today-is-a-good-day

Twitter sprakk í loft upp þegar bent var á að karlar hafi stillt sér upp fyrir framan stelpurnar okkar

Twitter sprakk í loft upp í gærkvöldi þegar Þórunn Ólafsdóttir spurði af hverju þrír karlar stilltu sér upp fyrir framan leikmenn íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta áður en hópurinn flaug til Hollands. Um Frey Alexandersson og félaga í þjálfarateyminu var að ræða en þeir stilltu sér upp fyrir framan stigann upp í flugvélina og leikmenn liðsins röðuðu sér upp fyrir aftan þá.

Mikil umræða skapaðist um tíst Þórunnar og skiptar skoðanir voru um málið. Drífa Snædal sagði uppstillinguna stinga í augu. „Loksins er kvennaboltinn kominn á dagskrá og það fyrsta sem við tökum eftir á myndinni eru karlarnir fremst. Lélegt,“ sagði hún. Máni Pétursson sagði í svari undir tísti Drífu að um eðlilega uppstillingu á landsliði sé að ræða. „Þjálfarar fremst. Jafnréttisbarátta á staðreyndum, ekki tilfiningum er best. Hættið þvælunni!“

Hefð er fyrir því að landslið stilli sér upp með þessum hætti áður en þau halda á stórmót. Nærtækasta dæmið er í fyrra þegar íslenska karlalandsliðið hélt til Frakklands á EM, eins og myndin hér fyrir ofan sýnir. Hefðin er ekki íslensk en erlend landslið hafa einnig stillt sér svona upp.

Máni tókst á um málið við Drífu og Sóley Tómasdóttur sem bað Drífu kaldhæðnislega um að taka tillit til Mána, sem vill ekki þessa neikvæðni. „Eins miklir snillingar og þið eruð þá tek ég bara nærri mér þegar þið dettið í þetta bull. Veit þið meinið vel en þetta er svo röklaust,“ sagði Máni og Sóley svaraði: „Æ Máni“ og birti mynd af hrút, eflaust til að gefa í skyn að svör hans séu svokallaðar hrútskýringar. „Kemur röklausasta svar feðraveldis feministans. Þegar þú hefur unnið jafn margar stundir og ég fyrir kvennaknattspyrnu rökræddu við mig,“ svaraði Máni.

Edda Sif var ekki sátt við umræðuna og birti eftirfarandi tíst

Umræðurnar fóru um víðan völl og Sonja Sif var ein af þeim sem benti á að um hefðbundna uppstillingu sé að ræða. „Getur vel verið. Þá er sennilega bara best að finnast ekkert um þá venju,“ svaraði Þórunn. Hildur Lilliendahl tekur undir með Þórunni og sagðist hafa bent á nákvæmlega það sama yfir fréttunum.

Guðmundur Halldórs segir að aðalmálið sé Íslendingar eigi að vera stoltir af stelpunum okkar og hvetja þær til dáða á EM. „Þ.e. öll okkar sem höfum einhvern áhuga á fótbolta,“ segir hann.

Björn Olsen bendir á uppstillingin verði til þess að þær komist fyrstar inni í vélina, á undan þjálfarateyminu.

Fyrirliði landsliðsins birti hins vegar þetta tíst í gær, þar sem hún segist hrærð yfir stuðningnum sem liðið fékk þegar það hélt til Hollands

Fyrsti leikur Íslands á EM verður gegn Frakklandi á þriðjudaginn klukkan 18.15. Áfram Ísland!

Auglýsing

læk

Instagram