Skipuleggjendur Fyre Festival greiða milljónir í skaðabætur

[the_ad_group id="3076"]

Skipuleggjendur tónlistarhátíðarinnar Fyre Festival þurfa að borga tveimur gestum samtals fimm milljónir dala, eða rúmlega 500 milljónir íslenskra króna, í skaðabætur. Hátíðin lofaði lúxus og allsnægtum á einkaeyjunni Great Exuma í Karíbahafi en reyndist vera algjört klúður.

Seth Crossno og Mark Thompson borguðu 13 þúsund Bandaríkjadali, eða tæplega eina og hálfa milljón króna, fyrir VIP-miða á tónlistarhátíðina. Áhrifavaldar á samfélagsmiðlum og frægt fólk auglýsti hátíðina þannig að mikið virtist í hana spunnið en þegar á staðinn var komið varð gestum ljóst að ekki var allt sem sýndist.

Sjá einnig: Héldu að þau myndu njóta lífsins á Fyre Festival, sváfu með rennandi blaut teppi í lekum tjöldum

Í stað lúxusaðstöðu blasti hálfklárað tónleikasvæðið við gestunum en einhverjir þeirra líktu aðstöðunni á svæðinu við flóttamannabúðir. Þegar fólkið ætlaði að forða sér burt af eyjunni gekk það erfiðlega og margir urðu strandaglópar á flugvellinum.

[the_ad_group id="3077"]

Þeir Seth og Mark kærðu skipuleggjendur hátíðarinnar í maí á síðasta ári. Seth sagði skipuleggjendur hátíðarinnar ekki bara vera að svindla á sér heldur hafi þetta verið fjársvik sem gekk alltof langt.

Billy McFarland, skipuleggjandi hátíðarinnar situr nú í fangelsi en hann lýsti sig sekan um fjársvik fyrr á þessu ári. Hann var einnig sakaður um að selja falska miða aðra viðburði svo sem á tónlistarhátíðina Coachella, tískusýningu Victoria’s Secret og góðgerðarviðburðinn Met Gala.

Auglýsing

læk

Instagram