Auglýsing

Fyrrum hæstaréttardómari segir KSÍ sekt um mannréttindabrot og telur að Albert geti sótt sambandið til saka

Fyrrum hæstaréttardómarinn og lögmaðurinn Jón Steinar Gunnlaugsson er ekki þekktur fyrir að sitja á skoðunum sínum og á síðunni JSG Lögmenn birtir hann pistil þar sem hann sakar KSÍ um mannréttindabrot.

Jón Steinar segir að Albert Guðmundsson, einn besti ef ekki allra besti knattspyrnumaður þjóðarinnar sé ekki gjaldgengur í íslenska landsliðið og að KSÍ haldi því fram að ástæðan sé sú að sambandið hafi vandað sig svo mikið við reglusetningu hvað varðar kynferðisbrot sem leiði til þess að leikmenn sæti slíkum viðurlögum og skipti þar engu hvort brot hafi sannast eða ekki.

Jón Steinar lýsir því svo að kæran á hendur Alberti hafi þegar hlotið þá meðferð hjá saksóknara að málið skyldi fellt niður en Albert neitaði sök og engin sönnunargögn hefðu verið til staðar sem bentu til sektar.

Hann heldur svo áfram og segir að þó svo að kærandi brots hafi kært niðurfellinguna til ríkissaksóknara þá breyti það engu um stöðu Alberts og hann teljist jafn saklaus eftir sem áður þar sem ríkissaksóknari þurfi að ákveða innan ákveðins tímaramma hvort málið skuli tekið upp að nýju.

Þarna er Jón Steinar að benda á að Albert sé ekki með virkt mál í kerfinu heldur eigi eftir að ákveða hvort málið skuli tekið upp aftur.

„KSÍ brýtur hreinlega á mannréttindum þessa pilts með því að ákveða að hann sé ekki gjaldgengur í landsliðið.“

Jón Steinar segir að einstaklingar njóti mannréttinda en ekki hópar og að hans mat sé að Albert geti höfðað mál á hendur knattspyrnusambandinu og gert að lágmarki kröfur um miskabætur og jafnvel meira.

„Mér er ekki kunnugt um fordæmi fyrir slíkri málsókn í réttarstöðu eins og þessari þar sem aðrir en sjálft ríkisvaldið brýtur á sökuðum manni, en tel líklegt að hún sé heimil.“

Hann segir einnig að reglur KSÍ um slík viðurlög án nokkurrar sönnunar séu hreinlega ógildar og að menn innan sambandsins geti ekki komið sér saman um að brjóta á rétti manns sem hefur ekkert brotið af sér samkvæmt lögum.

Jón segir að honum finnist málið ótrúlegt og spyr hvernig standi á að landssamband íþróttaiðkenda í tiltekinni grein fari fram með slíkum hætti og að kannski ætti handhafi saksóknarvalds frekar að freista þess að höfða opinbert mál á hendur forsvarsmönnum KSÍ og krefjast refsingar yfir þeim fyrir brot þeirra gegn Alberti.

Að lokum segir Jón að að Íslendingar verði að láta af svona hátterni.
„Á mörgum sviðum, virðast menn telja rétt að brjóta á einstaklingum vegna fullyrðinga um afbrot sem viðkomandi maður telst saklaus af. Þeir sem slíkt gera eru hræddir um að valkyrjur af báðum kynjum muni ekki una réttlætinu, og þess vegna verði þeir að beita ranglæti til að ganga í augun á þeim. Vonandi taka landsmenn sig á.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing