today-is-a-good-day

Allt sem við vitum um God of War: Ragnarök

Stríðsguðinn Kratos lenti heldur betur með látum í júní 2018 þegar God of War endurræsingin kom út. Leikurinn fékk lof gagnrýnenda og spilenda og vann svo gott sem öll verðlaun sem hægt var að vinna.

Nú eru ekki nema fáeinar vikur í að Ragnarök komi út – einn eftirvæntasti leikur ársins. Hvað vitum við um leikinn – og hvað höldum við að muni gerast?

Sagan hingað til

Gríski guðinn Kratos skildi heimaland sitt eftir í rústum og flutti norður á bóginn. Þar stofnaði hann nýtt líf, kvæntist Laufey og eignaðist soninn Atreus. Þegar Laufey fellur frá fara feðgarnir í leiðangur að dreifa ösku hennar frá hæsta tindi heimanna níu.

Það reynist talsvert hægara en gert. Þeir eru ítrekað stoppaðir af Baldri, stórlax úr norrænni goðafræði, sem á ýmislegt ósagt við þann gríska.

Á flakki sínu um heimana tvenna kynnast þeir mörgum öðrum kanónum sem við lærðum um í fimmta bekk, Miðgarðsorminn, Freyju, Þór og Óðinn og mörg fleiri. Kratos og Atreus þurfa að vinna saman til að komast óhultir í gegnum svaðilförina, sem er ekki svo einfalt. Kratos er með tilfinningaleganæmd á við hurðarhún og Atreus er að ganga í gegnum erfiðasta kafla lífs síns, táningsárin.

Feðgarnir fara í nýtt ævintýri /Mynd: Santa Monica Studios

Ragnarök – hvað vitum við

Hann kemur á Playstation 4 og 5 þann 9. nóvember. Þessi leikur verður síðasti leikurinn með norrænu þema í God of War seríunni.

Stærðin á leiknum í PS4 verður heil 118 gígabæt. Hann verður ekki eins stór á PS5, þar sem geta þeirrar tölvu er allt önnur. Til samanburðar var fyrri leikur ekki nema 45 gígabæt.

Þrjú ár eru liðin frá atburðum fyrri leiksins. Fimbulvetur, undanfari Ragnaraka, hefur ríkt allan þann tíma. Nístingskuldi, óveður og almenn óánægja hefur þakið heiminn, svipað og hefðbundinn íslenskur vetur. Umhverfið verður því nokkuð frábrugðið því sem við þekktum í 2018 leiknum.

Talandi um umhverfi, við fengum að heimsækja einungis sex af níu heimum norrænnar goðafræði síðast. Nú fáum við miða til allra níu heimanna! Ásgarður, Svartálfaheimur og Vanaheimur voru lokaðir okkur en verða það ei lengur. Áhugavert verður að sjá hvernig þessir nýju heimar líta út, en einnig hvaða nýjungar má finna í gömlu heimunum.

Við fáum pottþétt að sjá fleiri Valkyrjur. Hrist og Mist hafa verið nefndar en það er spurning hvort formið á þeim verður svipað og í fyrri leik eða hvort formúlunni verður eitthvað breytt.

Í þessum trailer sést stuttlega í eina Valkyrju

Atreus er nú kominn seint á táningsaldurinn og því með aðeins dýpri rödd. Einnig verður hann talsvert grimmari bogfimikappi – hann sést skjóta boga sínum beinustu leið á sólmyrkva, með tvo kunnuglega úlfa sér við hlið.

Það fjölgar aðeins í liði góðu-kallanna, en við fáum loksins að hitta Tý. Sá var algjörlega óséður en mjög mikilvægur hluti af fyrri leik.

Vondu köllunum fjölgar einnig. Þrumuguðinn Þór mætir með hamarinn á lofti, nýbúinn að missa tvo syni sína og sennilega bálreiður. Alfaðirinn Óðinn verður einnig á sviðinu.

Freyja, sem var ákveðin stuðningskona feðganna í … tja … meirihluta síðasta leiks, er sennilea búin að skipta um lið líka, þar sem hún er í hefnigjörnu stuði eftir að Kratos drap Baldur, son hennar. Við munum allavega berjast við hana, það er á tandurhreinu.

mynd úr god of war
Kratos og Freyja takast á

Óvinirnir verða fjölbreyttari og grimmari að sögn framleiðenda. Þetta á bæði við um hefðbundið axarfæði sem sést úti á víðavangi og við endakallana sem eru svo sannarlega eftirminnilegir í God of War seríunni.

Talandi um endakalla …

Þá sáum við einmitt engan annan en Fenrisúlfinn í einum af trailerum leiksins. Sá stóri virtist á stærð við Hallgrímskirkju og reiðubúinn að kjamsa á grískum guði. Hvort þetta verði stærsti óvinur leiksins er óvíst.

Það sem við erum ekki alveg viss með

Kratos var tvívopnaður í síðasta leik. Leviathan öxin sá um helminginn af óvinunum á meðan Glundroðasverðin sáu um rest. Tölvuleikjaspjallið spyr sig hvort fleiri vopn bætast á breitt bak okkar manns?

mynd úr god of war
Ókindir og óvættir verða fjölbreyttari og grimmari

Það er staðfest að við munum berjast við Þór … sem þýðir að við munum að öllum líkindum sigra hann. Fáum við Mjölni í kaupbæti?

Þau eru fleiri goðsagnakenndu vopnin úr goðafræðinni sem væri áhugavert að beita. Óðinn á til dæmis spjót, Gungni. Ætli því bregði fyrir?

Einnig eru stórir óvinir sem eru búnir að bíða eftir því að verða barðir í kássu af hinum hvíta og rauða. Surtur frá Múspellsheimi, blóðhundurinn Garmr úr Helheimi og fleiri óvæittir myndu slá í gegn á skjám spilenda.

Við vitum allavega að við erum spennt

God of War sló rækilega í gegn þegar hann kom út árið 2018 – réttilega svo. Bæði saga og spilin voru framúrskarandi. Það verður erfitt fyrir Santa Monica Studios að bæta sig með Ragnarök. Eitthvað segir okkur að við þurfum ekki að hafa miklar áhyggjur.

Serían hefur alltaf leikið sér mikið með upprunalegt efni, eins og grísku goðsagnirnar í fyrri leikjunum. Þau ykkar sem muna vott af íslenskukennslu í grunnskóla ættu að þekkja margar sögur og persónur sem við höfum séð nú þegar og munum sjá í Ragnarök. Ef þið viljið almennilega spilla fyrir ykkur leiknum skuluð þið rífa upp Snorra Eddu og byrja að lesa.

Þau hin ykkar sem ætla að bíða, sjáumst 9. nóvember!

Auglýsing

læk

Instagram