Smáhundurinn var í frystinum í Bátavogi: Sakaði sambýlismann sinn um að hafa eitrað fyrir tíkinni á meðan líf hans fjaraði út

Konan sem situr í gæsluvarðhaldi, grunuð um að hafa orðið sambýlismanni sínum að bana í íbúð við fjölbýlishús í Bátavogi, hélt því fram sama kvöld og hún var handtekinn að sá látni hafi eitrað fyrir Chihuahua-tík hennar. Samkvæmt heimildum Nútímans er talið að smáhundurinn hafi drepist einum til tveimur sólarhringum áður en konan er talin hafa myrt manninn sem var á sextugsaldri. Hann fannst látinn í íbúðinni að kvöldi laugardagsins 21. september.

„Hún talaði bara um þennan hund sem hún sýndi okkur í frystinum“

Þá er konan, sem er fædd árið 1981, sögð hafa haldið því fram að sambýlismaður sinn hafi blandað einhvers konar eitri í drykkjarskál smáhundsins og þannig drepið hann. Þá er hún einnig sögð hafa sýnt vinum og kunningjum hræið á sama tíma og hún aus svívirðingum yfir manninn, sem á þeim tímapunkti hafði verið fluttur á sjúkrahús og úrskurðaður látinn. Hræið geymdi konan í frystihólfi í ísskáp í íbúðinni að Bátavogi.

Hætti ekki að tala um meint dráp á smáhundinum á sama tíma og líf mannsins fjaraði út

„Hún sagðist handviss um það að maðurinn hefði drepið þessa tík og var í raun í miklu uppnámi vegna þess. Hún var ekkert að kippa sér upp við það að sambýlismaðurinn hennar hafði skömmu áður látið lífið. Hún talaði bara um þennan hund sem hún sýndi okkur í frystinum,“ segir einn af heimildarmönnum Nútímans sem var nýkominn í heimsókn til konunnar hið örlagaríka laugardagskvöld í september.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og einn af þeim sem kemur að rannsókn málsins, staðfestir í samtali við Nútímann að örlög smáhundsins séu á meðal þess sem nú er rannsakað. Lögreglan hefur í rannsókn sinni einnig rætt við á þriðja tug manns.

Ásakanir um hundsdrápið komu fram í skýrslutökum

Samkvæmt heimildum Nútímans eru ásakanir konunnar á meðal þess sem hefur komið upp í skýrslutökum yfir þeim sem höfðu ýmist verið gestkomandi í íbúðinni fyrir morðið eða komið stuttu eftir að sjúkraflutningamenn fluttu manninn á bráðamóttöku Landspítalans þar sem hann var úrskurðaður látinn. 

Ekki fást gefnar upplýsingar um það hjá lögreglunni hvort hún rannsaki dauða smáhundsins sem mögulega kveikju eða hluta af einhverskonar aðdraganda manndrápsins.

Afskræmd kynfæri og áverkar á hálsi

Áverkar á líki mannsins voru einstaklega hrottalegir eftir því sem Nútíminn kemst næst en búið var meðal annars að afskræma hluta af kynfærum hans. Áverkar sem sérfræðingar lögreglunnar hafa aldrei áður séð í manndrápsmáli hér á landi.

 Hin grunaða og hinn látni höfðu bæði verið dæmd til refsingar vegna ýmissa brota en flest þeirra hafi verið tengd fíkniefnum, vörslu þeirra og akstri undir áhrifum. Konan var dæmd í áframhaldandi gæsluvarðhald í lok síðasta mánaðar. Samkvæmt úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur rennur gæsluvarðhaldið út þann 21. nóvember.