„Eftir 40 ár gafst ég upp á biðinni eftir móðurástinni“

Saga Tönju Sifjar Hansen er átakanleg og stór. Þrátt fyrir mikla sjálfsvinnu var hún farin að halda að hún myndi aldrei ná að komast alveg yfir áföll æskunnar en með því að fara í svokallaðan egódauða í psilocybin-dái hafi hún loksins getað gert upp áföllin sín og fundið fyrirgefninguna og styrkinn til að halda áfram með líf sitt. Hún hafi fundið hið heilaga æðruleysi sem enginn geti skilið almennilega nema með því að upplifa það.

„Sagan mín er því miður ekki einstök þótt hún sé vissulega áhugaverð fyrir suma,“ segir Tanja og færir blaðamanni kaffi á fallegu heimili sínu í Skerjafirðinum. „Narsissískt uppeldi þekkist um allan heim. Margar vinkonur mínar lentu á vegg í heimsfaraldrinum og í ljós kom að þær áttu langflestar narsissíska foreldra. Þetta er kynslóðargalli; afleiðing þess að tala ekki um hlutina, taka ekki ábyrgð og skila ekki skömminni. Þeir sem beita ofbeldi eru þeir sem upplifa ofbeldi á lífsleiðinni og ég hef mikla samkennd með þeim. Mamma mín vildi eflaust að börnin hennar fengju betri æsku en hún en gat svo ekki horfst í augu við sjálfa sig og viðurkennt eigin mistök. Það er erfitt að taka ábyrgð og talsvert erfiðara fyrir meðvirka og ofbeldisfólk en með því að gera upp æskuna komum við í veg fyrir að við köllum sömu reynslu endurtekið til okkar og látum börnin okkar ganga í gegnum erfiðleika.“

Yfirgaf barnungar dætur sínar

Byrjum á byrjuninni. Móðir Tönju fæddist í Sri Lanka en flutti til Bandaríkjanna þar sem móðurafi Tönju var prestur í aðventistatrú. „Mamma er mjög bitur eftir sína æsku og hefur talað um að það hafi verið hræðilegt að alast upp í fátækt en í ofanálag beittu foreldrar hennar hana líkamlegu og andlegu ofbeldi. Afi beitti hana líka kynferðislegu ofbeldi. Pabbi, sem er íslenskur, fór í aðventistaháskóla í Bandaríkjunum, var einhvers konar lærlingur hjá afa og kynntist mömmu. Mamma varð ólétt eftir pabba fimmtán ára og flutti með honum til Íslands, hún var að leita að útgönguleið. Elsta systir mín fæddist hér árið 1979, ég í Bandaríkjunum 1981 og yngri systir mín hér heima 1983. Mamma var orðin þriggja barna móðir fyrir tvítugt. Henni leið aldrei vel á Íslandi og flutti aftur út þegar ég var tveggja ára; yfirgaf okkur systurnar hreinlega og skildi okkur eftir hjá pabba. Kannski var hún búin að átta sig á því að það að giftast honum og flytja til Íslands var ekki eins góð hugmynd og hún hafði séð fyrir sér. Hún varð líka fyrir miklum fordómum vegna hörundslitarins.“

Hataði sjálfa sig fyrir að vera til

Systurnar voru að sögn Tönju á flækingi hingað og þangað en pabbi þeirra fékk aðstoð með þær þar sem hann var einstæður. „Ég fékk oft að heyra: „Aumingja litla systir þín að þekkja ekki mömmu sína“. Föðursystir mín og -amma höfðu oft orð á þessu og vorkenndu henni mikið fyrir að hafa verið yfirgefin og eldri systur minni fyrir að ganga okkur í móðurstað aðeins fjögurra ára. Jafnvel vorkenndu þær pabba fyrir að sitja uppi með okkur. Hlutskipti mitt var bara að vera byrði þar sem ég fékk ekki úthlutað hlutverki sem átti samkennd skilið. Ég hafði ekki tilverurétt samkvæmt þessum konum. Eins og þær þá sárvorkenndi ég systrum mínum og hataði sjálfa mig fyrir að vera til. Það var bara fyrir stuttu sem ég áttaði mig á því að ég hafði líka verið yfirgefin. Systir hans pabba beitti mig líka miklu andlegu ofbeldi.

Henni leið greinilega ekki vel í eigin skinni og fannst auðvelt að láta það bitna á mér þar sem ég var barn sem enginn elskaði hvort sem var. Frá því ég var um sjö ára sagði hún t.d. oft við mig að ég væri svo ljót að ég myndi þurfa að kaupa mér mann úti í Taílandi og ég væri svo mjó að ég yrði pottþétt ófrjó og yrði einnig að kaupa mér barn þar. Vegna þessa var ég með mikla fordóma gagnvart Taílendingum sem voru greinilega þeir einu ömurlegri en ég og eina vonin fyrir aumingja eins og mig til að eignast mann eða fjölskyldu.

Ég er laus við þessa fordóma í dag en þetta hafði djúpstæð áhrif á mig og seinna var ég í samböndum með mönnum sem mér fannst ég verða að halda uppi fjárhagslega.“ Tanja segist ekki enn hafa fengið samþykki frá föðursystur sinni. „Þó reyndi ég lengi að þóknast henni og sendi t.d. fjölskyldu hennar jólagjafir og -kort í mörg ár, án þess að fá eina kveðju frá þeim allt árið. Í dag er ég mjög sátt með þá vitneskju að það er ekki hægt að gera öllum til geðs og er hætt að pæla í hvað fólki finnst um mig.“

Þessa grein ásamt öllu öðru efni sem birtist í tímaritum Birtíngs getur þú lesið með því að gerast áskrifandi – Prófaðu frítt í 7 daga

Auglýsing

læk

Instagram