Páll Bergþórsson veðurfræðingur skellti sér í fallhlífastökk í tilefni af 95 ára afmælinu

Páll Bergþórsson veðurfræðingur skellti sér í fallhlífarstökk í gær í tilefni af 95 ára afmæli sínu. Hann segist ekki vilja hafa misst af þessu tækifæri í færslu á Facebook-síðu sinni.

„Það var ekki seinna vænna fyrir gamlan veðurvita að bregða sér í fallhlífarstökk og komast í nánara samband við loftið sem maður þykist alltaf vera að fræða um,“ sagði Páll.

Hann flaug frá Hellu á Rangárvöllum upp í þriggja kílómetra hæð og stökk sér þaðan út úr flugvélinni. Hann lýsir ánægju sinni með stökkið og segir upplifunina alls ekki óþægilegri en að standa á 10 metra háum vegg.

Hann segist hafa skoðað dýrð fjallahringsins, hafs og lands þangað til að hann „settist“ í loftinu og renndi sér eftir nýslegnum grasvelli.

„Vildi ekki hafa misst af þessu“

Bergþór sonur Páls greindi frá því fyrr í gær á Facebook að Páll faðir hans hafi viljað prófa fallhlífarstökk eftir að hafa horft á þá Bergþór og Albert, eiginmann hans, fara í fallhlífastökk um daginn. Á afmælisdegi Páls þann 13. ágúst síðastliðinn hafi ekki viðrað vel til stökks en í gær hafi viðrað svona ljómandi vel.

„Svo nú er hann á leið út í vél, og á eftir að klifra í 3000 m áður en honum verður fleygt út. Alltaf gaman að lifa lífinu!“

;

Auglýsing

læk

Instagram