Helga ákvað að taka slaginn: „Fannst vera komin tími til að taka þetta á næsta stig“

„Ég var komin á þann stað í lífinu að ég var aðeins farin að staldra við og velta fyrir mér hvert skyldi halda næst. Og ég fór að átta mig á þessu að ég er búin að starfa í 29 ár sem lögfræðingur að almannahagsmunum hist og her, aðallega á Íslandi, tvö ár í Brussel. Mér fannst vera komin tími til að taka þetta á næsta stig,“ segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar og forsetaframbjóðandi, er nýjasti gestur Spjallsins með Frosta Logasyni.

Helga segist hafa fundið í hjarta sínu, eftir að hafa unnið í 29 ár að almannahagsmunum, að nú væri tími til kominn að taka næsta skref og gefa kost á sér til embættis forseta Íslands. Hún segir forsetann fyrst og síðast eiga vera þjónn almennings í landinu en hún er sjálf, að eigin sögn, gríðarlega samviskusöm, heiðarleg, réttsýn og ósérhlífin. Allt þetta hafi sagt henni að hún þyrfti að bjóða þjóðinni upp á sig sem valkost í komandi forsetakosningum og hingað er hún komin.

Þarf að geta stigið inn í íslenska stjórnskipan

„Af því að það er bara svo mikið sem ég tel búa í mér. Svo gerist það að við erum með forseta sem ákveður að fara og þá fer ég að velta fyrir mér ákveðnum hlutum og það atvikast þannig að ég fer að máta mig við þetta starf. Allavega hvað varðar þessi formlegu skilyrði sem forseti þarf að uppfylla,“ segir Helga og tekur nokkur dæmi.

„Hann þarf að geta stigið inn í íslenska stjórnskipan og gert stóra hluti. Hann skrifar undir lög, staðfestir mikilvæg erindisbréf og aðrar samþykktir sem íslensk þjóð ákveður að skuldbinda sig með. Svo er þetta að taka á móti erlendum þjóðhöfðingjum og allt það. Síðan er þetta tungumálakunnátta og vera þjónn almennings í landinu. Þetta er að stórum hluta þjónustustarf. Leiða saman okkar besta fólk, hvort sem það er skólasamfélagið, menningin eða atvinnugreinarnar okkar eins nýsköpunin.“

Óhrædd við að taka erfiðar ákvarðanir

Þá segir Helga að þarna hafi líka verið komin vettvangur fyrir hana og hugðarefni hennar.

„Þarna var í rauninni kominn vettvangur að sama skapi fyrir mig til að geta fangað mjög djúp hugðarefni mín í gegnum árin sem eru íslensk tunga og tækni. Við erum í miðri tæknibyltingu og allt í einu voru þetta orðin atriði sem ég taldi mig geta gert þetta fyrir íslenska þjóð upp á 10 og gott betur,“ segir Helga og bætir við að hún hafi fundið það í hjarta sínu að þetta væri hennar köllun.

„Ég er þannig gerð að þegar ég tek mér eitthvað fyrir hendur að þá fer ég á bólakaf og geri það eins vel og ég mögulega get gert. Ég er gríðarlega samviskusöm og heiðarleg og réttsýn. Ég er afskaplega ósérhlífin, ég hef lært að vinna á nóttunni og ég er óhrædd við að taka erfiðar ákvarðarnir. Allt þetta gerði það að verkum að mér fannst ég verða og hjarta mitt sagði að ég þyrfti að stíga fram og segja við íslenska þjóð að ég er tilbúin að standa þessa vakt með ykkur ef þið viljið.“

Ef þú vilt sjá og heyra viðtalið í heild sinni þá getur þú skundað inn á síðu hlaðvarpsveitunnar Brotkast þar sem er að finna fjölda hlaðvarpsþátta.

Auglýsing

læk

Instagram