Auglýsing

Arnar Þór ekki hræddur við að synja lögum frá Alþingi

Arnar Þór Jónsson lögmaður hefur ákveðið að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands. Hann segir þjóðfélagið standa á krossgötum varðandi sjálfstæði sitt þar sem fulltrúalýðræðið sé í raun hætt að virka og þingmenn gæti ekki lengur að hagsmunum þjóðarinnar í störfum sínum. Þetta kemur fram í viðtali við Arnar Þór í hlaðvarpsþættinum Spjallið með Frosta Logasyni á Brotkast.

Hann hefur áhyggjur af síauknu valdaframsali til alþjóðastofnanna og nefnir í því samhengi mál eins og Bókun 35, Orkupakkann og lögleiðingu viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir.

„Miðað við hvernig þróunin hefur verið, og hún er komin á býsna alvarlegt stig, það er að segja orkumálin, skattlagningu á flutninga til og frá Íslandi og frumvarp til laga um bókun 35 sem átti að mæla fyrir um það að erlend lög gangi að meginstefnu framar okkar lögum – þetta er komið í rauninni á það alvarlegt stig að ég lýsi því þannig að við stöndum bara á krossgötum.“

Hefur þverpólitískan stuðning

„Það er þverpólitískur stuðningur sem ég hef. Fólk sem maður ímyndaði sér að væri vinstra megin við miðju – mjög margir eru að hafa samband við mig og hafa gert á síðustu misserum til þess að sýna mér stuðning. Mjög áberandi þeir litir í litrófinu. Líka fólk sem er í miðjunni, fólk í Sjálfstæðisflokknum og Miðflokknum.“

„Hvað segir það okkur?“ spyr Frosti.

„Það segir okkur það Frosti að flokkakerfið er eins myglað og það er, þessi samgróningar í þessu kerfi. Flokkakerfið þjónar þessum tilgangi að reka fleyg á milli okkar og koma í veg fyrir að við getum sameinast um grundvallarmál. Þetta eru mál eins og sjálfstæði okkar, sjálfsákvörðunarréttur, jafnrétti okkar fyrir lögunum og alls konar svona mál sem standa fyrir ofan þessa daglegu flokkspólitísku drætti og kannski fer að líða að þeim tíma að það verður að sprengja upp þetta flokkakerfi,“ segir Arnar Þór en varar þó við kerfisfólkinu.

„Það er fólk sem horfir á þetta, kerfiskallarnir og konurnar sem fá skjálfta við að horfa á þetta. Hvað verður um mig og hvað verður um stöðuna mína sem ég er skipuð í lífeyrissjóðnum eða borgarlínunni ef það á að sprengja upp flokkakerfið. Er hann raunverulega að leggja það til. Ég er ekkert endilega að segja að það muni gerast en það sem þarf að gerast er að venjulegt fólk fari inn í þessa flokka, annaðhvort fari inn í þá og breyti þeim og sópi burt þessu liði sem er þarna eða stofni sína eigin flokka. Ég held að það sé komið ótrúlegt óþol gagnvart mörgum af þessum flokkum. Það sennilega væri miklu auðveldara að búa til nýja flokka og gera það faglega því kerfisfólkið með aðstoð fjölmiðlanna mun segja að þetta séu vitleysingar og það mun reyna að klína alls konar stimplum á þá sem reyna þetta.“

Óhræddur á Bessastöðum

Arnar telur að þróunin undanfarin misseri sýni að forseti Íslands þurfi að vera einskonar öryggisventill í mikilvægustu málum þjóðarinnar og segist hann tilbúinn til þess að vera sá aðili ef að á reyni. Hann væri ekki hræddur við að taka erfiðar ákvarðanir.

„Alls ekki. Það er grundvallarkrafa sem er gerð til þess sem er í þessu embætti að hann treysti sér til þess. Það segir sig sjálft að við vissar aðstæður þarf þetta að vera manneskja sem kann að taka erfiðar ákvarðanir og standa með þeim og þetta þurfa að vera ákvarðanir sem þola gagnrýni. Það á að gagnrýna forseta lýðveldisins eins og aðra. Það á enginn í okkar samfélagi að vera hafinn yfir gagnrýni.“

Ekki missa af þessum magnaða þætti af Spjallinu með Frosta Logasyni.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing