Gripinn fyrir hraðakstur 42 daga í röð

Austurrískur bakari fékk sekt upp á þrjú þúsund evrur, sem jafngildir rúmlega 375 þúsund krónum, fyrir að aka of hratt á sama veginum 42 daga í röð að því er kemur fram í frétt á vef BBC.

Heimo Wallner var gripinn af eftirlitsmyndavél í hvert skipti sem hann keyrði heim úr vinnunni á nóttunni. Skilti voru við veginn sem sýndu hámarkshraðann, sem var 30 km, en Heimo sagðist í samtali við austurríska fjölmiðla ekki hafa séð skiltið í myrkrinu og því keyrt á 50 km hraða.

Heimo byrjaði að vinna í Klagenfurt í febrúar og þarf að keyra í um það bil hálftíma í og úr vinnu en hann fékk sína fyrstu sektina í maí síðastliðnum.

„Þá hugsaði ég með mér að sennilega væru fleiri sektir á leiðinni og að þetta yrði örugglega dýrt.“

Af 50 ferðum mældist Heimo á 50 km hraða 42 sinnum í röð en hraðamyndavélin sem gómaði hann var útbúin innrauðu ljósi og því kom ekkert flass þegar hún náði myndum af honum.

Heimo borgaði sektirnar, 42 talsins, samviskusamlega en lögreglan gaf honum 300 evra afslátt, um það bil 37 þúsund krónur, af því að hann borgaði þær strax.

Hann sagði kostnaðinn tölvuverðan fyrir sig sjálfan og að upphæðin væri á við tveggja mánaða laun hjá honum. Hann bætti við að hann hefði þurft að hætta við að fara í ferðalag til Grikklands með konunni sinni en hún kenni honum þó ekki um hvernig fór.

Auglýsing

læk

Instagram