Uppselt í Bláa lónið í dag í skugga jarðhræringa

Bláa lónið

Von er á mörg hundruð gestum í Bláa lónið í dag en samkvæmt heimildum Nútímans er bókstaflega uppselt. Það þykir ótrúlegt miðað við þær gríðarlegu jarðhræringar sem eru á svæðinu og hættu á yfirvofandi gosi í bakgarði lónsins. Þá virðast stjórnendur þessa vinsælasta ferðamannastaðar landsins ekki á því að loka því vegna mögulegs eldgoss norðvestur af fjallinu Þorbirni sem gnæfir yfir baðstaðinn bláa.

Þetta þykir í raun ótrúlegt þar sem mælingar á svæðinu gefa til kynna gríðarlegt landris og er raunhæfur möguleiki að kvika fari að rísa til yfirborðs en slík atburðarrás gæti haft hörmulegar afleiðingar í för með sér á jafn fjölmennum stað og Bláa lónið er. Þannig greindi Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjalla- og bergfræði við Háskóla Íslands, frá því í samtali við Morgunblaðið að möguleiki væri á kvikustrókum á svæðinu sem gætu framleitt hraun sem ferðast jafnvel upp undir 20 kílómetra á klukkustund.

Þá sagði Þorvaldur enn fremur að ef sú sviðsmynd kæmi upp að hraun færi að flæða á þessum hraða frá umræddu svæði, sem heitir Illahraunsgígar, gæti hraunbreiðan náð baðstað Bláa lónsins á þremur mínútum.

Nútíminn hafði samband við Bláa lónið en samkvæmt starfsmanni þess er von á öðrum eins fjölda á morgun. Þá hefur Nútíminn einnig haft samband við Almannavarnir og spurt um mögulega lokun lónsins vegna hættu á eldgosi í nágrenni þess en beðið er eftir svari.

- Auglýsing -