eru talsvert tilkomuminni verkfæri. Mér þykir þetta verða þess valdandi að poppkúltúrinn er ekki einungis gegnsýrður af einstefnu, þekkingarleysi og varfærni, heldur verður listasamfélagið—sem á að vera fjölbreytilegt, áskorandi, framúrstefnulegt og hugmyndaríkt—gegnsýrt af því sama.

SKE: Sagt er að allar plötur ykkar byggist, að einhverju leyti, á örlagaríkum rúnti frá Höfn í Hornafirði til Keflavíkur. Er það rétt—og getið þið gert nánari grein fyrir þessum rúnti?

KV: Eins og svo oft þá segja sögusagnir hálfa söguna hér. Stór hluti af „sviðsmyndinni“ sem við gerðum á fyrstu þremur plötunum okkar lýsir, jú, „rúnti“ milli Hafnar og Keflavíkur, en við erum jafnframt með annan öxulpunkt í atburðarásinni sem verður gamlárskvöld stuttu seinna—sem mér þykir eiga jafn stóran þátt í þessum þremur „plötum.“ Rúnturinn er í raun tvær mismunandi ferðir, annars vegar í miðjum sambandsslitum og hins vegar fyrir þau sem „renna í eitt“ á plötunni og er helsta viðfangsefnið í lögum eins og Útför á Leifsstöð; Þegar mér líður vel; Þórisvatn; og Dóp, kynlíf og rokk og ról. Gamlárskvöldsumræðurnar verða samt upphafið og endirinn á verkinu í heild sinni: Innsprengingarnar og Keflavíkurnæturnar eru að stórum hluta um það.

Skeið í lífinu eru manni sjálfum mismikilvæg en ég held að flestir tengi við eftirfarandi: að hugsa til baka til samtala eða atburða sem einhvern veginn lýsa bæði innra eðli manns sjálfs og/eða þeirra sem maður umkringir sig með. Þessir atburðir eða samtöl sýna hverju maður sjálfur og aðrir eru gerðir úr, virðist lýsa öðrum hugmyndum í stærra samhengi og eru yfirfæranleg á líf annarra; virðast einhvern veginn endalaus brunnur af pælingum og tilfinningum. Þetta tvennt varð sjálfsprottið og lífrænt að gnægð af efni svo það var sjálfsagt að gefa þessu hvað mesta umfjöllun á fyrstu þremur plötunum.

SKE: Þið eruð einmitt úr Höfn í Hornafirði. Í stóra samhenginu, mætti kannski 
lýsa Höfn sem afskekktum og fámennum stað. Spilar bærinn stóra rullu í 
sérkenni kef LAVÍK?

KV: Höfn í Hornafirði skiptir öllu máli. Ef við hefðum verið uppaldir á hvaða stað öðrum í alheiminum hefði kef LAVÍK ekkert orðið til. Nikola Tesla sagði að í einrúmi fæðist bestu hugmyndirnar. Ég er alveg tilbúinn að ganga svo langt að segja að framúrstefna yfir höfuð þrífist best í einangrun—og Höfn í Hornafirði er hvað einangraðasta þéttbýli á Íslandi að frátöldum Vestfjörðum.

SKE: Hvernig er sköpunarferlið hjá kef LAVÍK, sumsé frá hugmynd að fullkláruðu lagi?

KV: Ferlið hjá okkur hefur þróast og breyst í gegnum tíðina. Upphaflega var það þannig að ég skrifaði og samdi eitthvað í frítímum á meðan ég var í framhaldsskóla og svo hljóðrituðum við afraksturinn í herbergi hjá vini okkar. Síðar byrjaði ég full-time á sjó á meðan ég kláraði framhaldsskóla og söngvarinn vann sem kokkur. Ferlið var talsvert heftara þar sem við höfðum í raun einungis eina og aðra helgi sem við notuðum til að taka upp. Ég samdi og skrifaði út á sjó og allt var tilbúið í oftast þriggja daga helgar sem þurftu helst að ganga eins og smurð vél; á þessum tíma gátum við til að mynda ekki drukkið jafn mikið á meðan við tókum upp þannig ég hugsa að fagmennskan hafi kannski aukist lítillega. Við vorum oftar en ekki alveg út úr kortinu fullir þegar við tókum upp fyrstu plötuna. Ég man ekki eftir því að hafa tekið upp Útför á Leifsstöð og Jón Sigurðsson—bara vaknaði næsta dag og fór að hljóðblanda þau.

Eftir að við fluttum til Reykjavíkur höfum við engu að síður haldið í að hafa tilteknar „vinnuhelgar“ þar sem við förum á Höfn. Það samræmist dagskrá okkar beggja, sem eru tiltölulega ósamræmanlegar. Munurinn er þó sá að núna hef ég ekki jafn mikinn tíma í einrúmi og þegar ég var á sjó—suðið frá umheiminum virðist stundum ætla að sprengja hausinn á manni og það hægir verulega á sköpunarferlinu.

SKE: Besta hól sem þið hafið fengið?

KV: Alls konar fólk segir alls konar fallegt við okkur og við metum það flest til jafns.

SKE: Í inngangi myndbandsins við lagið Vélbyssur að tæta mann í tvennt lætur ónefndur karlmaður eftirfarandi ummæli falla: Aðeins átök hjartans eru verðug þess að skrifa um. Hvaðan kemur þessi texti?

KV: Þetta er þýðing á Nóbelsverðlaunaræðu Williams Faulkner, sem er, jú, besta ræða allra tíma. Það er ástæða fyrir því að William Faulkner er enn þá elskaður alveg jafn mikið núna rúmum 70 árum eftir að ræðan var flutt; flest, ef ekki allt, sem hann skrifaði, er algjörlega tímalaust. Maður spyr sig hvort það sé ekki einfaldlega vegna þess að honum þótti átök hjartans eina viðfangsefnið sem vert var að skrifa um?

Nóbelsræða William Faulkner: https://www.nobelprize.org/pri…

SKE: Lagið Jón Sigurðsson hefur lengi verið í miklu uppáhaldi. Hvað getið þið sagt mér um tilurð og tilvist lagsins?

KV: Jón Sigurðsson er alveg með elstu lögunum sem við höfum gert. Í rauninni man ég alveg skelfilega lítið eftir að hafa samið það og eins og ég segi man ég ekkert eftir því að hafa tekið það upp. Vinur okkar Júlíus (s/o) söng líka inn á það—ég held að hann muni einmitt ekki eftir því heldur. Það er mjög hrátt eins og flest sem við gerðum á þessum tíma; rúmar átta rásir ef mér skjátlast ekki.

„Viltu kyssa mig ef að ég drep alla sem eru fyrir þér.“ Eins og ég sé það núna þá er það einhvers konar eftirsjá eftir því hvernig sakleysið eldist af manni og upphaf þeirra flóknu tilfinninga sem við sýnum gagnvart auði, umhverfi, ofbeldi o.s.frv. seinna meir (og gerum enn). Staðreyndin er sú að við erum báðir frjálshyggjumenn; ég sjálfur er eiginlega bara gallharður kapítalisti. Ég trúi á eignarétt á umhverfisauðlindum og að þær eigi að vera nýttar. Ég álít annað fólk ekki eiga tilkall í þá peninga sem ég bý til. Ég vil að fólk geti gert og sagt það sem þeim dettur í hug án þess að ríkið beiti það ofbeldi. Jón Sigurðsson varð eins konar holdgervingur samviskubitsins sem ég átti að hafa vegna þessa skoðana.

Jón Sigurðsson er þannig togstreitan milli metnaðar og umhyggju, og samtímis togstreitan milli ráðandi skoðanda í listasamfélaginu og minna eigin. Játning á ómanneskjulegum og óandlegum þáttum efnishyggjunnar en jafnframt upphafning á efnishyggju og ábending á að hún, rétt eins og allt annað, hefur afar fagurfræðilegar hliðar. Við vitum öll að það væri sennilega mjög næs að elska alla, gefa af sér, verðveita náttúruna og alls konar viðlíka vitleysa. Það er enginn að segja að það sé ekki næs. Aftur á móti er það einfaldlega ekki raunveruleikinn, þannig sá boðskapur verður einhver saga sem er búið að segja svo oft að hún hefur enga merkingu lengur, ekki einu sinni sem draumur. Boðskapurinn byrjar að hljóma eins og innantómt væl.

Jón Sigurðsson verður þannig einhver hrærigrautur af umfangsmeiri hugmyndum um tilveruna og samfélag í bland við þennan intróspektíva pól á samskipti kynjanna sem er gegnumgangandi í okkar efni.

SKE: Fíknilyf eru gjarnan til umfjöllunar í textum kef LAVÍK: Notið þið eiturlyf sjálfir—ef svo er, hvers vegna?

kef LAVÍK: Það er náttúrulega bara staðreynd að fíkniefni eru hluti af því að alast upp á Íslandi—annað hvort eru þau í kring um þig reglulega eða inn í þér reglulega frá því að menn eru táningar. Þau hafa þá eiginleika að draga fram það versta, ýktasta og eigingjarnasta úr öllu fólki. Tilfinningar, hugsanir og skynjanir stökkbreytast á sama tíma og við sviptum hulunni af mörgu því sem hrjáir okkur en við segjum ef til vill ekki ferðafélögum frá. Þegar við rottum okkur saman og drekkum, reykjum, étum pillur eða skóflum dufti í andlitið á okkur höfum við tilhneigingu á að taka djöflana sem við burðumst með og marsera þeim hvert fyrir framan annað eins og þeir séu sýningarhundar. Fíkniefni verða því viðeigandi viðfangsefni fyrir listamenn sem vilja nálgast tilfinningalífið frá fjölbreyttum sjónarhornum.

Við fjöllum um fíkniefni á frjálslyndan hátt. Ég vona að í framtíðinni munu fíkniefni fá þá raunhæfu umfjöllun sem þau eiga skilið. Á meðan við handtökum, skömmum og bönnum mun ungt fólk halda áfram að stráfalla af eigin hendi. Gamlir kallar sem viðhalda núverandi stefnu til að leysa fíkniefnavandann og ulla á frjálslyndara sjónarhorn á meðan þeir drekka bjórinn sinn þurfa að gera sér grein fyrir því að þeir eru að taka þátt í að drepa börnin sín.

Við kjósum að tala ekki úr hófi fram hérna og munum því ekki koma til með að tala um eigin upplifanir af fíkniefnum. Við gerðum nóg af því í textunum okkar einu sinni en höfum þó tekið að fjarlægjast það sem viðfangsefni með tímanum. Í rauninni hugsa ég að platan sem við munum gefa út í ár innihaldi síðustu sneflana af áberandi umfjöllun um fíkniefni. Forvitinn lesandi gæti til dæmis spurt sig hvers vegna það er?

SKE: Í viðtali við ykkur á RÚV, frá  upphafi árs 2017, vitnið þið—hvað innblástur varðar—í höfunda á borð við  Faulkner, Steinbeck og Nabokov. Þegar undirritaður hlustaði á fyrrnefnt  viðtal kom nafn hins síðastnefnda síst á óvart, þá aðallega sökum  bókarinnar Lolita. Bókin, eins og margur veit, var víða bönnuð og gekk fram af fjölmörgum lesendum (það sama mætti kannski segja um texta  ykkar). Hefur Lolita haft mikil áhrif á ykkur?

KV: Stíll og fagurfræði Nabokovs hafa haft tiltölulega mikil áhrif á kef LAVÍK. Ég nefni sérstaklega Pale Fire, Laughter in the Dark og auðvitað Lolita. Lolita er þó frábrugðin tveimur fyrrnefndu bókunum eins og þú kemur að, og hefur sennilega haft talsvert meiri áhrif á okkur, vegna umdeildra efnistaka bókarinnar. Það er ekkert sport að halda sig innan laga og reglna. Ef fegurðin við manneskjuna sjálfa kemur innan frá eins og margir vilja meina þýðir það sömuleiðis að þú munt aldrei meðtaka hana að fullu þegar þú virðir siðferðislega þröskulda. Umræddir þröskuldar eru tæki til að stjórna okkur og hvernig við hugsum óháð því hve sammála eða ósammála við erum því að þeir séu til staðar. Nabokov kæfði ekki hugmyndir vegna þeirrar vonlausu ástæðu að öðrum fannst þær óþægilegar. Við ætlum ekki að gera það heldur.

Önnur skemmtileg leið sem Nabokov hafði áhrif á mig. Nabokov, rétt eins og Tolstoy, tefldi svolítið og hafði mjög gaman af skák. Ég, eins og fan-boi-inn sem ég er, byrjaði að tefla vegna þessa og við höfum stundum haft skákir í gangi á meðan við tökum upp. Ég nýti í rauninni hvert tækifæri sem ég get í að tefla í kring um listsköpun eða á meðan henni stendur. Þetta helst ágætlega í hendur.

SKE: Áhugavert. Mig langar að vitna í annað textabrot:

Ég samdi lag um það að drepa þig  
Og  svo reið ég þér og brosti eftir á /  
Eins og það væri ekkert mál /  
Sagði svo: ,Barnið sem við bjuggum til  
Fer að deyja eftir smá.’ /  
Ég veit að þú er einmana  
Og ég vona að það sé sárt / 

Það er stundum eins og kef LAVÍK sé málpípa þeirrar hliðar undirmeðvitundarinnar þar sem óæskilegar (jafnvel satanískar) og ágengar hugsanir dúkka upp. Í sálfræðinni er sagt að fólk sem upplifir þvíumlíkar hugsanir krónískt hræðist þess að heilaspuninn verði að veruleika. Eruð þið svolítið að gefa skuggahliðum hugans lausan tauminn?

KV: Það er ágætis punktur að einhvers konar hræðsla hamli okkur frá því að tala upphátt um ofstækisfullar hugsanir sem kunna að koma til sögu. Í sama lagi velti ég því fyrir mér hvort að fólk myndi gera ráð fyrir því að stelpan hefði framið sjálfsmorð ef ég myndi henda henni fram af svölunum. Svona hugmyndir sem maður ætti að skammast sín fyrir eða fá samviskubit vegna. Ég veit ekki hvort ég myndi orða það þannig að við gefum þeim lausan tauminn—ég myndi frekar segja að við tökum til greina að þessar hugmyndir eru til og vega tiltölulega þungt í meðvitund einstaklinga.

SKE: Maður ímyndar sér, einhvern veginn, að siðprúðir heldri menn og konur hafi einhvern tímann gert athugasemd við textann, jafnvel við ykkur persónulega? Hefur ykkur tekist að hneyklsa vini og vandamenn?

KV: Við blöndum nógu mikilli hæðni í þetta til þess að það sé auðvelt að afskrifa allt sem manni finnst óþægilegt sem grín. Vinir og vandamenn geta bara valið hvað þeim finnst snerta illa við þeim og ég get síðan sagt þeim að það sé grín. Þegar maður dansar jafn mikið á mörkum gríns og dauðans alvöru og við gerum hættir maður sjálfur að gera sér grein fyrir því hvað maður meinar og hvað ekki.

SKE: Í fyrrnefndu viðtali á RÚV minnist þið einnig á Þórberg Þórðarson. Þórbergur, sem er vissulega mikill stílisti eins og Nabokov er þó kannski ekki eins klúr—þó hann sé vissulega umbúðalaus á köflum. Hver eru áhrif Þórbergs á kef LAVÍK?

KV: Ég var hvað mest að lesa Þórberg í upphafi framhaldsskóla þannig hann smitaðist sennilega mest út í fyrstu plötuna. Svo við tökum augljóst dæmi þá töluðum við mikið um draugana sem voru gerð góð skil í Sálminum um blómið. Ég held raunar að Sálmurinn um blómið hafi átt veigamesta hlutverkið af því sem ég las eftir hann. Sömuleiðis þá átti ég til að skrifa prósa sem ég gerði síðan textana úr (sem ég geri talsvert minna af í dag) og sumt af því á ég enn þá í dag og þegar ég fer yfir það þykir mér tiltölulega auðvelt að sjá að ég var að lesa fullmikið af ÞÞ á þessum tíma. Oftar en ekki eru þetta einhverjar fylliríissögur sem taka stílinn svolítið upp eftir Þórbergi, minnir mig á Íslenzkan aðal. 

SKE: Um daginn ræddi SKE við rapparann Peter Overdrive, sem, líkt og kef LAVÍK, kýs að koma einvörðungu fram undir listamannsnafni sínu—og hefur ekki gefið upp nafn sitt. Í inngangi greinarinnar er einnig skírskotað til annarra listamanna á borð við Elena Ferrante, Banksy og Daft Punk, þar sem sambærilegt fyrirkomulag er við lýði. Felst ákveðið frelsi í nafnleyndinni?

KV: Þess utan að nafnleynd er afar hagkvæm? Okkur þykir ekki eftirsóknarvert að verða „persónuleikar“ sem fólk fylgist með. Þegar við erum ekki að fara upp á svið, eða að koma niður af sviðinu, erum við verkfræðinemi og kokkur. Ég þekki engan verkfræðing, og engan kokk, sem þætti það fýsilegt að fólk kæmi upp að honum þegar hann er að fá sér bjór niður í bæ og færi að spyrja hann persónulegra spurninga. Við erum engin undantekning á því. Það er þó ekki þar með sagt að við setjum bara upp fýlusvip þegar fólk þekkir okkur við hversdagsleg tilefni; við erum alveg til í eitt létt hæ og hrós og jafnvel mynd ef rétt stendur á.

Fílósófískt er þó aðalástæðan auðveldlega orðuð með spurningu: „Skiptir það þig máli hvort við heitum Haffi og Simmi eða Gummi og Hinrik?“ 

SKE: Að lokum: Þið troðið upp á Kex Hostel næstkomandi 19. janúar. Við hverju  mega aðdáendur búast?

KV: Búast má við algjörri veislu. Við ætlum að reyna að finna eitthvað eldra efni sem við höfum ekki verið að spila hingað til, síðan munum við spila eitthvað nýtt efni af komandi plötu og að lokum taka „smellina.“

SKE: Eitthvað að lokum?

KV: Við lofum þeim spenntustu að það kemur nýtt efni eins fljótt og auðið er! Við stefnum á að gefa út fyrir sumar. Í fyrsta lagi í apríl. Það mun afar líklega koma eitthvað sýnishorn áður. Þar að auki er tilkynning um annað live sett væntanleg á næstu dögum.

(SKE þakkar kef LAVÍK kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að tryggja sér miða á tónleika tvíeykisins á Kex Hostel næstkomandi 19. janúar.)

Miðar: https://www.facebook.com/event…

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram