Hinn þrítugi Rotondo flutti loksins að heiman eftir rifrildi við föður sinn vegna legó-kubba

Michael Rotondo, þrítugur Bandaríkjamaður, er loks fluttur út frá foreldrum sínum. Dómstóll í New York úrskurðaði í síðasta mánuði að hann yrði að flytja heiman og í gær yfirgaf hann heimili sitt. Hann fór þó ekki átakalaust en áður en hann kvaddi foreldra sína sigaði hann lögreglunni á pabba sinn vegna rifrildis um legó-kubba.

Í umfjöllun BBC um málið segir að hann hafi yfirgefið heimili foreldra sinna nokkrum klukkutímum áður en fresturinn sem hann fékk í dómnum rann út. Foreldrar hans höfðuðu mál gegn honum í síðasta mánuði eftir árangurslausar tilraunir til þess að koma honum út úr húsinu.

Sjá einnig: Súrrealískt viðtal við þrítuga manninn sem var dæmdur til að flytja út frá foreldrum sínum

Hann tilkynnti fjölmiðlum fyrir utan húsið í gær að hann hefði hringt á lögreglu eftir að faðir hans neitaði að leyfa honum að taka legó-kubba sem átta ára sonur hans á. Faðir Michael Rotondo, Mark, neitaði að hleypa honum inn í húsið og sagðist frekar ætla að ná í kubbana sjálfur. Þegar lögregla mætti á svæðið voru kubbarnir komnir í réttar hendur.

Fyrr í vikunni sagði hann fjölmiðlum að hann vildi ekkert meira með foreldra sína hafa og að hann væri ánægður að vera að fara frá þeim. Hann hefur ekki enn fundið sér húsnæði en hann ætlar sér að búa í Airbnb íbúð næstu vikur.

Auglýsing

læk

Instagram