today-is-a-good-day

Nökkvi Fjalar kemur alveg ofan af fjöllum: „Algjört sjokk“

Nökkvi Fjalar Orrason, einn af stofnendum Áttunnar, segist alveg koma af fjöllum hvað varðar mál hakkarans sem hefur eytt öllu út af samfélagsmiðlum áhrifavaldateymisins. Ljóst er að uppátækið kostar teymið mikla vinnu, enda höfðu vinsælustu myndbönd Áttunnar, „Nei nei“ og „Ekki seena“ fengið meira en milljón áhorf hvort á YouTube. Nú séu þau met fyrir bí, þar sem allt efni hefur verið hreinsað af samfélagsmiðlum Áttunnar.

Sjá einnig: Dularfullur hakkari útrýmir Áttunni 

 

Netverjar hafa ýmislegt að segja um þetta uppátæki og vilja margir meina að það sé augljóslega úr smiðju Áttunnar sjálfrar. Margt bendi til þess að þetta sé aðeins sniðug markaðsherferð, t.d. sú staðreynd að Spotify-reikningur sveitarinnar er ennþá opinn og enn sé hægt að hlusta þar á lagið „Nei nei“ sem hakkarinn vísar augljóslega í, í mótmælum sínum.

View this post on Instagram

Útrýming Áttunnar

A post shared by Áttan Miðlar (@attanmidlar) on

Samfélagsmiðlateymið er þekkt fyrir að vera mikið milli tannanna á fólki og kæmi því lítt á óvart að um einhverja brellu af hálfu Áttunnar sé að ræða. Nökkvi Fjalar segist hinsvegar að svo sé ekki og að sveitin hafi ekki hugmynd um hvað sé í gangi. Nútíminn hefur enn ekki náð tali af Nökkva Fjalari en aðrir Áttu-liðar beina öllum spurnum beint til hans. Nökkvi Fjalar segist í samtali við Vísi fyrr í kvöld hafa komist að þessu á sama tíma og allir aðrir.

Nökkvi Fjalar segist óviss um hvað hafi gerst og að skyndilega hafi honum farið að berast skilaboð þess efnis að ráðist hafi verið á samfélagsmiðla sveitarinnar og öllu efni eytt út. „Síminn hefur varla stoppað síðan“ segir Nökkvi Fjalar við blaðamann Vísis.

„Við erum bara í smá sjokki yfir þessu. Það er búið að henda öllu út, „Neinei“ og allt er farið út,“ sagði Nökkvi í samtali við Vísi. Hann bætir jafnframt við að þetta sé rosalegt sjokk og að þetta komi hópnum verulega á óvart.

Nökkvi Fjalar segist vera í óðaönn að skoða hvað hafi raunverulega átt sér stað þó Áttu-liðar hafi engan grunaðan um verknaðinn að svo stöddu. Mögulega gæti verið um einhverskonar grikk að ræða, segir Nökkvi Fjalar kíminn en biður fólk þó að hafa samband við sig hafi það einhverjar upplýsingar.

Ásetningur hakkarans dularfulla er enn óræður, því óneitanlega veitir þetta Áttunni óskipta athygli á ljósvaka- og samfélagsmiðlum sem virðist vera þvert á við það sem hakkarinn hefur í huga, en hann uppnefnir Áttuna „drasl“ og sakar þau um að vilja eyðileggja heyrn landans með tónverkum sínum. Nútíminn hefur ítrekað reynt að ná tali af Áttu-liðum og má þá ætla að aðrir fjölmiðlar hafi gert slíkt hið sama, sem eykur aðeins á umtal og vinsældir sveitarinnar.

 Í athugasemdum undir myndbandinu á YouTube hafa nokkrir notendur einnig bent á að nær ómögulegt sé að hakka sig inn á YouTube-reikninga, sem eru vel varðir af streymissíðunni sjálfri. Aðrir benda á að Áttunni hafi hallað undir fæti í umræðunni undanfarið og þetta sé einfaldlega þeirra leið til að koma sér aftur á kortið.
 

Hvort sem um einhverskonar grín-stríðsyfirlýsingu, markaðsbrellu af hálfu Áttunnar eða raunverulega hakkara-áras er ljóst að Áttan hefur enn á ný vakið athygli á sér, hvort sem netverjum líkar það betur eða verr. Hakkarinn knái segir fólki að fylgjast með framhaldinu á næstu dögum þannig ólíklegt er að þetta sé síðasta orðið sem heyrist af Áttu-liðum.

Auglýsing

læk

Instagram