Gummi Ben svaf vel í nótt þrátt fyrir komu Joey Barton: „Gæli við að hann hafi þroskast með aldrinum“

Knattspyrnumaðurinn umdeildi, Joey Barton, er staddur á Íslandi í fríi. Barton sást meðal annars á tónleikum Red Hot Chili Peppers í Laugardalshöll í gærkvöldi og sat glaður fyrir á myndum með aðdáendum sínum. Hann er þekktur vandræðagemsi og er nú í banni frá fótboltaiðkun eftir að hafa brotið reglur um veðmál.

Kappinn á marga aðdáendur hér á landi en íþróttafréttamaðurinn Guðmundur Benediktsson er ekki einn af þeim. Frægt var þegar Guðmundur lýsti viðureign Manchester City og QPR í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar árið 2012.

Barton gerðist sekur um mikinn dómgreindarbrest í leiknum og í lýsingunni hraunar Guðmundur gjörsamlega yfir hann. Hlustaðu á lýsinguna í spilaranum hér fyrir ofan. Guðmundur sagði meðal annars að Barton væri aumingi sem ætti ekki heima í íþróttum og lagði það til að hann yrði fangelsaður. Guðmundi varð þó ekki að ósk sinni því Barton gengur laus — og það á Íslandi!

Nútíminn náði tali af Guðmundi í morgun og spurði hann hvort búið væri að gera einhverjar ráðstafanir á hans heimili vegna komu Barton. „Nei nei, ég missi nú ekkert svefn yfir því að hann sé mættur og svaf eins og ungabarn í nótt,“ segir Guðmundur léttur.

Ég er að gæla við að hann hafi þroskast með aldrinum.

Þeir félagar hafa ekki skipulagt að hittast en Guðmundur útilokar ekki neitt. „Ef hann hefur áhuga á því að hitta mig þá reikna ég með því að hann hafi samband. Ég er alltaf til í að hitta menn og ræða málin.“

Auglýsing

læk

Instagram