Sólrún Diego tengist ekki nýju ediksblöndunni frá Þrif: „Ekki skrítið að fólk hafi haldið það“

Snapchat-stjarnan Sólrún Diego tengist ekki ediksblöndu frá Mjöll Frigg sem var nýlega sett á markað. Sólrun hefur fengið fjölmargar fyrirspurnir um hvort blandan sé hennar en ediksblandan sem hún hefur sagt fylgjendum sínum á Snapchat frá er landsfræg.

Tugþúsundir fylgja Sólrúnu á Snapchat (solrundiego) þar sem hún segir frá lífi sínu og gefur fólki góð heimilisráð — meðal annars hvernig á að útbúa og nota ediksblöndu. „Nei, þetta kemur ekki frá mér,“ segir Sólrún létt í samtali við Nútímann.

Ég, eins og allir aðrir, sá blönduna á Facebook þar sem fullt af fólki benti mér á hana og var að spyrja hvort hún væri frá mér. Ég er með stóran fylgjendahóp og tala ekki um annað en þessa blöndu þannig það er ekki skrítið að fólk hafi haldið það.

Sólrún segir að þrátt fyrir að blöndurnar tvær beri sama nafn þá sé innihaldið ólíkt. „Það er ástæða fyrir því að ég blanda mína heima, ég vil forðast hin ýmsu aukaefni,“ segir hún og bætir við að hún hafi bara gaman að þessu útspili hjá Mjöll Frigg.

„Ég er alls ekki sármóðguð út í einn eða neinn, hef bara gaman að þessu. Ég vona að þetta gangi vel hjá þeim. Ég er ótrúlega ánægð þegar fólk reynir að fara af stað með hugmyndirnar sínar.“

Sólrún segir marga telja að ediksblandan sé upprunalega frá henni og bendir á að það sé algjör misskilningur. „Ég hugsa að margir haldi að ég hafi fundið upp ediksblönduna. Það er alls ekki þannig, þetta hefur verið notað í fleiri ár og þetta er eitthvað sem lærði af ömmu minni,“ segir hún.

„Það sem ég gerði var að koma með blönduna inn á stóran samfélagsmiðil og þar með tengir fólk þetta við mig.“

Aðspurð hvort hún hafi einhvern tíman ætlað að fara með ediksblönduna á markað segist Sólrún hafa pælt í því en ákveðið að það væri ekki sniðugt. „Ástæðan fyrir því að ég gerði það ekki er sú að þá hefðu önnur efni farið í vöruna,“ segir hún.

„Þegar ég geri blönduna sjálf þá er einungis vatn og edik í henni. Ég hafði ekki áhuga á að setja ediksblöndu á markað en þess vegna er frábært að aðrir séu að gera það.“

Spurð hvort hún ætli að nota ediksblönduna frá Þrif segir Sólrún að það sé ólíklegt. „Nei, ég held ekki. Ég er búin að sjá innihaldið í vörunni og sumt þar heillar mig ekki.“

Auglýsing

læk

Instagram