Leikmaður KR dæmdur í 5 leikja bann fyrir kynþáttafordóma

Björgvin Stefánsson, leikmaður KR í Pepsi Max deild karla í fótbolta, hefur verið dæmdur í 5 leikja keppnisbann fyrir rasísk ummæli sem hann lét út úr sér er hann lýsti leik Hauka og Þróttar í Inkasso deild karla í síðasta mánuði, en Aga- og úrskurðarnefnd Knattspyrnusambands Íslands kvað í dag upp úrskurð sinn í málinu.

Þá voru Haukar einnig sektaðir um 100 þúsund krónur. Björgvin má þá ekki mæta á leiki Hauka á meðan á banninu stendur.

„Björgvin Stefánsson skal sæta leikbanni í fimm leiki í keppnum á vegum KSÍ og tekur bannið gildi nú þegar. Auk þess sætir Björgvin banni frá leikvelli Hauka á Ásvöllum á meðan leikbannið varir. Knattspyrnudeild Hauka skal sæta sekt að upphæð kr. 100.000 til KSÍ.“

Björgvin var eins og áður segir fenginn til þess að lýsa leik Hauka og Þróttar á Haukar TV. Þar lét hann ummælin falla í garð Archange Nkumu leikmanns Þróttar. „Þetta er það sem ég er alltaf að segja. Það er svo stutt í villimannseðlið hjá svarta manninum,” sagði Björgvin.

Niðurstaðan þýðir að Björgvin verður í banni til 21. júlí þar sem KR mætir Stjörnunni í Pepsi Max deildinni.

Sjá einnig: Örskýring: Leikmaður í Pepsi Max deild karla gæti verið á leið í bann fyrir rasísk ummæli

Auglýsing

læk

Instagram