‘Svæpið’ sem fór í sögubækurnar

smásaga eftir Helgu Guðmunds

 


Það var í byrjun sumars sem Elva ákvað að skrá sig í fyrsta skipti á stefnimótaforrit og varð Tinder fyrir valinu. Hún hafði fyrr á árinu slitið sambandi sínu við æskuástina, Dóra.

Elva og Dóri höfðu verið saman í sex ár sem er kannski ekki langur tími nema þegar maður er tuttugu og þriggja eins og hún, en Dóri árinu eldri. Nú fannst henni tími kominn á að skoða markaðinn og með hjálp Þóreyjar vinkonu sinnar ætlaði hún að gera sig sæta, taka myndir og setja upp prófíl áður en haldið yrði út á lífið.

Ekki leið á löngu þar til síminn fór að pípa. Djöfulsins trúðasýning hugsaði hún á meðan hún ýtti ýmist til hægri eða vinstri. Þetta var eins og að lesa matseðil. Hún var við það að leggja frá sér símann og fara út á dansgólf þegar hún staðnæmist við prófíl hjá strák sem hún kannaðist við. Þórey, sjáðu þennan! Þessi var með mér í frönsku í MK. Þórey tók af henni símann og smellti á super like og stakk honum því næst í töskuna sína, greip í hönd Elvu og sagði komdu, förum að dansa! Þær dönsuðu við nokkur lög áður en Elva bað um símann sinn aftur, klukkan var að ganga þrjú og báðar höfðu þær unnið langa vakt og áttu kvöldvakt komandi kvöld. Þetta átti því að vera djamm í styttri kantinum. Við mötsuðum Þórey! og hann er búinn að senda mér skilaboð hrópaði hún um leið og þær gengu út af skemmtistaðnum. Lestu! Hrópaði Þórey skræk. „Hæ Elva, gaman að rekast á þig! Komin mörg ár síðan ég sá þig“.

Elva fann að hjartað tók kipp, hverju á ég að svara, hvað á ég að segja Þórey?!? Hún ákvað að svara honum þegar heim væri komið og þær kvöddust í leigubílaröðinni. A leiðinni heim las hún skilaboðin aftur og aftur og skoðaði af honum myndirnar. Hann hefur lítið breyst hugsaði hún og í því stöðvar leigubíllinn. Það gera fjögurþúsund og tvöhundruð krónur segir bílstjórinn. Já svarar hún og gramsar eftir veskinu sínu á meðan hún hugsar djöfulsins verð, spurning um að fá sér strætókort…

Elva borgaði, kvaddi bílstjórann og gekk inn. Um leið og hún stakk lyklinum í skrána pípari síminn. Hún flýtti sér að opna og sparkaði af sér hælaskónum á meðan hún hljóp inn í stofu. Þar reif hún upp símann og opnaði skilaboðin. Þú ert líklega sofnuð og ég ætti að vera það líka, hafði hann skrifaði. Hún flýtti sér að svara. Áður en hún vissi voru þau búin að skrifast á í rúma klukkustund. Þau ákváðu að stoppa þar og færa spjallið yfir á messenger næsta dag, sem var að renna upp. Á þessari klukkustund ræddu Þau um allt milli himins og jarðar. Birgir bjó í vesturbæ Kópavogs og var búinn að ljúka meistaragráðu í lögfræði og stefndi á málflutningsréttindi. Hann hafði tekið sér frí eftir stúdentspróf og unnið ýmis störf í tvö ár áður en hann fór í háskóla, meðal annars við síldarveiði ásamt bróður sínum. Eins og hún var hann barnlaus, en hann var ári eldri. Þau reyndust eiga eitt og annað sameiginlegt eins og skíðaáhuga, lestur glæpasagna og líkamsrækt. Hvað pólitík varðar voru þau á öndverðu meiði en hey hugsaði hún, það gæti verið verra. Áður en hún lagðist á koddann kíkti hún á facebook síðuna hans. Þrír sameiginlegir vinir, flest annað læst.

Hún íhugaði að senda honum vinabeiðni en ákvað að geyma það. Hún lokaði augunum og sofnaði um leið. Vekjaraklukkan hringdi kl.11. Elva fálmaði eftir símanum á náttborðinu með augun hálf lokuð. Þegar hún hafði slökkt á vekjaranum fór hún framúr og gekk inn í eldhús þar sem hún hellti sér upp á kaffi. Hún ákvað að fara í sturtu á meðan kannan var að hella uppá og sendi Birgi stutta kveðju á messenger „hæ, svafstu vel“? Því næst fór hún undir heita sturtuna og lét kraftmikla bununa dynja á sér þar til kaffikannan pípti og lét vita að kaffið væri tilbúið. Hún vafði handklæði um hárið, þurrkaði sér létt og fór í dúnmjúkann baðslopp sem hún hafði fengið í jólagjöf. Ilmurinn af kólumbíska kaffinu fyllti alla íbúðina. Hún hellti sér í bolla og greip símann. Hann var búinn að svara! Hún leit á klukkuna, hún var að nálgast hálf tólf. „Góðan daginn ungfrú, ég svaf eins og grjót en þú“.

Það læddist bros á andlit hennar og hún byrjaði að skrifa. Eftir þrjá kaffibolla til viðbótar voru þau búin að mæla sér mót á kaffihúsi í bænum klukkan fjögur en það varð að vera stutt þar sem hún átti kvöldvakt á sambýlinu sem átti að hefjast klukkan sex. Hún hringdi í Þóreyju og sagði henni frá samskiptum sínum við Birgi og bað hana að kíkja yfir til sín eins fljótt og hún gæti því hún þyrfti hjálp við að velja sér föt fyrir stefnumótið. Þar var Þórey á heimavelli og treysti Elva mun betur á dómgreind hennar en sína eigin. Á meðan hún beið blés hún á sér hárið svo liðuðu lokkarnar yrðu viðráðanlegri það sem eftir lifði dags

Þórey var komin rétt fyrir tólf. Þekkjandi nývaknaða kaffiþambandi æskuvinkonu sína kom hún með rúnstykki og heimagert salat. Elva sem hafði ekki farið á stefnumót síðan hún kynntist Dóra æskuástinni sinni, var orðin stressuð fyrir stefnumótinu með Birgi. Þórey, ég kann þetta ekki sagði hún með munnin fullan af mat. Viltu að ég komi með spurði Þórey stríðin og skellti í sig síðasta bitanum. Komdu sagði hún og saman fóru þær inn í herbergi og tóku sér stöðu fyrir framan fataskápinn. Þær völdu í sameiningu hverja flíkina á fætur annari. Kjólar, skyrtur, buxur og pils flugu jafnóðum á rúmið og svo hófst mátun. Þórey var ekki bara sérfræðingur í að raða saman flíkum, hún var líka mjög hreinskilin. Það tók því dágóðan tíma að finna rétta útlitið og að lokum sættist Elva á fatasamsetningu sem henni aldrei dottið sjálfri í hug. Þar sem hún stóð og snéri sér í hringi fyrir framan háan antikspegil á gólfinu, pípti síminn. Hún hrökk við og spurði Þóreyju hvort hún héldi nokkuð að hann væri hættur við. Þær hlógu báðar og kíktu saman á skilaboðin. Ég hlakka til að sjá þig á eftir stóð í skilaboðunum og aftur hlógu þær að vitleysunni í sjálfum sér. Elva kláraði að hafa sig til á meðan Þórey fór í gegnum óskrifaðar reglur stefnumótalífsins og hvernig bregðast ætti við óþægilegum þögnum. Til viðbótar lét hún sögur af eigin misheppnuðum stefnumótun flakka, sumar þeirra hafði Elva oft heyrt en hafði alltaf jafn gaman að þeim.

Tíminn flaug áfram og áður en þær vissu af þurfti Elva að leggja af stað. Hún bjó í Grafarvoginum svo hún ákvað að gefa sér góðan tíma og vera jafnvel mætt aðeins fyrr. Á leið sinni út tók Þórey af henni loforð, hún vildi fá að vita allt áður en Elva færi í vinnuna. Ég lofa sagði Elva um leið og hún settist inn í bíl. Hún var mætt á kaffihúsið tíu mínútur í fjögur og fékk sér sæti aftarlega í salnum við glugga. Þar sem hún sat og horfði á mannlífið tók hún ekki eftir þegar Birgir gekk inn. Hún var alveg horfin í eigin heim svo dagdreymin var hún og hrökk við þegar hún heyrði karlmannsrödd heilsa sér með nafni. Henni brá það mikið að hún rak sig í vatnsglas sem var á borðinu með þeim afleiðingum að það helltist um allt. Afsakandi og rauð í framan yfir eigin vandræðagangi stóð hún upp og heilsaði Birgi sem virtist hafa mjög gaman að uppákomunni. Hæ sagði hann og tók utan um hana. Hann smellti léttum kossi á hægri kinn hennar og þau gengu svo saman að afgreiðslunni til að panta sér mat og borgaði hann fyrir þau bæði. Áður en þau snéru til baka til borðs fór hún inn á bað til að ná sér í pappír til þess að þrífa upp vatnið sem hellst hafði yfir allt borðið. Á miðri leið leit hún við og virti Birgi fyrir sér þar sem hann gekk að borðinu. Hann var sætur í MK í gamla daga en núna var hann enn heitari. Flott klæddur líka.

Deitið gekk bæði vel og áfallalaust fyrir sig. Hún bölvaði því reglulega í hljóði að þurfa mæta í vinnu því þau hefðu getað setið og spjallað í marga tíma í viðbót. Þegar kominn var tími á að enda stefnumótið spurði Birgir hvort hann mætti fylgja henni að bílnum. Saman gengu þau út í sólina og Elva fékk fiðrildi í magann. Þegar þau komu að bílnum föðmuðust þau, og núna mun lengur en áðan. Lítill koss á kinn varð að stærri koss og þá fann hún eitthvað. Bíddu nú við hugsaði hún, er þetta banani eða er hann svona rosalega ánægður að sjá mig?

Auglýsing

læk

Instagram