Stuðningsáætlun skóla gerir ráð fyrir leynd gagnvart foreldrum um kyntjáningu barna

Grunnskólar í Reykjavík nota nú formlegt verklag og eyðublöð í tengslum við stuðning við trans nemendur og nemendur með ódæmigerða kyntjáningu.

Í þeim skjölum kemur fram að ef barn óskar eftir trúnaði, jafnvel gagnvart forsjáraðilum, beri skólanum að virða það og tryggja að trúnaður við nemandann sé haldinn.

Auglýsing

Verklagið var sett á árið 2021 og samkvæmt heimildum Nútímans er það enn í gildi.

Mikilvægum upplýsingum hugsanlega haldið frá foreldrum

Skjölin fela í sér margvíslegar spurningar og leiðbeiningar um það hvernig skólinn getur tekið tillit til kynvitundar og kyntjáningar barnsins í skólastarfinu, en þar kemur einnig fram að nemandi geti óskað eftir að kynvitund hans verði haldið leyndri fyrir foreldrum.

Í einni af spurningunum á eyðublaðinu er beinlínis spurt:
„Ef nemandinn hefur óskað eftir því að þessi mál verði trúnaðarmál, hvernig verður það tryggt og hvað verður gert ef verður trúnaðarbrestur?“

Þá eru einnig liðir sem kanna hvort forsjáraðilar séu meðvitaðir um kyntjáningu barnsins, hve mikinn stuðning þeir sýni og hvaða ráðstafanir eigi að gera ef þeir eru ekki upplýstir eða styðji ekki nemandann.

Í skjölunum segir jafnframt skýrt:
„Í stuðningsáætluninni kemur skýrt fram að ef nemandi óskar þess að kynvitund hans eða kyntjáning sé trúnaðarmál gagnvart foreldrum, þá á að virða það og tryggja trúnað. (spurning 13)“

Að auki er í eyðublaðinu tekið fram að nemandinn geti óskað eftir því að valnafn og fornafn séu notuð í skólaumhverfinu, jafnvel þótt því hafi ekki verið breytt í opinberum skrám eins og Þjóðskrá eða Mentor, og jafnvel þótt forsjáraðilar séu ekki upplýstir eða hafi ekki veitt samþykki.

Skjöl þessi eru hluti af svokallaðri stuðningsáætlun sem Reykjavíkurborg hefur tekið upp og byggir meðal annars á erlendum fyrirmyndum frá samtökunum Gender Spectrum og Welcoming Schools.

Í þeim segir að kyn sé einstakt, geti þróast með tímanum og að einstaklingum skuli leyfast að skilgreina og tjá sig eftir sínu höfði.

Viðurkenna sjálfræði barnsins – innan lögbundins foreldraforræðis

Stuðningsáætlunin vekur upp spurningar um hvernig eigi að samræma rétt barns til einkalífs og sjálfstæðrar tjáningar við lagalegt forræði og ábyrgð foreldra.

Í skjölunum kemur fram að vinnsla persónuupplýsinga fari fram með samþykki bæði barns og forsjáraðila, en jafnframt er gert ráð fyrir að ákveðnar upplýsingar geti verið trúnaðarmál sem ekki sé deilt með foreldrum nema barn og starfsfólk ákveði það sérstaklega.

Lögð er áhersla á virðingu, velferð og vellíðan nemandans

Í upphafi stuðningsáætlunarinnar er vísað til laga um grunnskóla og þess að skólastarf skuli mótast af virðingu, umburðarlyndi og kærleika.

Þá sé markmiðið að gera skólagöngu nemandans ánægjulegri og styðja við kyn hans eins og hann sjálfur skilgreinir það.

Þó svo að foreldrar hafi almennt rétt til samþykkis vegna persónuupplýsinga þegar um ólögráða börn er að ræða, viðurkennir skólinn rétt nemandans til að óska eftir trúnaði um kyntjáningu sína.

Þá er lögð áhersla á að stuðningur taki mið af þörfum og upplifun nemandans.

Foreldrar hafi enga leið til að vita hvort slíkum upplýsingum sé haldið frá þeim

Vilji foreldrar ekki samþykkja þátttöku í þessari áætlun eða neiti að undirrita eyðublað um samþykki fyrir vinnslu persónuupplýsinga, getur það haft áhrif á framkvæmd hennar en nemandinn getur engu að síður óskað eftir að nafn hans, fornafn og önnur tjáning kyns verði meðhöndluð í samræmi við hans óskir innan skólans.

Óljós ákvæði um aldur og þroska

Í skjölunum kemur ekki skýrt fram að aldur nemandans hafi úrslitaáhrif á það hvort kyntjáning hans eða kynvitund megi haldast leynd gagnvart foreldrum.

Það er þó óbeint viðurkennt að aldur og þroski geti haft áhrif á framkvæmd stuðningsáætlunarinnar.

Sér í lagi segir:
„Sumir þættir áætlunarinnar eiga meira við um börn á eldri stigum grunnskóla heldur en yngri og er það matsatriði hverju sinni.“
og
„Nemendur eru misfærir um að koma að gerð áætlunarinnar, en mikilvægt er að taka ætíð mið af óskum og upplifun nemandans við gerð þessarar stuðningsáætlunar.“

Þetta bendir til þess að ákvörðun um trúnað gagnvart foreldrum sé ekki formlega bundin við aldur, heldur þroska og óskir barnsins eins og þær eru metnar af starfsfólki skólans.

Engin aldurstala er nefnd í tengslum við trúnað eða sjálfsákvörðunarrétt nemandans nema í tengslum við breytingar á kyni og nafni í Þjóðskrá, þar sem tekið er fram að slíkt sé heimilt frá 15 ára aldri án samþykkis forsjáraðila.

Nútíminn hefur sent Velferðarsviði Reykjavíkurborgar fyrirspurn um málið og spurði hvort skólar sveitarfélagsins telji sig hafa rétt til að halda svo mikilvægum upplýsingum leyndum fyrir foreldrum og hvort skólinn myndi ljúga að foreldrum um málefnið ef þeir skyldu spyrjast fyrir um málið, en eftir rúmlega viku bið hefur ekkert svar borist.

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing