Elin neitaði að fá sér sæti í flugvél og kom í veg fyrir að afganskur maður yrði rekinn úr landi

Sænski háskólaneminn og aktívistinn Elin Errson reyndi að koma í veg fyrir að afgönskum manni yrði vísað nauðugum úr landi á flugvellinum í Gautaborg í Svíþjóð á mánudag. Hún streymdi beint frá aðgerðinni á Facebook sem vakti heimsathygli en hún var hyllt sem hetja af netverjum fyrir að koma í veg fyrir að maðurinn yrði fluttur til Afganistan þar sem hans biði aðeins dauði.

Elin hefur áður reynt að koma í veg fyrir að flóttmenn séu sendir úr landi en þetta er í fyrsta sinn sem hún kemst svo langt í ferlinu. Elin og aðrir aktívistar heyrðu að það ætti að vísað ungum afgönskum manni úr landi og lögðu í púkk fyrir flugmiða.

Það kom svo í ljós þegar Elin var komin í flugvélina að ungi maðurinn var ekki um borð. Þar var hins vegar annar afganskur maður á sextugsaldri sem átti að vísa úr landi. Elin segist hafa talað við hann í stutta stund áður en öryggisverðir sem fylgdu honum ýttu henni í burtu.

Hún hafi þá tekið upp símann og byrjað að streyma því sem var að gerast. Í samtali við The Guardian segist hún hafa gert það af ótta við að eitthvað myndi koma fyrir hana en einnig vegna þess að hún vildi sýna öðru fólki hvað væri í gangi.

Í útsendingunni, sem varði í um það bil stundarfjórðung, sagðist hún ekki ætla að setjast niður fyrr en manninum yrði vísað frá borði því verið væri að senda hann til Afganistan en taldi hún víst að verið væri að senda manninn út í opinn dauðann.

Þrátt fyrir mikil mótmæli bæði áhafnar vélarinnar og farþega stóð hún föst á sínu og neitaði að setjast. Á einum tímapunkti heyrist maður með enskan hreim segja henni að setjast niður og rífa síðan af henni símann. Elin fékk símann þó aftur eftir skamma stund.

Það voru líka farþegar í vélinni sem studdu gjörðir hennar, meðal annars tyrknesk fjölskylda sem sat nokkrum sætaröðum frá henni og hrósaði henni fyrir að gera það rétta í stöðunni. Hún segist að mestu leyti hafa fundið fyrir stuðningi frá öðrum farþegum vélarinnar.

Á einum tímapunkti í myndbandinu heyrist þegar aðrir farþegar klappa fyrir henni þegar ljóst þykir að gjörningur hennar hafi náð árangri og manninum verði vísað frá borði. Elin sést tárast yfir stuðning annara farþega.

Myndbandið hefur ratað í fjölmiðla víða um heim og vakið mikla athygli en tæplega 3 milljónir manna hafa skoðað það á Facebook. Elin tekur það skýrt fram í myndbandinu að hún sé með aðgerðinni að reyna að hafa áhrif á það að harðri innflytjendalöggjöf í Svíþjóð verði breytt.

Netverjar eru ánægðir með Elinu og segja hana vera hetju

Hér má sjá myndbandið sem hún setti á Facebook þegar hún var um borð í vélinni

Sagan endar þó ekki þarna en Elin sagði í samtali við The Guardian að líklega hafi ungi strákurinn, sem hún ætlaði upphaflega að koma í veg fyrir að yrði fluttur úr landi, verið sendur til Stokkhólms og þaðan úr landi í öðru flugi.

Auglýsing

læk

Instagram