14 ára stúlku hópnauðgað og kærastinn skipulagði ódæðið – Gerendurnir á aldrinum 11 til 16 ára

Lögreglan í Vestur-Flanders í Belgíu hefur undanfarnar vikur rannsakað hræðilegt mál þar sem 14 ára stúlku var nauðgað af 10 aðilum á aldrinum 11 til 16 ára.

Stúlkan er ekki nafngreind sökum aldurs en samkvæmt frásögn lögreglu tóku gerendurnir upp ódæðið og settu brot af því inn á samfélagsmiðla. Í tilkynningu lögreglu segir að allir þeirra handteknu séu af innflytjendaættum og segir dagblaðið Nieuwsblad myndböndin sem fóru í dreifingu staðfesta það en þeim var dreift bæði í einkaskilaboðum og á samskiptamiðlinum Snapchat.

Samkvæmt lögreglu var verknaðurinn skipulagður með þeim hætti að kærasti stúlkunnar lokkaði hana á fyrirfram ákveðinn stað úti í skógi þar sem níu félagar hans biðu eftir þeim. Kærastinn hafi þá átt frumkvæðið í að ráðast á stúlkuna áður en félagar hans gengu til liðs við hann.

Drengirnir skiptust á að misnota stúlkuna og segir að þeir hafi allir tekið þátt á einn eða annan hátt. Eins og áður sagði tóku þeir ódæðið upp á síma sem allir voru gerðir upptækir og spila lykilhlutverk í að finna út hversu stór þáttur hvers og eins var.

Lögreglan í Vestur-Flanders segir að vegna aldurs meintra gerenda hvíli algjör leynd yfir nöfnum þeirra. Myndböndin sem eru í dreifingu hafi þó gert fólki á svæðinu mögulegt að finna út hverjir þeir eru.

Sex af drengjunum eru nú í haldi lögreglunnar og bíða þess að fara fyrir unglingadómstól en fjórum hefur verið sleppt úr haldi.

Til að hægt sé að rétta yfir einstakling sem fullorðnum þarf viðkomandi að hafa náð 18 ára aldri í Belgíu svo líklegt þykir að gerendurnir muni einungis þurfa að sitja endurhæfingarnámskeið fyrir unglinga vegna aldurs síns.

Líklegt þykir þó að réttað verði yfir einum þeirra sem hann væri fullorðinn, en það er sá elsti í hópnum sem er 16 ára gamall. Slíkt er leyfilegt í Belgíu ef viðkomandi er úrskurðaður sekur um nauðgun eða hópnauðgun.

Þessi lög voru sett á árið 2022 eftir að svipað mál í Belgíu fyrir þremur árum en þá var annarri stúlku nauðgað af hópi manna á aldrinum 14 til 19 ára sem tóku ódæðið upp og settu á samfélagsmiðla.

Því þykir ekki ólíklegt að sá elsti í hópnum muni fá langan fangelsisdóm þegar úrskurðað verður í málinu en sumir sakborninganna hafa játað verknaðinn meðan aðrir halda fram sakleysi sínu eða segjast einungis hafa horft á eða tekið upp á síma.

Auglýsing

læk

Instagram