https://www.xxzza1.com

Hættulegasti svikahrappur sögunnar tengdist Íslandi

Paolo Macchiarini var eitt sinn álitinn einn fremsti skurðlæknir heims en hann var talinn hafa brotið blað í sögu læknavísinda þegar hann græddi plastbarka í fjölmarga sjúklinga – þar á meðal Erítreumanninn Andemariam Beyene sem búsettur var á Íslandi. Fall Macchiarini var þó það hæsta sem þekkist í læknavísindum því nokkrum árum eftir fyrstu aðgerðina kom í ljós að öll „vísindin“ á bakvið skurðaðgerðir og ígræðslur hans voru byggð á glæpsamlegum blekkingum.

„…og hafði Tómas reynt með skurðaðgerðum að bjarga lífi hans en krabbameinið tók sig alltaf upp aftur.

Þessi ótrúlega saga er nú í sviðsljósinu á ný en streymisveitan Netflix hóf að sýna heimildarþætti um Macchiarini í síðustu viku. Þar er rakin saga hans, plastbarkamálið umdeilda og svo ástarsamband sem allt var byggt á lygum.

Tveir Íslendingar tengjast sögu Macchiarini

Íslenskir fjölmiðlar fjölluðu mikið um málið á sínum tíma enda var fyrsti sjúklingur Macchiarini, sem átti að fá umræddu plastbarka ígræðslu, búsettur á Íslandi. Það var Erítreumaðurinn Andemariam Beyene en hann var á þeim tíma í umönnun hjá „Lækna-Tómasi“, íslenska skurðlækninum Tómasi Guðbjartssyni. Beyene var með ólæknandi krabbamein í hálsi og hafði Tómas reynt með skurðaðgerðum að bjarga lífi hans en krabbameinið tók sig alltaf upp aftur. Þegar það var ljóst var ekkert sem Tómas gat gert meira til þess að bjarga lífi hans og ákváðu krabbameinslæknar á Landspítalanum að vísa Beyene á Karolinska-sjúkrahúsið í Stokkhólmi. Karolinska-sjúkrahúsið hefur lengi verið álitið eitt besta sjúkrahús í heimi en Nóbel-verðlaunin í læknavísindum voru valin af starfsfólki þess og veitt á Karolinska.

Á Karolinska-sjúkrahúsinu beið sérfræðiteymi Macchiarini sem treysti svikula skurðlækninum út fyrir endamörk alheimsins. Þar biðu líka örlög Beyene sem fékk græddan í sig gallaðan plastbarka og lést í kjölfarið – vegna alvarlegs fylgikvilla enda kom síðar í ljós að engin vísindi studdu umræddar aðgerðir Macchiarini. Allt var byggt á blekkingum og lygum.

Landlæknir skrifaði undir ráðningarsamninginn

En það var ekki eina Íslandstenging Macchiarini því sá sem skrifaði undir ráðningarsamning hans á Karolinska-sjúkrahúsið var einnig Íslendingur – Birgir Jakobsson, fyrrverandi landlæknir. Sjálfur segir Birgir að hann hafi ekki persónulega komið að ráðningu Macchiarini – um hafi verið að ræða stjórnsýslulega aðgerð „…sem sjúkrahússtjóri skrifar undir ásamt rektor KI mörgum sinnum í mánuði enda eru 2.500 læknar á Karolinska og ca 300 af þeim með aðalráðningu á KI.“

Þetta sagði Birgir við fyrirspurn mbl.is 13. nóvember árið 2017.

„Sjúkrahússtjóri er ekki að öðru leyti viðriðinn ráðningar lækna eða annars heilbrigðisstarfsfólks. Hann ræður náttúrulega sviðsstjóra og samþykkir ráðningu yfirlækna,“ sagði hann enn fremur og bætti við að hann hefði enga ástæðu til þess að hafa skoðun á ráðningu Macchiarini á sínum tíma enda hafi hann vitað mjög lítið um hann.

Allir létu lífið

Allir þeir sjúklingar sem Macchiarini græddi plastbarka í létu lífið vegna alvarlegra fylgikvilla, nema einn – eftir því sem heimildarþættirnar komast næst. Þrír á sjúkrahúsinu í Stokkhólmi, tveir karlmenn og ein kona, eitt lítið barn í Bandaríkjunum og að minnsta kosti, eftir því sem vitað er, ein kona í Rússlandi. Öll höfðu þau fengið grædda í sig meingallaða plastbarka, sem eins og áður segir, voru framleiddir án nokkurra vísindalegra rannsókna. Einn er sagður á lífi en sá lét fjarlægja plastbarkann.

Netflixþættirnir bera nafnið „Bad Surgeon: Love Under The Knife“ og eru þrír talsins. Þetta eru átakanlegir og hreint og beint sjokkerandi þættir sem við hvetjum ykkur til að horfa á. Lygavefur Macchiarini teygði sig út um allan heim og við viljum ekki eyðileggja fyrir okkur áhorfið með frekari upplýsingum sem koma fram í þáttunum – öðrum en þeim sem nú þegar hefur verið greint frá í íslenskum fjölmiðlum.

Macchiarini var í sumar dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi í Svíþjóð fyrir þær aðgerðir sem hann framkvæmdi á Karolinska-sjúkrahúsinu.

Auglýsing

læk

Instagram