Tugir lögreglukvenna í Svíþjóð eiga elskhuga í glæpagengjum – Hvísla að þeim banvænum leyndarmálum

Hneykslismál hefur gengið yfir Svíþjóð undanfarnar vikur eftir að upplýsingar fóru að berast um að innan lögreglunnar væri fjöldi kvenkyns lögregluþjóna sem væri að sænga hjá háttsettum meðlimum glæpahópa þar í landi.

Dagens Nyheter segir frá að eftir að lekinn kom í ljós hafi fundist yfir 500 tilvik þar sem viðkvæmum upplýsingum var lekið til glæpamanna og að yfir 30 kvenkyns lögregluþjónar komi við sögu í lekanum.

Konurnar voru notaðar í þeim tilgangi að þær færðu elskhugum sínum upplýsingar sem þeir gátu notað gegn öðrum glæpahópum eða jafnvel gegn öðrum lögregluþjónum.

Upplýsingarnar voru ekki í saklausari kantinum heldur, því þær innihéldu upplýsingar á borð við heimilisföng hjá fjölskyldum samkeppnisaðila í undirheimunum og leiddu til fjölda alvarlegra árása og fjögurra morða í hið minnsta.

Uppljóstrarar í undirheimum sem og hundruð lögregluskýrslna hafa í kjölfarið leitt í ljós að konurnar eru handvaldar af glæpahópum og eru oftast í viðkvæmri stöðu á einhvern hátt.
Sem dæmi má nefna að ein lögreglukona var dregin á tálar af glæpahóp þegar hún var enn í lögregluskólanum meðan önnur var sögð einmana og búin að gefast upp á að finna sér maka og nýttu þessir aðilar sér hugarástand hennar til að táldraga hana. Þessar upplýsingar fengu þeir frá annarri lögreglukonu sem hafði áunnið sér trúnað þeirrar fyrri.

Sænski lögreglustjórinn, Petra Lundh segir að rúmlega 30 lögregluþjónar hafi neyðst til að segja af sér eða verið sagt upp vegna þessa og að minnsta kosti 514 lekar af slíku tagi hafi átt sér stað yfir nokkurra ára tímabil.

Hún segir hegðun lögregluþjónanna algerlega óásættanlega og að barnalegt hafi verið af sænsku lögreglunni að gruna ekki að leki af þessu tagi gæti átt sér stað.

Hneykslið hefur undið svo upp á sig að forsætisráðherra landsins, Ulf Kristersson, hefur neyðst til að tjá sig um málið og sagðist hann hafa miklar áhyggjur af þessum gögnum en of fljótt væri að draga þá ályktun að um væri að ræða ógn við þjóðaröryggi.

Hann sagði þó að möguleikinn á að lekinn gæti reynst enn stærri væri mikið áhyggjuefni og að sænska lögreglan ætti langt og mikið verkefni fyrir höndum til að vinna aftur traust landsmanna. Glæpatíðni í Svíþjóð hafi stóraukist undanfarin ár og þetta sé það síðasta sem lögreglan þurfti á að halda.

Auglýsing

læk

Instagram