Elín varð fyrir andlegu ofbeldi í sambandi: „Ég var alltaf á tánum bara”

Elín Elísabet var hálft ár í sambandi þar sem að hún upplifði andlegt ofbeldi. Elín segir að sambandið hafi byrjað vel en fljótlega hafi hún séð að það var ekki allt eðlilegt. Sagan er hluti af herferðinni Þekktu rauðu ljósin. Sjáðu myndbandið hér að neðan.

„Fyrst leið mér bara ótrúlega vel í sambandinu og þetta var ótrúlega gaman og ég hélt ég væri bara búin að finna hinn fullkomna mann.”

Hún segir að það hafi komið upp hnökrar sem hún afskrifaði bara sem byrjunarörðugleika. Hún hafi farið að finna fyrir mikilli tortryggni frá honum og afbrýðisemi af ástæðum sem að hún skildi ekki.

„Ég var alltaf á tánum bara. Ég var alltaf hrædd um að hann myndi stökkva upp á nef sér. Af engri ástæðu af því að ég skildi aldrei hvað ég hefði gert til þess að gera reiðan og það var stundum ekki neitt.”

Elín segist smám saman hafa hætt að treysta honum og hætt að virða hann og að lokum hafi hún slitið sambandinu. Í kjölfarið hafi hann reynt að sannfæra hana um að hún væri að gera mikil mistök. Hún segir frá atviki þar sem þau hittust bæði drukkin.

„Þar tók hann brjálæðiskast og öskraði og öskraði og öskraði. Kallaði mig öllum illum nöfnum. Fór að ráðast á húsgögnin, öskra og gráta til skiptis og hóta að drepa sig.“

Elín segist í dag mjög þakklát fyrir að hafa endað sambandið snemma þó að fyrsta hugsun hennar hefði verið að hún hefði átt að fatta þetta fyrr.

„Núna lít ég til baka og er bara fegin að hafa yfir höfuð fattað þetta og komið mér út úr þessu.”

Herferðin Þekktu rauðu ljósin er svar Kvennaathvarfsins og Bjarkarhlíðar við síaukinni eftirspurn ungs fólk eftir aðstoð vegna ofbeldis í nánum samböndum. Umræðan um ofbeldi í nánum samböndum beinist oft að fólki sem hefur búið saman og ofbeldið átt sér stað innan veggja heimilisins en skortur er á efni sem beint er til fólks sem er að hefur nýhafið samband.

Herferðin miðar að því að minna á að ofbeldi birtist smátt og smátt í samböndum, að ýmis viðvörunarmerki eru oft undanfari ofbeldisins.  Vitundarvakningin felst í stuttum myndböndum þar sem nokkrar hugrakkar konur sem stigið hafa út úr ofbeldissamböndum líta til baka og ræða viðvörunarljósin sem birtust í sambandinu þó þær hafi ekki séð þau fyrr en of seint. Það er von okkar að þessi vitundarvakning auki skilning fólks á ofbeldi í nánum samböndum og hjálpi fólki að sjá rauðu ljósin áður en til ofbeldis kemur.

„Það er von okkar að þessi vitundarvakning auki skilning fólks á ofbeldi í nánum samböndum og hjálpi fólki að sjá rauðu ljósin áður en til ofbeldis kemur.”

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Rauðu ljósanna. Einnig er hægt að kynna sér úrlausnir hjá Bjarkarhlíð og Kvennaathvarfinu.

Auglýsing

læk

Instagram