Hilmir Snær sló óvart í gegn hjá kvenþjóðinni á Tinder: „Þetta sprakk soldið í andlitið á okkur“

Persóna Hilmis Snæs Guðnasonar í kvikmyndinni Fyrir framan annað fólk var skráð á Tinder í vikunni til að kynna myndina. Svo virtist sem Hilmir sjálfur væri mættur í stefnumótaforritið en mynd var notuð af honum og nafn persónunnar Friðriks birtist með myndinni.

Óskar Jónasson, leikstjóri myndarinnar, sagði í Vikunni með Gísla Marteini á RÚV í kvöld að Hilmir hafi strax orðið rosalega eftirsóttur. „Þetta sprakk soldið í andlitið á okkur,“ sagði hann.

Hann er giftur maður og svona. Hilmir fékk haug af beiðnum og mikinn áhuga. Hann varð strax alveg rosalega eftirsóttur.

Óskar sagði að venjulegur maður á Tinder fái áhuga frá 30% kvenna. „Hilmir er með 97,“ sagði Óskar og benti á að lýsingin á persónu Hilmis í myndinni sé slísí og að auglýsingastofueigandinn Friðrik sé mikill skíthæll í kvikmyndinni.

„En Hilmir Snær, ég hringdi í hann fyrr í vikunni og spurði hann hvort hann væri ekki til í þetta,“ sagði Óskar í þættinum. „Ég held að hann hafi haldið að ég væri að tala um Twitter. Hann er ekkert sérstaklega tæknivæddur. Hann var alveg til í þetta — ekkert mál.“

Auglýsing

læk

Instagram