Tíu hlutir sem fáir vita um keisaraskurði

Fæðingar eru jafn mismunandi og þær eru margar og í rauninni er aldrei hægt að vita fyrirfram hvernig ferlið fer í gang eða endar. Verðandi foreldrar geta að sjálfsögðu undirbúið sig undir fæðinguna og alla möguleikana sem ferlinu fylgja en stundum grípa örlögin inn í og allt fer um þúfur! Þá er gott að vera undirbúin fyrir alla möguleikana.

Verðandi foreldrar eru hvattir til að sækja ýmis námskeið á meðgöngunni, m.a. brjóstagjafarnámskeið og fæðingarnámskeið en lítið er rætt um keisaraskurði. Alþjóðaheilbrigðisstofunin hefur hinsvegar áætlað um 10-15% fæðinga endi í keisaraskurði svo slík umræða ætti að vera á allra vörum þegar kemur að meðgöngu, fæðingu og heilbrigði móður og barns.

Pistill þessi er byggður á eigin reynslu af keisaraskurði en fyrir forvitna er hægt að lesa um keisaraskurði á vefsíðu ljósmæðra og Landspítalans. Færslan birtist fyrst á vefsíðunni www.siljabjork.com.

  1. Bráðakeisari er ekki það sama og bráðakeisari

    Að sjálfsögðu eru öll tilfelli mismunandi og hver keisaraaðgerð er eins persónubundin og hver “náttúruleg” fæðing. Í mínu tilfelli gekk fæðingin hægt og lék grunur á að sonurinn væri ekki aðeins illa skorðaður heldur líka flæktur í naflastrenginn. Við vorum því látin vita af því snemma í ferlinu að eftir að allt annað yrði reynt og það virkaði ekki, þá væri keisaraaðgerð úrslitakostur. Hvorugt okkar, ég eða sonurinn, vorum í bráðri lífshættu þannig í okkar tilfelli var alls ekkert “bráða” eða “neyðar” við þessa upplifun. Það var enginn æsingur heldur fengum smá tíma til að átta okkur á stöðunni, farið var vel yfir aðgerðina og alla áhættuþætti og aðeins rúmri klukkustund frá því að okkur var tilkynnt að við færum í keisara, var sonur okkar kominn í heiminn, heilbrigður og sæll.

  2. Þú ert vakandi á meðan að aðgerðinni stendur

    Það er breytilegt eftir hverri aðgerð fyrir sig en séu hvorki barn né móðir í bráðri lífshættu eða aðrar aðstæður kalli eftir því að konan sé svæfð, þá eru mæður alla jafnan vakandi við aðgerðina og makar viðstaddir.Eitt af því sem hræddi mig mest við aðgerðina var einmitt að vera ekki vakandi til að heyra í syni mínum gráta í fyrsta skipti, þannig ég róaðist helling að vita af því að ég yrði vakandi með toppstykkið þokkalega í lagi, fyrir utan smá slappleika sökum lyfjanna.

    Tjald er sett upp við bringu móðurinnar þannig hvorki þú né maki þinn sjá aðgerðina sjálfa, nema þið óskið eftir því sérstaklega. Mökum er síðan boðið að standa upp og koma að skoðunarborðinu eftir að barnið hefur verið sótt en það er mjög persónubundið hvort fólk kjósi það, því þá eiga makarnir á hættu að sjá skurðsvæðið, með öllu tilheyrandi. Það var vissulega skrítið að sjá ekki soninn um leið og hann kom í heiminn, en ég var líka með lokuð augun allan tímann því mér fannst það viðráðanlegra. Við kærastinn biðum hágrátandi og í algjöru spennufalli í þessar nokkrar sekúndur frá því hann er sóttur, skoðaður og þrifinn og þangað til við fengum hann í fangið og það skipti okkur engu máli. Við heyrðum strax í honum og vissum að hann væri hraustur og allt í góðu lagi.

  3. Þú finnur fyrir öllu nema sársaukanum

    Þrátt fyrir að vera deyfð með sterkum lyfjum frá mitti og niður þá finnur þú fyrir öllum hreyfingum á meðan aðgerðinni stendur. Öllum. Þú finnur ekki, eða átt að minnsta kosti ekki, að finna neinn sársauka á meðan og eru gerðar prófanir á þér áður en aðgerðin hefst. Þetta er stórkostlega furðuleg tilfinning. Deyfingin gerir það að verkum að þú finnur aðeins þrýsting og viðkomu en þú finnur fyrir því þegar líffærin eru færð til og frá, þrýstinginn frá höndum læknanna og þú finnur fyrir því þegar barnið er tekið upp og hversu tóm þú ert eftir á. Þú heyrir líka allt, allt skvabbið í innyflunum, gutlið í blóðinu og soglhjóðið þegar legið er hreinsað, fylgjan tekin og þú saumuð aftur saman. Það hjálpaði mér að vera með lokuð augun og anda djúpt, reyna að leiða hugann annað og tala við kærastann minn á meðan þessu stóð.

  4. Þú hristist óstjórnlega eftir aðgerðina og það er eðlilegt

    Ég kann hvorki deili á magni né tegundum þeirra lyfja sem dælt er í þig fyrir aðgerðina en þekkt aukverkun þeirra, og adrenalínsjokksins, er að konur taki að hristast eins og hríslur í vetrarvindi. Í góðar tuttugu mínútur eftir aðgerðina leið mér eins og mér væri ískalt, þó mér væri það ekki, og ég hafði enga stjórn á skjálftanum sama hvað ég reyndi, á meðan ég var saumuð saman og þangað til ég var keyrð inn á svefnstofuna. Sumar konur fá smá áfall þegar þessi hristingur hefst og halda kannski að eitthvað sé að, en þetta er fullkomlega eðlilegt þó óþægilegt sé og hættir af sjálfu sér eftir nokkra stund.

  5. Þér mun líða skringilega eftir aðgerðina og maginn er eins og deig viðkomu

    Þetta á að sjálfsögðu líka við mæður sem fæða “náttúrulega” en legið þarf tíma til að dragast aftur saman og minnka, svo þú verður ennþá smá uppþemd og aum. Það er því miður ekki hægt að panta fitusog samhliða keisaraaðgerðinni, svo þú ert ennþá með óléttubumbuna framan á þér. Fyrst um sinn finnurðu lítið fyrir því sökum deifingarinnar en þegar deifingin fer úr líkamanum er eins og þú sért með þungt deig framan á þér. Ég þurfti að halda maganum uppi á meðan ég gekk um fyrsta mánuðinn, líka þegar stóð upp eða hreyfði mig því annars leið mér eins og maginn væri tvö tonn að toga niður á skurðinn og innyflin með. Það gengur því ekki að skella sér strax í þveng og gallabuxur, en ég gekk í stórum strákanærbuxum í margar vikur eftir aðgerðina. Eftir á að hyggja hefði líka verið sterkur leikur að fá einhverskonar aðhaldsbuxur eða magabelti, til að líða ekki eins og ég væri að detta í sundur en oft er boðið upp á slíkt, biðji maður um það.

  6. Skurðurinn er pínulítill

    Ég viðurkenni það af hégómlegum ástæðum að mig langaði ekki í keisaraðgerð því ég hafði miklar áhyggjur af því að vera með stærðarinnar ör þvert yfir magann. Skurðurinn sjálfur er hinsvegar mjög lítill og nettur, sérstaklega í ljósi þess að heil manneskja var sótt inn í þig og allt fært til í hamaganginum! Ég gerði mér líka ekki grein fyrir því að þú færð skurði og ör á legið og magavöðvana, sem gróa inn í þér og geta verið eins sársaukafullur bati og utanverður skurðurinn. Vertu líka búin undir það ef þú hefur ekki rakað þig að neðan lengi að þú verðir rökuð eða vöxuð, svo auðveldara sé að skera þig upp. Því miður var ekki hægt að biðja um “full brazilian” með þessu samt…

  7. Þú ert nánast ófær í 6-8 vikur á eftir

    Eftirmálar og bati eftir keisaraskurð eru ekkert grín. Þú ert fullkomlega ófær fyrstu einn – tvo dagana, þarft að taka morfín og sterk verkjalyf eftir klukkunni og mátt ekki standa upp sjálf strax. Í fyrsta sinn sem þú ert látin standa upp, verða ljósmæðurnar að vera viðstaddar og hjálpa þér. Þú ert líka með þvaglegg og finnur ekki fyrir neinu fyrir neðan mitti fyrst um sinn, sökum deyfilyfjanna, svo fyrsti gangurinn er eins og nýfætt hross á svelli. Þegar þú færð loksins að standa upp og hreyfa þig er samt mjög mikilvægt að vera dugleg að standa upp, ganga aðeins um og fara sjálf á klósettið til þess að flýta fyrir batanum. Ég gekk um stofuna og studdi mig við vögguna hjá syninum, eins og göngugrind.Eftir að þú kemur heim verður þetta ekkert auðveldara strax og er mjög mikilvægt að hafa manneskju hjá þér allan sólarhringinn, hvort sem það er maki eða einhver nákominn, til að aðstoða þig við daglegar athafnir og að sjá um barnið. Þú mátt ekki ryksuga, hengja upp þvott eða lyfta neinu þyngra en barninu í 6-8 vikur. Þú mátt ekki fara í bað, heita potta eða liggja í vatni heldur og þú átt eftir að finna gríðarlega mikið til. Það er t.d. algengt að konur sem fara í keisara finni stingandi sársauka í hægri hliðinni í margar vikur á eftir, sökum einhverrar taugar sem klemmist við hægri nárann. Þú átt eftir að gráta, þetta verður erfitt og sársaukafullt en sársauki er alltaf tímabundið ástand! Mundu bara að taka verkjalyfin þín með stuttu millibili til að halda verkjunum í skefjum og sprauta þig með blóðþynningarlyfjunum til að fá ekki blóðtappa í fæturnar.

  8. Keisaraskurður er alls ekki leti eða auðveldari leið

    Þeir sem halda því fram að konur sem fara í keisara, hvort sem það sé valkeisari eða bráðakeisari, séu letingjar eru fávitar. Þær konur sem kjósa að fara í keisara vegna þess að þær halda að það sé eitthvað auðveldara fyrir líkamann en náttúruleg fæðing eru úti á þekju. Keisaraaðgerðir eru gríðarlegt inngrip og getur batinn tekið miklu lengri tíma heldur en eftir “náttúrulega” fæðingu. Sumar konur eru í mörg ár að jafna sig eftir keisaraaðgerðir, sýkingarhætta er að sjálfsögðu meiri, hreyfigetan þín skerðist meira og keisaraaðgerðir gera mörgum konum erfiðara fyrir að eiga náttúrulegar fæðingar seinna meir. Sumar konur finna einnig fyrir sektarkennd og þunglyndi eftir bráðakeisaraaðgerðir, því hlutirnir fóru ekki eins og áætlað var og getur því fylgt mikið stress eftir áfallið. Vertu því undirbúin fyrir því að alveg sama hversu vel meðgangan hefur gengið að þú gætir endað í keisaraskurði og þá er gott að vera meðvitaður um aðgerðina, eftirmála og aðstæður.

  9. Magavöðvarnir á þér eru í ruglinu

    Til þess að komast að leginu er að sjálfsögðu skorið í gegnum allt sem fyrir er, eins og magavöðvana. Þú átt eftir að finna mikið til í magavöðvunum og verður erfitt að hreyfa sig, lyfta þungu upp og niður og athafna sig fyrstu vikurnar. Gæta þarf að því að rífa ekki upp saumana, innan sem utan. Það verður erfitt fyrir þig að reisa þig upp án stuðnings, standa upp úr rúminu, fara á salernið og leysa vind. Það verður ógeðslega vont að hnerra, hlæja og í rauninni bara nota magavöðvana fyrstu vikurnar. Það verður að sjálfsögðu auðveldara með hverjum deginum sem líður en ráðlagt er að fara hægt af stað í líkamsrækt og aðra hreyfingu sem snýr að magavöðvunum því þeir eru aumir og jú, saumaðir saman.

  10. Þú ert ekki verri en aðrar mæður!

    Þó að ég hafi aldrei dæmt aðrar konur sem fóru í keisaraaðgerðir á undan mér, þá dæmdi ég sjálfa mig svakalega. Það var í alvörunni mjög erfitt að sætta sig við þá staðreynd að ég þyrfti á þessu innigripi að halda, sérstaklega af því meðgangan gekk svo vel. Ég hafði ekkert kynnt mér keisaraðagerðir eða eftirmála þeirra í fæðingarundirbúningum því ég ætlaði svo innilega ekki í slíka aðgerð og gerði mér enga grein fyrir því hversu gott það væri að velta þessum möguleika fyrir mér áður en kom að fæðingunni. Ég grét sáran þegar læknirinn tilkynnti mér að ég væri á leiðinni í aðgerðina og ég hugsaði í sífellu hversu ömurleg ég væri að geta ekki fætt son minn eðlilega.

    Ég hélt að ég myndi ekki tengjast honum eins mikið, að ég myndi vera með risastórt og ljótt ör, að ég ætti erfiðara með að jafna mig og ég var dauðskelkuð að ég þyrfti að fara í aðgerð, því ég hef aldrei farið í slíka aðgerð áður. Sannleikurinn var sá að ekki nóg með að sonurinn væri illa skorðaður, þá var hann þrívafinn í naflastrenginn og ég hefði aldrei getað fætt hann eðlilega. Það var liðinn svo langur tími, við vorum bæði orðin þreytt og enginn önnur inngrip skiluðu árangri. Það var hinsvegar ekki fyrr en heimaljósmóðirin okkar sagði við mig að þetta væri bara óheppni og ég hefði ekki gert neitt rangt eða getað stjórnað þessum aðstæðum á neinn hátt, að ég áttaði mig á því að ég hefði ekkert til að skammast mín fyrir.

    Það er mikilvægast að vita að alveg sama hvernig barnið kemur í heiminn þá er það fyrir öllu að móður og barni heilsist vel.

Auglýsing

læk

Instagram