Spreyjað var á fram- og suðurhlið Akureyrarkirkju með svörtum úðabrúsa í nótt. Skemmdarverkið hefur verið tilkynnt til lögreglu.
Útför fer fram frá kirkjunni í dag en ekki er víst að náist að fjarlægja skemmdarverkin í tæka tíð áður en hún hefst.
Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur, staðfestir þetta í samtali við Nútímann en hann birtir myndir af skemmdarverkunum á Facebook-síðu sinni í morgun.
Hann segist hafa fengið óljósar fregnir af því að fleiri hús á Akureyri hafi fengið sömu útreið í nótt.
Úðabrúsi fannst við kirkjuna í morgun. Búið er að hafa samband við lögreglu og tryggingafélag vegna málsins.
Uppfært kl. 9.20:
Sambærileg skemmdarverk voru unnin á Kaþólsku kirkjunni á Akureyri í nótt.