Biður þá sem Drama queen-borðinn særði afsökunar: „Gríninu ekki beint að áverkum Hlyns“

Orri Rafn Sigurðarson, stuðningsmaður ÍR í körfubolta, hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar leiks Stjörnunnar og ÍR í gærkvöldi. Eins og Nútíminn greindi frá í morgun er mikil reiði á meðal stuðningsfólks Stjörnunnar sem telur Ghetto Hooligans, stuðningssveit ÍR, hafa farið yfir strikið í að gera grín að meiðslum Hlyns Bæringssonar, fyrirliða Stjörnunnar, sem fékk þungt högg í þriðja leik liðanna í síðustu viku.

Sjá einnig: Garðbæingar æfir yfir framferði stuðningsmanna ÍR í körfunni: „Vonandi verður ykkur sópað út“

Hlynur lék ekki með Stjörnunni í fjórða leik liðanna í gærkvöldi en hann hlaut meiðsli eftir þungt högg frá Ryan Taylor, leikmanni ÍR, í þriðja leik liðanna í síðustu viku. Ryan fékk þriggja leikja bann fyrir höggið, sem hleypti illu blóði einvígi liðanna — sérstaklega á meðal stuðningsfólks.

Stuðningsmannasveit ÍR mætti með Stjörnutreyju á herðatré í Garðabæinn í gærkvöldi. Á treyjunni hékk borði sem á stóð: „Drama Queen“ og stuðningsfólk Stjörnunnar leit svo á að uppátækinu hafi verið beint til Hlyns.

Orri Rafn segir í yfirlýsingu sinni að gríninu hafi ekki verið beint að áverkum Hlyns. „Þá sem að grínið særði bið ég afsökunar,“ segir hann.

„Af mér var tekin mynd þar sem ég hélt uppi blárri treyju með borða sem á stóð „drama queen“. Þessari treyju var ekki á nokkurn hátt beint að Hlyn Bæringssyni og þeim meiðslum sem hann varð fyrir í leik þrjú í viðureign þessara liða. Treyjunni var beint að umræðunni sem verið hefur í gangi milli liðanna almennt og númerið á brjósti hennar var númerið 9 – en ekki það númer sem Hlynur ber á bakinu.“

Orri segir að höfuðmeiðsli hafi haft áhrif á íþróttaferil sinn og að hann myndi því aldrei gera grín að höfuðhöggum. „[Ég] rölti til Hlyns eftir leikinn í Seljaskóla til að spyrja hvort væri í lagi og við Justin Shouse fyrir leik liðanna í Ásgarði til að spyrja af honum frétta,“ segir hann í yfirlýsingunni.

„Ég harma að þetta mál hafi tekið athygli frá ótrúlega spennandi seríu milli þessara liða sem réðst öll á síðustu sekúndum hvers leiks eftir gríðarlega baráttu.“

Yfirlýsingu Orra Rafns má lesa í heild sinni hér fyrir neðan

Í ljósi umræðu í kjölfar leiks Stjörnunnar og ÍR sunnudagskvöldið 25.mars vill ég undirritaður gefa eftirfarandi yfirlýsingu.

Af mér var tekin mynd þar sem ég hélt uppi blárri treyju með borða sem á stóð „drama queen“. Þessari treyju var ekki á nokkurn hátt beint að Hlyn Bæringssyni og þeim meiðslum sem hann varð fyrir í leik þrjú í viðureign þessara liða. Treyjunni var beint að umræðunni sem verið hefur í gangi milli liðanna almennt og númerið á brjósti hennar var númerið 9 – en ekki það númer sem Hlynur ber á bakinu.

Mér hefur verið annt um höfuðmeiðsl frá því slík meiðsl höfðu áhrif á minn íþróttaferil. Ég myndi aldrei gera grín að höfuðhöggum, rölti til Hlyns eftir leikinn í Seljaskóla til að spyrja hvort væri í lagi og við Justin Shouse fyrir leik liðanna í Ásgarði til að spyrja af honum frétta.

Ég harma að þetta mál hafi tekið athygli frá ótrúlega spennandi seríu milli þessara liða sem réðst öll á síðustu sekúndum hvers leiks eftir gríðarlega baráttu.

Ég ítreka að gríninu var ekki beint að áverkum Hlyns og þá sem að grínið særði bið ég afsökunar.

Áfram körfubolti og áfram ÍR.

Auglýsing

læk

Instagram