Steingrímur og Bjarni ósáttir með umræðuna í kringum Piu: „Yfirlæti og beinlínis dónaskapur gagnvart dönsku þjóðinni”

Nú er í gangi hátíðarþingfundur Alþingis á Þingvöllum. Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins, ávarpar þingið á fundinum en sú ákvörðun að fá hana hefur þótt umdeild. Píratar sniðganga fundinn vegna hennar. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, segir að ákvörðunin um að fá Piu til þess að ávarpa þingið tengist ekki skoðunum hennar heldur embætti. Þetta kemur fram í frétt RÚV.

Steingrímur segir að honum þyki miður að málið hafi verið blásið upp í dag.

„Við skulum minnast þess að þetta voru samningar milli þjóðanna og þjóðþingin léku þar lykilhlutverk. Þannig að það er forseti danska þingsins fyrir hönd gagnaðila að sambandslagasamningnum sem á þar í hlut en ekki einstaklingurinn Pia Kjærsgaard og mér þykir miður að fólk sé að blása upp málið á öðrum forsendum en þeim,“ segir Steingrímur við RÚV.

Sjá einnig: Logi ekki sáttur með Piu: „Þykir það miður að einn helsti talsmaður sundurlyndis og útlendingahaturs í Evrópu fái pláss”

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokkinn, gagnrýndi einnig umræðuna um þátttöku Piu Kjærsgaard.

Hann segir í pistli á Facebook síðu sinni að það sé yfirlæti og beinlínis dónaskapur gagnvart danska þjóðþinginu og dönsku þjóðinni að virða ekki embætti danska þingsins.

„Ég deili ekki skoðunum viðkomandi stjórnmálamanns á ýmsum hlutum og hef skilning á því að fólk hafi skoðun á og sé ósammála áherslum hans. En það er óskylt lýðræðinu að virða ekki embætti danska þingsins. Það er yfirlæti og beinlínis dónaskapur gagnvart danska þjóðþinginu og dönsku þjóðinni. Það er mitt viðhorf,“ segir Bjarni.

Auglýsing

læk

Instagram