Vinsæll íslenskur áhrifavaldur rændur í Frakklandi

Ívar Orri Ómarsson er íslenskur áhrifavaldur sem beitir sér fyrir hollu matarræði og lífsstíl á samfélagsmiðlinum Instagram. Ívar gengur þar undir nafninu Seiðkarlinn en hann er núna á ferðalagi í húsbíl sínum yfir gervalla Evrópu ásamt kærustu og tveimur hundum. Tilgangur ferðarinnar er að kynnast lífrænt ræktuðum vörum af ýmsu tagi og mögulega flytja inn til Íslands.

Ívar var staddur í suðurhluta Frakklands nálægt borginni Marseille og hafði hópurinn stöðvað bílinn til að fara í göngutúr á fallegu svæði á leiðinni. Ekki vildi betur til en svo að þegar þau komu til baka urðu þau vör við að innbrot hefði átt sér stað.

Samkvæmt frásögn Ívars var öllum greiðslukortum þeirra stolið ásamt ökuskírteinum þeirra beggja og öðrum verðmætum, en verst fannst honum þó að peningasafn kærustunnar hafði verið tekið, en hún safnar smápeningum frá öllum löndum sem hún kemur til. Hann segist heppinn að hafa verið með allt reiðufé á sér í göngutúrnum því annars hefði tjónið orðið mun meira.

Listin yfir það sem stolið var

Þau höfðu samband við lögregluna í Frakklandi og í ljós kom að reynt hafði verið að nota kortin þeirra á fjölmörgum stöðum en án árangurs þar sem þau höfðu látið loka þeim samstundis.

Ívar segir að hægt hafi verið að sjá á myndavélum hvar reynt hefði verið að nota kortin og eftir samtal við vitni kom í ljós að maðurinn er Rúmeni í kringum 25 ára aldur. Ekki var búið að klófesta þjófinn þegar fréttin er skrifuð.

Parið ætlaði sér að gista á svæðinu í húsbílnum eins og þau höfðu gert alla ferðina fram að þessu, en var sagt af yfirvöldum að þessi hluti landsins væri ekki öruggur fyrir ferðamenn sem gista í húsbílum og þar væru innbrot í slíka bíla svo algeng að tala mætti um faraldur.

Þau héldu því áfram ferðinni og þegar Ívar ætlaði að gista á bílastæði fyrir utan vinsæla verslun ráðlagði eigandinn honum að gera það ekki því varla liði sá dagur þar sem ekki væri tilkynnt um innbrot í húsbíla á svæðinu. Hann sagði þó að ef hann vildi taka áhættuna væri honum velkomið að gista, en parið kaus að halda ferðinni áfram.

Ívar birtir líka samskipti við fólk sem hefur reynslu af svæðinu. Þar er honum ráðlagt að gista alls ekki í þessum hluta landsins nema á lokuðu svæði, svo slæmur sé glæpafaraldurinn orðinn og að ýmsum brögðum sé beitt til að brjótast inn í húsbíla og ekki sé óalgengt að eitrað sé fyrir hundum til að þagga niður í þeim við slík innbrot.

Parið ákvað því að halda keyrslunni áfram yfir nóttina og fundu þau að lokum vel upplýst bílastæði fyrir utan einn af hinum vinsælu McDonalds veitingastöðum í Grasse í Frakklandi þar sem þau eyddu nóttinni en Ívar fer vel yfir atburðarásina í Instagram stiklum sem hægt er að skoða á Instagram reikningi hans.

Hægt er að sjá slíkar stiklur í allt að 24 klukkustundir eftir að þær eru birtar. Fyrir áhugasama er líka hægt að fylgjast með ferðalagi hópsins en enn ku vera langt ferðalag framundan sem vonandi mun ganga betur en þessi hluti ferðarinnar.

 

Auglýsing

læk

Instagram