Jóga eða hefðbundin líkamsrækt?

Hversu lengi er hægt að láta öskra sig áfram í ræktinni?

Kennararnir eru margir svo eiturhressir að það er ógnvekjandi. Hvernig geta þeir verið svo yfirgengilega mótiveraðir? Er þetta svona heima hjá sér?

,,Eru ekki allir í stuÐI! HA! ERU EKKI ALLIR Í STUÐI!!!‘‘. Og salurinn þorir auðvitað ekki öðru en að vera í stuði. ,,Jú!!‘‘ Auðvitað eru allir í stuði, annað gæti kostað fólk 30 armbeygjur.

Í mörg ár var ég þarna einhvers staðar aftast og gekk í gegnum þjáninguna. Á eftir var gjarnan farið á brettið eða í lóðin. Þegar heim var komið sturtaði ég í mig Nóa Kropp til að jafna mig eftir öskrin í kennaranum.

Stundum þegar ég var á harðaspretti á brettinu sá ég jóga liðið læðast inn í sal með teppi og jafnvel púða meðferðis. Þetta var auðvitað voðalega krúttleg- en um leið heimskuleg sjón. Ekki ætlaði ég að sóa dýrmætum tíma mínum í einhverja kerlingaleikfimi með púða undir arminn.

Fór samt á endanum í jógatíma. Prófa þetta, fá kannski eitthvað áhugavert til að skrifa um í leiðinni.

Kennarinn valhoppaði inn og kveikti á kerti. Svo var bara setið og andað.

Tíminn byrjaði ekki fyrir alvöru fyrr en um tíu mínútum seinna og þá með léttum teygjum.

Tíminn endaði á því að allir fóru undir teppi að lúlla.

,,Andskotakornið, talandi um tímasóun‘‘ hugsaði ég undir teppinu.

Það var ekki fyrr en morguninn eftir, þegar ég vaknaði öll í strengjum, að ég áttaði mig á að það hafði eitthvað gerst í þessum jógatíma.

Ég fór í fleiri tíma og fann þá fyrir frelsinu sem fylgir jógaiðkun. Ég þurfti t.d. ekki að breyta mataræðinu, mig fór að langa í léttari mat. Ég þurfti ekki heldur að djöflast í ræktinni heldur aðeins að hlusta á líkamann, anda og gera léttar teygjuæfingar. Þannig léttist ég niður í kjörþyngd án áreynslu og öðlaðist hugarró.

Lóðin og brettið hafa ekkert haft af mér að segja síðan.

Næst ætla ég að fara í klukkutíma hvíldar jóga eða jóga nidra. Þar verður ekkert gert annað en að kúra undir teppinu. Við erum hvött til að mæta með bangsa.

Auglýsing

læk

Instagram