Remy Lena var ekki boðuð í atvinnuviðtöl fyrr en hún bætti: „Kristinsdóttir“ við nafnið sitt

Remy Lena Melgar Rada er fædd og uppalin á Íslandi en var ekki boðuð í atvinnuviðtöl fyrr en hún bætti: „Kristinsdóttir“ við nafn sitt á ferilskránni. Hún veit um fjölmörg dæmi um fólk af erlendum uppruna með svipaða reynslu og íhugar að breyta nafni sínu.

Remy Lena rifjar upp í samtali við Nútímann þegar hún tók heilt ár í að sækja um störf en fékk aðeins boð í eitt atvinnuviðtal. Hún ákvað svo að fá leyfi hjá stjúpföður sínum til að nota nafn hans á ferilskránni og hóf að sækja um störf sem Remy Lena Kristinsdóttir. „Þá byrjaði boltinn að rúlla. Eftir að ég breytti þessu fékk ég endalaust af viðtölum,“ segir hún.

Þetta var sama ferilskráin, bara annað eftirnafn. Þrátt fyrir það var stórt skref að breyta því. Ég er hálf suður-amerísk og pabbi minn er þaðan og nafnið Melgar Rada er þaðan.

Remy Lena tekur dæmi um þegar hún sótti um á leikskóla og fékk aldrei svar. „Ég hringdi síðan til að fá upplýsingar og mér var sagt gert hafi verið ráð fyrir því að ég væri útlendingur og skildi litla íslensku. Þess vegna hafi verið litið fram hjá umsókninni og annar ráðinn í starfið,“ segir hún

„Ég get alveg viðurkennt það, ég hef grátið yfir þessu. Þetta er náttúrulega bara rasismi og ekkert annað. Að fólk skuli í alvöru bara horfa á nafnið, að það horfi ekki á ferilskrána.“

Hún segist alltaf fá tvær sömu spurningarnar í atvinnuviðtölum: „Hvaðan ertu?“ og „Hversu mörg börn áttu?“

Remy Lena segist ekki vera sú eina sem lendir í þessu og veit um fleira fólk með sömu reynslu. „Ég veit að fólk sem fæddist og ólst upp á Íslandi fær þau skilaboð að útlendingar séu ekki ráðnir vegna nafns og uppruna.“

Í dag fer Remy Lena reglulega í atvinnuviðtöl en staðan hefur lítið breyst. „Ég er að fara í fullt af atvinnuviðtölum, síðast í gær,“ segir hún. „Ég er hætt að segjast halda að ég fái starfið því það virðist líka skipta máli hversu mörg börn ég á. Ég á þrjú börn og það virðist enn þá vera þessi hugsun í gangi um að mamman sé heima og það virðist hafa töluverð áhrif á atvinnuumsóknir.“

Hún veltir nú fyrir sér að breyta nafni sínu í þjóðskrá. „Þetta er sorglegt. Ég hef verið að velta því mikið fyrir mér hvort ég eigi að fara alla leið með þetta og breyta nafninu mínu. Atvinnuviðtöl væru eina ástæðan fyrir því að færi að breyta nafninu.“

Auglýsing

læk

Instagram