Kynlíf í morgunsárið er málið

[the_ad_group id="3076"]

Gott er að byrja daginn á einhverju sem veitir manni vellíðan, ekki satt? Kynlíf í morgunsárið getur heldur betur komið manni í rétta stuðið fyrir daginn. Ég veit það alla vega að ritstjórinn minn segir oftar en ekki: „Nei, mikið ertu eitthvað kát í dag, Vera mín, þú ljómar alveg.“ Úbbs, þarna kom ég upp um mig … En það er satt að maður verður allur kátari og léttari við að byrja daginn á einhverju sem kemur manni í gott skap. Kynlíf bætir, hressir og kætir; sérstaklega á morgnana þar sem við förum glaðbeitt og hress inn í daginn eftir að hafa hafið hann á dálítilli heimaleikfimi. Kynlíf í morgunsárið ætti því að gera mann glaðari, rólegri og guð má vita hvað. Förum yfir nokkur jákvæð atriði við það að stunda kynlíf áður en haldið er út í daginn. 

„Kynlíf bætir, hressir og kætir; sérstaklega á morgnana þar sem við förum glaðbeitt og hress inn í daginn eftir að hafa hafið hann á dálítilli heimaleikfimi.“

Þú ert meira í núinu

Það segir sig nú líklega sjálft að þegar maður er þreyttur og jafnvel aðeins á tauginni eftir langan og strangan dag þá er ekki mikil orka eftir í kynlífið. Þess vegna eru það nú engin geimvísindi að maður er betur upplagður að morgni, vel sofinn og úthvíldur, og þess vegna án efa meira til staðar en þegar maður er enn að ná sér niður eftir daginn. Þegar maður er meira í núinu er auðveldara að njóta.

[the_ad_group id="3077"]

Hvað er í gangi?

Samstarfsmenn þínir munu ekki vita hvaðan á þá stendur veðrið. Við fullnægingu losnar um dópamín, boðefnið sem getur hjálpað þér við að koma meiru í framkvæmd og taka betri ákvarðanir. Það má því gera ráð fyrir að það þurfi ekki að minna þig á að gera hitt og þetta í vinnunni, þú ert alveg með það allt „under control“ og ekki orð um það meir.

Húðin mun ljóma

Við fullnægingu streymir blóðir um allan líkama, þar á meðal andlitið. Þú verður því ferskari en allt sem ferskt er eftir dálítið hopp og hí í svefnherberginu og ljómar eins og sólin með roða í kinnum.

Hver þarf ræktina svo sem?

Manstu þegar þú píndir þig til að fara fram úr fyrir allar aldir til að puða á sveittu æfingatæki? Það að kúra hjá elskunni þinni, koma púlsinum af stað og fá þér gott í kroppinn undir hlýrri sænginni hljómar miklu betur, er það ekki? Sérfræðingar vilja meina að kynlíf hafi marga sömu kosti og ræktin þannig að það er alveg eins hægt að taka skemmtilegan sprett í rúminu eins og að hlaupa á brettinu.

Burt með hausverkinn!

Kynlífsþjálfinn Lisa Rogers segir að fullnæging geti hjálpað til við að minnka verki þannig að leiðindi á borð við hausverk, vöðvabólgu og verki í mjóbaki ættu að geta heyrt sögunni til þann daginn og það án þess að þú þurfir að bryðja verkjatöflur.

Inn með ástina

„Inn með ástina,“ söng Páll Óskar Hjálmtýsson um árið og það að byrja daginn á kynlífi getur verið fínasta innspýting ástarinnar. Að stunda kynlíf losar um hormónið oxýtósín, „knús-hormónið“ eins og sumir kalla það. Oxýtósín fær þig til að finnast þú tengdari maka þínum og elskaðri. Sú ljúfa tilfinning mun fylgja þér út daginn, alla vega góðan part úr deginum.

Greddan meiri áður en sólin kemur upp

Það segja sérfræðingarnir í það minnsta. Að sögn kynlífsmarkþjálfans Lisu Roger er magn testósteróns mest á morgnana og þar sem hormónið eykur líka þrá og kynhvöt ætti að grípa tækifærið og notfæra sér til það hins ýtrasta. Svo sannarlega er gaman að byggja upp spennuna yfir daginn og vinna sig upp í hápunktinn en það getur líka stundum einfaldlega verið best að byrja daginn á hápunktinum.

Ekkert vesen með nætursvefninn

Það að stunda kynlíf á morgnana mun ekki hafa áhrif á svefninn þinn um kvöldið. Það er frekar þannig að kynlíf á kvöldin hafi áhrif á nætursvefninn. Þ.e.a.s. ef þú ferð að sofa allt of seint af því að þú stundaðir kynlíf langt fram eftir kvöldi eða nóttu verður geðvonskan einfaldlega meiri næsta dag og getur þar að auki haft áhrif á kynhvötina þegar til lengri tíma er litið. Hvað er gaman við að fá fullnægingu ef maður er uppgefinn öllum stundum?

Allir eru að gera´ða

Ókei, kannski ekki allir en fleiri en þú heldur. Ég sé til dæmis að samstarfskona mín situr á næsta borði, svona líka ljómandi, rjóð í kinnum og brosandi. Hún er ekki einu sinni búin að fá sér fyrsta kaffibollann. Hvað ætli valdi þessum hressleika? … Tjah, maður spyr sig!

 

Texti: Vera Sófusdóttir

Auglýsing

læk

Instagram